Ég er reiður

Steindór J. Erlingsson

„Stóra spurningin er hvernig við getum horft framan í heiminn þegar við byrjum að fá á okkur gagnrýni fyrir að halda gögnum leyndum ...“. Framkvæmdastjóri útgáfumála hjá AstraZeneca, framleiðanda Seroquel, í innanhústölvupósti 6. desember, 1999.

Í rúm tuttugu ár hef ég barist við mjög alvarlegt þunglyndi og kvíða. Í þessari baráttu hef ég innbyrgt mikið magn lyfja af ýmsum gerðum. Ber þar helst að nefna þunglyndislyf og geðrofslyf. Megnið af þessum tíma hef ég treyst því að lyfin sem ég fékk byggðu á traustum vísindalegum grunni. Á undanförnum misserum hefur þetta traust minnkað snarlega. Ekki að ástæðulausu því eins og segir í leiðara British Medical Journal, sem birtist á vefsíðu tímaritsins 12. október sl., er brýnna aðgerð þörf til þess að „endurvekja trúna á fyrirliggjandi vísindagögn“ í læknisfræðinni. Hér liggur rót reiði minnar.

Frá því í lok desember 2008 hef ég lesið mikinn fjölda bóka og vísindagreina sem hafa smátt og smátt opnað augu mín fyrir vandamálinu sem BMJ gerir að umtalsefni í leiðara sínum. Þar sem ég á sjálfur við geðröskun að stríða hefur þessi opinberun eðlilega kveikt talsverða reiði innra með mér. Sérstaklega eftir að ég komst að því að lyfjafyrirtæki hafa beitt blekkingum til þess að koma á markað sumum þeirra þunglyndis- og geðrofslyfja sem ég hef innbyrgt. Hvernig eru slíkar blekkingar framkvæmdar?

Rannsóknir hafa leitt í ljós að lyfjapróf sem fjármögnuð eru af lyfjafyrirtækjum (í dag eru rúmlega 70% af lyfjaprófum fjármöguð af þeim) eru mun líklegri til þess að sýna marktækan mun á lyfi og lyfleysu eða samkeppnislyfi en þegar þau eru fjármögnuð af óháðum aðilum. Vandamálið snýst um að lyfjafyrirtækin halda öllum gögnum, takmarka þannig aðgang rannsakenda að þeim og láta oft „draugahöfunda“ skrifa vísindagreinar.

Ein alvarlegasta birtingarmynd þessa er þegar lyfjafyrirtæki birta ekki niðurstöður neikvæðra lyfjaprófa eða birta þau sem „jákvæð“. Með þessu móti er dregin upp röng mynd af mögulegri virkni lyfja. Þessari aðferð hefur verið beitt við markaðssetningu ýmissa þunglyndislyfja sem komið hafa á markað á undanförnum rúmum tuttugu árum.

Önnur aðferð felst í því að draga úr eða birta ekki upplýsingar um alvarlegar aukaverkanir. Framleiðendur geðrofslyfja, s.s. ZyprexaSeroquel og Risperdal, beittu m.a. þessari aðferð til þess að sannfæra lækna um að lyfin stæðu framar eldri gerðum geðrofslyfja. Rannsóknir hafa hins vegar leitt í ljós sú er ekki raunin. Í umsögn um eina slíka rannsókna, sem birtist í læknablaðinu Lancet 3. janúar, 2009, segir að læknar hafi verið blekktir í nærri 20 ár og einungis núna séu þeir að átta sig á sannleikanum. Hér er um alvarlegt mál að ræða því áður en nýju geðrofslyfin komu á sjónarsviðið um miðjan síðasta áratug 20. aldar var markaðurinn fyrir þau lítill og miðaðist aðallega við einstaklinga með geðklofa. Ávísun nýju lyfjanna hefur hins vegar vaxið gríðarlega og eru þau í dag m.a. notuð til þess að meðhöndla kvíða og svefntruflanir.

Af framansögðu má ljóst vera að læknar hafa ekki síður en sjúklingar verið blekktir. Þeir geta hins vegar ekki fríað sig ábyrgð. Í bók lífsiðfræðingsins Carls Elliott, White Coat, Black Hat: Adventures on the Dark Side of Medicine (2010), er fjallað um þennan vanda sem læknisfræðin stendur frammi fyrir. Eitt af því sem hann gerir að umtalsefni eru samskipti lækna við lyfjaiðnaðinn. Elliott segir læknasamfélagið hafa deilt áratugum saman um hvort auglýsingar, gjafir, námsferðir eða önnur hlunnindi sem lyfjaiðnaðurinn og fulltrúar hans láta læknum í té hafi áhrif á lyfjaávísanir þeirra. Í dag liggur hins vegar ljóst fyrir að þessi samskipti hafa oft bein áhrif á hvernig og hvaða lyfjum læknar ávísa, enda segir Elliott endurteknar rannsóknar hafa staðfest þetta.

Í ljósi þess sem fram hefur komið þá hlýt ég að spyrja:

Af hverju halda læknar áfram að eiga bein samskipti við fulltrúa lyfjaiðnaðarins?

Af hverju leyfði Geðlæknafélag Íslands fulltrúum lyfjaiðnaðarins að sitja fyrir gestum á vísindaþingi félagsins í vor?

Af hverju tóku íslenskir geðlæknar þátt í skipulagningu fundar í vor þar sem til stóð að fulltrúi lyfjafyrirtækisins Pfizer, framleiðandi hins rándýra kvíðalyfs Lyrica, gagnrýndi eldri gerðir kvíðalyfja? Er það eðlilegt að lyfjaiðnaðurinn borgi með auglýsingum rúmlega 90% af rekstarkostnaði Læknablaðsins?

Við þurfum að fá svör við þessum og skyldum spurningum, þó ekki væri nema til að koma í veg fyrir að læknar fari að ávísa nýjum og rándýrum lyfjum sem síðar mun koma í ljós að standa ekki framar fyrirliggjandi lyfjum. Þangað til mun reiðin halda áfram að krauma innra með mér.

Steindór J. Erlingsson
Vísindasagnfræðingur
steindor@akademia.is

Þessi grein Steindórs birtist upphaflega á pressan.is  þann 26.11.2010


Geðsjúkum mismunað á nýja háskólasjúkrahúsinu?

spitalatorg2Ég hef verið að skoða og kynna mér nýja háskólasjúkrahúsið. Þetta nýja háskólasjúkrahús á að vera mjög flott og standast nútímakröfur. Þar er meðal annars talað um að allar sjúkrastofur verði einstaklingsherbergi með sér baðherbergi og aðgengi út á skjólsæla þakgarða sem snúa vel við sólu þar sem rækta má rósir og lækningajurtir.

Þetta hljómar mjög vel og finnst mér þetta vera góð þróun. Það sem stakk mig þegar ég var að skoða teikningaranar er að geðsviðið á ekki að færast inn í nýja háskólasjúkrahúsið. Það á að halda áfram starfssemi í núverandi geðdeildarbyggingu. Ég fór að lesa mér til og skoða eins mikið af gögnum í sambandi við nýja háskólasjúkrahúsið eins og ég komst yfir. Ég sá að í upphafi ferlisins var hugmyndin að geðsviðið fengi aukið húsnæði en samkvæmt nýjustu skýrslum og teikningum er svo ekki. Það er samt talað um að endurbæta húsnæðið en ekki stækka það. Ég sé því ekki hvernig hægt sé að bæta aðstöðuna mikið því byggingin er nú þegar sprungin. Oft þarf að vísa sjúklingum frá eða útskrifa þá of snemma vegna skorts á plássum. Það er því ekki hægt að fjölga herbergjum til að allir fá eins manns herbergi, eða bæta við aðstöðu inn á deildum fyrir til dæmis iðjuþjálfun.

Af hverju fá geðsjúkir ekki sömu aðstöðu og aðrir sjúklingar? Ég persónulega hef legið inn á geðdeild og finnst aðstaðan þar vera óviðunandi. Flest herbergin eru tveggja manna sem getur verið mjög erfitt því sjúklingar eru í mismunandi ástandi. Ég hef oft lent í því að herbergisfélagi minn hefur haldið fyrir mér vöku eða truflað mig á annan hátt. Þetta er mjög slæmt þar sem margir sjúklingar hafa átt erfitt með svefn og þurfa nauðsynlega að komast í ró og næði. Hreinlætisaðstaðan er líka slæm, upp að 5 sjúklingar nota sama baðherbergið og sömu sturtuna. Þeir geta verið af báðum kynjum og í misjöfnu ástandi. Þetta aðstöðuleysi hefur áður verið í umræðunni og kallað hefur verið eftir úrbótum frá sjúklingum, starfsfólki og aðstandendum án mikils árangurs.

Það má samt nefna að flytja á bráðamóttöku geðsviðs inn í nýja háskólasjúkrahúsið þar sem verður sameinuð bráðamóttaka fyrir allt sjúkrahúsið. Að sumu leyti er það jákvætt og væntanlega verður þar mun betri aðstaða en er á núverandi bráðamóttöku. Það eru samt ekki allir sammála um kosti þess að hafa eina sameinaða bráðamóttöku, ég veit til dæmis um einstaklinga sem finnst það hræðileg tilhugsun að þurfa að fara á svona stóra bráðamóttöku þegar því líður svona illa. Það má líka nefna að á teikningu fyrir annan áfanga er sýnd möguleg stækkun geðdeildar. En því miður er það bara framtíðarmöguleiki eftir að annari áætlaðri uppbyggingu er lokið.

Mér og félögum mínum í Hugarafli finnst það mjög alvarlegt mál að verið sé að mismuna geðsjúkum í heilbrigðiskerfinu á Íslandi árið 2010! Eru þetta fordómar? Eru geðsjúkdómar annars flokks sjúkdómar í heilbrigðiskerfinu?

Elín Ósk Reynisdóttir


Batasaga: Af þunglyndi og félagsfælni.

Halló, ég er kölluð Dísa og mig langar að segja ykkur söguna mína.

Ég hef verið þunglynd, félagsfælin og með kvíða í mörg ár. Ég átti mjög erfiða æsku, þar sem mikið einelti kom til sögu. Alveg frá því ég var krakki byrjaði þunglyndið að festa sér rætur, það sem hélt mér gangandi og á lífi var fjölskyldan mín. Ég er mjög heppin með fjölskyldu, en ég átti enga vini og treysti engum nema mínum nánustu.

Eineltið var að mestu andlegt og það drap allt sjálfstraust og virðingu fyrir sjálfri mér. Það eina sem ég þráði var viðurkenning meðal jafnaldra minna, en fékk hana aldrei, og hef ekki fengið ennþá. Þar sem vinirnir voru engir var ég oftast ein, ég lék mér ein og var ein í skólanum, á móti 100 krökkum. Einsemdin þróaðist svo út í þunglyndi og kvíða.

Ég fékk aldrei faglega hjálp, þó beðið hafi verið um hana. Það er eitthvað sem mér finnst hvað sárast, að skólayfirvöld í mínum skóla hafi aldrei viljað hjálpa mér eða ekki haft ráð fyrir mig. Ég fékk ekki samtöl við sálfræðing, þó oft hafi verið beðið um það.

Eftir grunnskóla og eitt ár af framhaldsskóla, flosnaði ég upp úr námi og fór að vinna. Ég vann á hinum og þessum stöðum og vann mikið. Ég gat samt aldrei náð því að eignast vini af því að ég treysti ekki samstarfsfólki mínu og var farin að halda að allir væru jafn vondir og krakkarnir sem voru með mér í grunnskóla. Í mesta lagi náði ég að tengjast hinni og þessari stelpu sem voru að vinna með mér þann tímann og vera með henni, fara með þeim á djammið til dæmis. En ég var alltaf sama gólftuskan og lét þessar stelpur vaða yfir mig. Ég þóttist vera hress þegar ég var með þeim og bara í kringum fólk og var búin að búa mér til grímu, sem ég notaði alltaf í kringum aðra.

Seinni part unglingsáranna voru mér líka erfið líkamlega, ég þurfti að fara í margar aðgerðir á meltingarfærum og var mjög oft veik. Ég lá heima kannski vikum saman áður en eitthvað var gert fyrir mig. En læknar voru búnir að stimpla mig móðursjúka. Til dæmis var farið með mig á slysó í eitt skipti og þá sagði læknir: „kemur þessi“, þá var ég með gat á maga.

Eftir öll þessi ár þar sem ég var á vinnumarkaðinum og smá prufur af því að fara aftur í skóla. Ég náði þó að klára tækniteiknun, sem mér líkaði ekki að vinna við, og nánast klára sjúkraliðann, en þá gafst ég upp. Ég gat ekki klárað verklega námið vegna verkja í hnjám, þar sem ég er með slök liðbönd, sem ekki er hægt að laga.

Það var sumarið 2003, þá brotlenti ég. Ég hafði verið mjög þung þetta sumar og varð að fara fyrr heim úr sumarfríi með fjölskyldunni. Ég var hætt að geta sofið eða svaf mjög lítið, matarlystin minnkaði og ég var einræn og vildi ekki eiga samskipti við neinn. Hugsunin var sú að ég væri fyrir öllum og að ég væri betur komin, bæði fyrir mig sjálfa og mína nánustu, dauð. Ég hugsaði mikið um dauðann, skildi ekki af hverju nokkur maður vildi lifa.

Seint um sumarið reyndi ég fyrst sjálfsmorð. Ég hafði safnað að mér lyfjum og tók þau seint eitt kvöldið og lagðist upp í rúm. Einhverra hluta vegna þá hefur mamma fengið á tilfinninguna að eitthvað var að og hún kom inn til mín og fann mig þar á gólfinu. Eftir að hafa farið á bráðamóttökuna og dælt upp úr mér og mér gefin lyfjakol, var ég lögð inn á geðdeild.

Það var mjög erfitt, eiginlega erfiðara en allt annað að viðurkenna að ég væri svona veik að ég þurfti að fara á geðdeild. Eftir aðeins nokkra daga þar reyndi ég aftur sjálfsmorð. Næturvaktin kom að mér á gólfinu og ég var send aftur upp á bráðamóttöku í sömu meðferð og ég fékk í fyrra skiptið. Oft reyndi ég að skera mig á púls og brenna mig með sígarettum til að beina sársaukanum annað
Þá voru lyfin ekki farin að virka almennilega og það eina sem ég upplifði var skömm. Ég skammaðist mín fyrir að vera á geðdeild, ég skammaðist mín fyrir að hafa reynt sjálfsmorð, ég skammaðist mín fyrir að vera til. En alltaf voru foreldrar mínir til staðar og reyndu að stappa í mig stálinu,

Um haustið sá læknirinn minn að lyfin voru ekki að virka nógu vel á mig, svo hann vildi reyna raflostmeðferð. Ég var dauðhrædd, en samþykkti að reyna það. Meðferðin gekk vel og eftir 15 skipti af raflosti og betri líðan var ég útskrifuð af deildinni. Þá var ég byrjuð í iðjuþjálfun á landspítalanum og mætti þar eftir hádegi fimm daga vikunnar. Það hjálpaði aðeins, að hafa einhvern stað til að mæta á, því ekki gat ég farið í vinnu. Eftir nokkra mánuði var mætingin hjá mér farin að slappast mikið og ég kannski mætti einn eða tvo daga í viku. Þá var þunglyndið aftur farið að ná heljartökum á mér. Það endaði með annarri innlögn.

Svona gekk þetta í nokkur ár, ég var inni og út af deild og enn ein greiningin bættist við en það er persónuleikaröskun. Fékk slæm tímabil og sæmileg tímabil, sem voru að vísu mikið styttri en þau slæmu. Þegar ég vildi, leitaði ég ýmsa leiða til að láta mér batna, fór í nálastungur, heilun og til grasalæknis svo fátt eitt sé nefnt. En ekkert af þessu virkaði á mig, það getur vel verið að þetta sé gott fyrir aðra, en ekki mig.

Stundum vill maður ekki hjálp. Stundum eða oft í mínu tilviki, vildi ég bara fá að vera í friði og helst fá að sofa allan sólarhringinn. Á mjög slæmum dögum reyndi ég sjálfsvíg, alls sjö sinnum held ég, sem misheppnuðust sem betur fer hugsa ég núna, en var samt alltaf jafn vonsvikin þegar ég vaknaði eftir þær. Ég var búin að planleggja jarðarförina mína og allt, Það kostaði mig oftast innlagnir og vist og yfirsetu á b-gangi deildarinnar sem ég var á.

Ég hugsaði alltaf svo vitlaust, hélt að ég væri betur sett á himnum hjá ömmu minni og afa, og að ég væri baggi á fjölskyldu minni og þegar ég var hvað veikust þá var ég farin að hugsa sem svo að það væri verið að fylgjast með mér og að það væri faldar myndavélar útum allt. Þetta var svona eins og Truman show, þar sem fylgst er með einum manni alla hans ævi. Ég braut spegla og leitaði útum allt að myndavélum. Svona ranghugmyndir komu þegar ég var hvað veikust.

Ég fór líka í meðferðir á Reykjalundi og Kleppi, en þær voru ekki alveg að gera sig. Á Reykjalundi var ég svo óheppin að vera um mitt sumar þar sem allir voru í fríi og það eina sem ég gerði var að fara í sund og tækjasal. Ég fékk engin viðtöl hjá sálfræðingi, né það sem ég sóttist eftir og það var hugræn atferlismeðferð. Sú meðferð endaði á því að ég snarversnaði og var komin með ranghugmyndir og var komin í sturlunarástand og endaði inni á deild.

Svipað gerðist á Kleppi. Þar var ég komin og var í nokkuð góðu jafnvægi, þegar læknirinn minn ákvað allt í einu að ég mætti bara fara út tvisvar í viku í tvo tíma í senn og þá helst ekki heim til mín. Og eina vikuna var ég búin með kvótann þegar ég þurfti að fara á sjúkrahús til að heimsækja dauðvona ömmu mína og var bannað það, með þeim rökum að ég væri búin með kvótann minn. Það var úr að ég útskrifaði mig gegn læknisráði og heimsótti ömmu mína sem dó svo um nóttina.

Eftir þessara endalausu innlagnir og verandi í iðjuþjálfun, var ég alltaf í sömu sporunum, þar til iðjuþjálfunin lokaði í maí síðastliðnum. Þá var mér bent á Hugarafl og ég fór þangað í forviðtal og ég ákvað að reyna þetta.

Þar lærði ég sjálfsstyrkingu og sjálfstraustið jókst mikið. Ég að vísu tók að mér of mörg verkefni í byrjun sem ekki var mælt með og það endaði á því að ég sprakk og þurfti að fara á spítalann í nokkrar vikur þar sem lyfjunum voru breytt og ég fór í nokkur skipti í raflost. En þegar líða fór á haustið og ég útskrifuð, búin að vera með lungnabólgu og ferð til útlanda, fór ég aftur í Hugarafl og hef ekki farið þaðan síðan. Ég að vísu passa mig betur á að taka ekki of mikið að mér, þó það sé erfitt því Hugarafl er með svo mörg verkefni sem ég hef áhuga á.

Í dag líður mér bara nokkuð vel, þó það komi einstaka sveifludagar inn á milli. Ég lít á Hugarafl sem vinnuna mína og reyni að mæta þar á hverjum degi. Svo á ég líka æðislega fjölskyldu sem ég nýt að vera með. Og... ég á vinkonu, í fyrsta skipti á ævinni á ég vinkonu og reyndar fleiri vini, en þessi stelpa er alveg sérstök. Við kynntumst á Kleppi og höfum að vísu legið saman á deildinni, en við bara smellpössum saman. Ég á í dag fullt af vinum sem ég get talað við og farið með þeim á kaffihús, út að borða og á djammið ef svo ber til.

Mér sýnist á öllu í dag að mín framtíð sé björt og ég eigi vonandi eftir að láta gott af mér að leiða. Þetta er hægt, þó manni sýnist það ekki á dimmustu tímum. Batinn kemur.


Ekki einangra þig. Komdu á fróðlega kynningu hjá Hugarafli.

Hugarafl er félagsskapur fólks sem stríðir við geðrænan vanda.

Ef þú hefur eða ert að glíma við þunglyndi, kvíða, geðröskun eða eitthvað annað sem e.t.v. einangrar þig frá þátttöku í samfélaginu en vilt brjótast  úr viðjunum þá áttu að öllum líkindum erindi í Hugarafl.

KYNNING Á MIÐVIKUDAG.

Á miðvikudag, verður haldin kynning á starfi Hugarafls og eru allir velkomnir, bæði þeir sem glíma við vanda svo og aðstandendur sem vilja kynna sér úrlausnir eins og valdeflingu með Hugarafli.

Kynningin fer fram í húsakynnum Hugarafls í Álfabakka 16 (Mjódd) við hliðina á Heilsugæslunni, beint á móti gleraugnaversluninni Augastað og við hliðina á versluninni Gull-úrið.

Kynningin hefst klukka 13:00 (mæting 12:50) og stendur í um það bil 40 mín. fyrir utan spurningar og svör.

Allir fá kynningarbæklinga til að taka með heim.

Kynntu þér starfsemi Hugarafls - Komdu á kynningu.


Mikið fjör í Mjóddinni í dag.

Það er búið að vera mikið fjör hér í Mjóddinni í dag þar sem fjöldi fólks hefur tekið þátt í Alþjóða geðheilbrigðisdeginum.

Við sem stöndum að geðheilbrigðisþjónustu viljum þakka öllum sem lögðu leið sína hingað í dag í von um að dagurinn hafi verið fræðandi, skemmtilegur og ánægjulegur í alla stað.


Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn í göngugötunni í Mjódd í dag, sunnudaginn 10. október. Allir velkomnir.

Við höldum upp á alþjóða geðheilbrigðisdaginn í dag, sunnudaginn 10. október.

Af því tilefni er öllum boðið í skemmtilega veislu í göngugötunni í Mjódd kl. 13 til 16:30.

Dagskráin hefst með ávarpi en síðan verður boðið upp á fjölbreytt skemmti- og tónlistaratriði fyrir börn og fullorðna.

Kynningarbásar verða í göngugötunni þar sem gestir geta fengið margvíslegar upplýsingar er varða geðheilbrigðismál frá þeim stöðum sem vinna að málefninu.

Einnig verður boðið upp á veitingar á vægu verði.

Mætum öll og skemmtun okkur í geðgóðu umhverfi

Allir velkomnir.


Grein: Er AHDH ofgreint?

Að undanförnu hefur talsvert verið rætt í fjölmiðlum um athyglisbrest og ofvirkni (ADHD) og mögulega misnotkun á lyfjunum sem notuð eru til þess að meðhöndla geðröskunina.

Umræðan hefur fyrst og fremst snúist um að gagnrýna of mikla ávísun ADHD lyfja eða verja ágæti lyfjanna til þess að bæta líf þeirra fjölmörgu einstaklinga sem þau nota. Við þurfum að opna þessa umræðu enn frekar og spyrja tveggja mikilvægra spurninga: 1) Í samanburði við hvað er ávísun ADHD lyfja mikil hér á landi? 2) Er ADHD mögulega ofgreint?

1. Í grein eftir Helgu Zoëga, Matthías Halldórsson fyrrverandi aðstoðarlandlækni og fleiri, sem birtist á síðasta ári í Journal of Child and Adolescent Psychopharmacology, koma fram sláandi upplýsingar um geðlyfjaneyslu barna og unglinga hér á landi. Ávísun geðlyfja til þessa aldurshóps er sú mesta sem þekkist í Evrópu, en er að einhverju leyti sambærileg við það sem tíðkast í Bandaríkjunum.

Eins og bent er á í greininni eigum við heimsmet í ávísun þunglyndislyfja til barna og unglinga. Ávísun geðrofslyfja hér á landi er einnig langt umfram það sem tíðast í Evrópu, sem er varasöm þróun vegna alvarlegra aukaverkana geðrofslyfja.

Samkvæmt greininni hefur ávísun ADHD lyfja aukist gríðarlega á undanförnum tveimur áratugum. Ef Ísland er borðið saman við hin Norðurlöndin koma fram athyglisverðar tölur. Í samanburði við Finna nota Danir, skv. grein sem kom út í finnska læknablaðinu árið 2006, tvisvar sinnum meira af þessum lyfjum, Svíar þrisvar, Norðmenn átta en Íslendingar 22 sinnum meira.

Þrátt fyrir áhyggjur sumra lækna og vísindamanna af langtímaáhrifum þessara lyfja kemur fram í skýrslu lyfjaframleiðendanna, sem opinberuð var í upphafi mars, að fyrirtækin sjá ekki ástæðu til þess að kanna málið nánar.

2.Í ljósi mögulegra neikvæðra afleiðinga af langvarandi neyslu ADHD lyfja er mikilvægt að einungis þeir sem þurfa nauðsynlega á meðferðinni að halda fái hana. Það hlýtur því að vera talsvert áhyggjuefni þegar einn af höfundum skilgreiningarinnar á ADHD, bandaríski geðlæknirinn Allen Frances, viðurkenndi ítrekað fyrr á þessu ári í bandarískum fjölmiðlum að hún hafi stuðlað að „fölskum faraldri“.

Frances segir ADHD-netið hafa of þrönga möskva. Það hafi „fangað marga ‚sjúklinga‘ sem hefði líklega vegnað mun betur utan geðheilbrigðiskerfisins“. Ástæða þess að Frances getur haldið þessu fram er að við greiningu á ADHD, eða öðrum geðröskunum, er stuðst við huglæga spurningalista en ekki hlutlæg líffræðileg próf.

Eins og Allen Frances gefur í skyn fylgja ýmis vandamál flokkun og greiningu geðraskana og rista þau raunar svo djúpt að Frances og Steven E. Hyman, fyrrverandi forstjóri bandarísku geðheilbrigðisstofnunarinnar, hafa líkt þeim við ástand líffræðinnar áður en Darwin setti fram þróunarkenningu sína árið 1859. Má líkja sumum þeirra við þá staðreynd að fyrir daga Darwins var hægt að flokka höfrunga með fiskum og leðurblökur með fuglum því oftast var horft á yfirborðseinkenni, eins og geðlæknisfræðin gerir í greiningum sínum, en ekki undirliggjandi skyldleika.

Í september hefti Journal of Health Economics birtust tvær óháðar rannsóknir sem varpa skýru ljósi á þessa hættu. Í báðum rannsóknunum var kannað hvort aldur innan árgangs hefði áhrif á hvort börn eru greind með ADHD. Þegar horft er á einstaklinga sem eru að hefja skólagöngu sína þá eru yngstu börnin innan árgangsins, skv. annarri rannsókninni, 60% líklegri til þess að fá ADHD greiningu en þau sem eldri eru.

Þegar þessir einstaklingar eru komnir upp í 6. og 8. bekk er tvisvar sinnum líklegra að þeir séu á ADHD lyfjum en þeir sem eldri eru innan árgangsins. Höfundar beggja rannsóknanna telja þetta skýra vísbendingu um að „ADHD einkennin“ endurspegli einungis tilfinninga- og vitsmunalegan vanþroska yngstu nemendanna.Niðurstaða beggja rannsóknanna er því sú að u.þ.b. 20% þeirra barna og ungmenna í Bandaríkjunum sem fá ADHD greiningu séu ranglega greind.

Ég tel brýnt að sambærileg rannsókn verði gerð hér á landi því ef rétt reynist þá þurfa yngstu börnin í hverjum grunnskólaárgangi ekki lyf heldur þarf skólakerfið að koma til móts við þarfir þessara einstaklinga. Einnig tel ég heilbrigðiskerfið skulda almenningi skýringu á því af hverju ávísun geðlyfja til barna og unglinga hér á landi er jafn mikil og raun ber vitni. Það er kominn tími til að við sem samfélag horfum upp úr pilluglösunum og út fyrir greiningaprófin og spyrjum okkur hvort við séum á réttri leið.

Höfundur : Steindór J. Erlingsson.

Fréttablaðið, 2. október, 2010

Batasaga: Að lifa með geðsjúkdóm.

Ég greindist með geðklofa og þunglyndi fyrir nokkrum árum.

Ég var búinn að vera þunglyndur síðan á táningsaldri en leitaði mér ekki hjálpar fyrr en geðklofaeinkennin komu fram. Virku geðklofaeinkennin stóðu yfir í um það bil eitt ár. Þessi tími var gríðarlega erfiður fyrir mig og ég var orðinn mjög veikur bæði líkamleg og andlega. Verstu einkennin voru raddir í höfðinu, ofsóknarbrjálæði og ranghugmyndir.

Raddirnar voru mjög ágengar og töluðu um mig og til mín.

Stundum lýstu þær mínum athöfunum í smáatriðum og stundum töluðu þær til mín með mjög svo neikvæðum tón. Þær áttu það til að skipa mér fyrir og banna mér að gera hitt og þetta. Ef ég reyndi að þóknast þeim þá urðu þær bara enn ágengari og fundu eitthvað nýtt til að pína mig með. Ef ég reyndi að óhlýðnast þeim þá héldu þær bara áfram að djöflast í mér.

Það var sem sagt engin leið út. Raddirnar voru alltaf til staðar.

Á þessum tíma átti ég íbúð og var með þá ranghugmynd að nágrannar mínir væru að ofsækja mig. Ég hélt að íbúðin mín væri hleruð og að það væru hljóðnemar út um allt. Ég hélt að fötin mín og bíllinn minn væru einnig hleruð vegna þess að ég heyrði raddir út um allt.

Ég komst einnig að þeirri niðurstöðu að húsgögnin mín væru hleruð og innihéldu hátalara. Ég gekk svo langt að skera sófann minn í tætlur í leit að hljóðnemum.

Ég var líka farinn að halda að verið væri að lesa mínar hugsanir. Það var eina skýringin á því hvers vegna raddirnar vissu svona mikið um mig. Þær þekktu allar mínar hugsanir og öll mín leyndarmál.

Ég reyndi ýmislegt til að forðast og hindra raddirnar.

Ég prófaði eyrnatappa, heyrnaskjól, háværa tónlist og annað í þeim dúr en ekkert af því virkaði. Ég fór til heimilislæknisins míns og sagði honum að ég væri þunglyndur og að ég ætti erfitt með að sofa. Hann skrifaði upp á þunglyndislyf og svefnlyf handa mér.

Ég þorði ekki að segja honum að ég heyrði raddir því ég var hræddur um að hann myndi láta loka mig inni.

Mig var farið að gruna að eitthvað væri að mér en ég var samt ekki tilbúinn að horfast í augu við það. Þunglyndislyfin og svefnlyfin hjálpuðu lítið. Mér tókst að sofna á kvöldin bara til að vakna þremur tímum seinna við raddirnar. Ég tók því þá ákvörðun að selja íbúðina mína sem ég hafði átt í um það bil sex mánuði og kaupa mér raðhús. Ég hélt kannski að það að hafa færri nágranna myndi hjálpa mér í minni krísu. Að sjálfsögðu virkaði það ekki, raddirnar fylgdu mér hvert sem ég fór.

Þá tók ég þá ákvörðun að leita mér hjálpar, enda var ég kominn í þrot og hafði ekki lengur neinu að tapa.

Ég fór niður á geðdeild Landsspítalans og bað um að fá að hitta geðlækni. Ég var strax settur á geðrofslyf sem því miður virkuðu ekki og á næstu mánuðum prófaði ég nokkur lyf þangað til að loksins fannst lyf sem sló á þessi einkenni. Frá þeim tíma fór líf mitt að batna til muna. Það að vera laus við raddirnar, ranghugmyndirnar og ofsóknarbrjálæðið var dásamlegt.

Ég hafði verið með geðklofaeinkenni í rúmt ár og á þeim tíma hafði mér tekist að eyðileggja samband mitt við konu sem mér þótti mjög vænt um. Einnig hafði ég eyðilagt vináttu við minn besta vin og aðra kunningja. Ég stóð sem sagt einn uppi, með enga konu og enga vini. Ég var algerlega einn fyrir utan samband mitt við foreldra mína.

Svona lifði ég í um það bil tvö ár. Einn, ruglandi í mínum eigin heimi. Þessi félagslega einangrun fór illa með mig og var hindrun í mínu bataferli.

Það var þá sem ég samþykkti að fara í samtökin Hugarafl.

Geðlæknirinn minn hafði verið að reyna að fá mig til að fara í einhver svona geðhjálparsamtök í langan tíma en hingað til hafði ég alltaf neitað því. Ég vildi ekkert með aðra geðsjúka að hafavegna þess að þá þyrfti ég að viðurkenna að ég væri einn þeirra.

En veruleikinn var sá að mér leið ekki vel svona einum og einangraður frá lífinu og tilverunni þannig að ég samþykkti að prófa Hugarafl. Þar fór ég í forviðtal og sagði mína sögu og mér var mjög vel tekið. Ég fór að sækja fundi tvisvar í viku til að byrja með og ég fann að það gerði mér gott. Þó svo að það væri ekki mikið að mæta tvisvar viku fann ég að þessi félagslega einangrun var farin að brotna.

Tíminn leið og áður en ég vissi var ég kominn í ýmis verkefni innan Hugarafls. Vera mín í Hugarafli hafði sem sagt mjög góð áhrif á mig. Það að hafa fasta punkta í tilverunni með því að mæta reglulega gerði mér mjög gott félagslega og andlega.

Þarna kynntist ég fólki sem var bara eins og ég, manneskjur sem áttu við geðræn vandamál að stríða og það var bara allt í lagi. Ótti minn við annað geðsjúkt fólk var því misskilningur. Flest af þessu fólki var bara eins og annað fólk þó svo að það ætti við geðræn vandamál að stríða.

Eftir að hafa verið í Hugarafli í nokkra mánuði fór ég að kynna mér hugmyndafræði Hugarafls sem kallast valdefling (empowerment). Sú hugmyndafræði gengur út á það að taka stjórn á eigin lífi, að endurskilgreina sjálfan sig sem persónu fyrst og fremst frekar en sjúkling, að taka virkan þátt í samfélaginu, að vera vongóður og að sigrast á eigin fordómum.

Þessi hugmyndafræði hefur reynst mér mjög vel og hjálpað mér í mínu bataferli.

Í dag er ég orðinn nokkuð stöðugur andlega. Ég tek mín lyf og þau virka vel á geðklofaeinkennin. Ég er virkur í samtökunum Hugarafli og mæti þar reglulega á fundi. Þar hef ég kynnst mikið af góðu fólki og eignast þar góða kunningja.

Einnig hef ég öðlast hugsjón að vinna að málefnum geðfatlaðra og ég hef skrifað og þýtt greinar um þau málefni. Ég er kominn út úr skápnum með minn geðsjúkdóm og er hættur að skammast mín fyrir hann. Ég get sem sagt viðurkennt það fyrir sjálfum mér og öðrum að ég eigi við geðsjúkdóm að stríða.

Það að koma út úr skápnum með minn sjúkdóm hefur bætt líf mitt mikið. Það fer mjög illa með mann að vera með svona leyndarmál og geta ekki rætt þá hlið lífsins.

Ég vil því ráðleggja þér lesandi góður að leita þér aðstoðar ef þú heldur að þú eigir við geðræn vandamál að stríða.

Mín reynsla af bráðamóttökunni geðsviðs Landsspítalans er mjög góð og allir fagaðilar sem ég hef kynnst þar hafa reynst mér vel og þá sérstaklega geðlæknirinn minn sem hefur hjálpað mér mjög mikið og staðið við bakið á mér í mínum veikindum.

Ef þú ert þegar búinn að fá greiningu að þú sért með geðsjúkdóm þá mæli ég eindregið með því að þú kynnir þér samtök eins og Hugarafl, Geðhjálp, Klúbbinn Geysi o.s.frv.

Það að hitta annað fólk sem er að takast á við geðsjúkdóma gerir manni mjög gott. Maður kemst að því að maður er ekki einn og að aðrir hafa gengið í gegnum það sama og margir hafa náð miklum og jafnvel fullum bata í baráttunni við geðsjúkdóma.

Vertu því vongóð(ur) og gerðu þér grein fyrir því að það að greinast með geðsjúkdóm er ekki dauðadómur. Það er einfaldlega verkefni sem maður þarf að takast á við og að bati er raunverulegt markmið.

Kári Halldórsson. 


Hvernig getur þetta gerst fyrir allra augum?

Einelti er skelfilegt vandamál fyrir þann sem í því lendir. Mörg dæmi eru um að börn sem lenda í alvarlegu einelti bíði þess ekki bætur það sem eftir er.

Fyrir þann sem stendur fyrir utan er nánast óskiljanlegt að slíkt ofbeldi sem einelti er skuli fara framhjá bæði skólayfirvöldum og foreldrum enda blasa einkennin oft við öllum eftir á þótt það sé auðvitað ekki algilt.

Við þurfum að gera kröfu um að skólayfirvöld fylgist sérstaklega vel með þessum málum og hvetjum alla foreldra til að kynna sér einkenni eineltis og forvarnir gegn því.


mbl.is Barn lést í kjölfar eineltis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðir víbrar

Good good good good vibrations
(Oom bop bop)
(I'm pickin' up good vibrations)

Beach Boys: Good Vibrations

Í dag hafa verið kröftugir víbrar. Meira að segja þrumur í morgun.

Robert Whitaker heitir blaðamaður og rithöfundur sem hefur skrifað aðgengilegt efni um meðferð við geðröskunum í Bandaríkjunum "Mad in America" sem kom út árið 2002. Hann fjallar svo um ofnotkun á lyfjum og hæpnar vísindalegar forsendur fyrir þessari ofnotkun í bókinni "Anatomy of an Epidemic" sem kom út á þessu ári. Hann fékk hlýjar viðtökur, það sem heitir á ensku "standing ovation". Ef einhver hefur poppstjörnustatus í hreyfingunni okkar er það hann og á hans tölu byrjaði dagurinn.

Strax eftir fyrirspurnir fór Whitaker yfir í sýningarsalinn að árita bókina. Ég, kænn sem ég er, stökk auðvitað af stað rétt áður en fyrirspurnunum lauk og náði að vera framarlega í röðinni. Ég nældi í tvö eintök af hvorri bók, annað fyrir mig, hitt fyrir bókasafnið okkar og fékk þau árituð. Okkar áritun er: "To Hugarafl, Here's to change and mindfreedom!".

Kl. 10 sáum við fyrirlestur með Kevin Hines sem er einn af 32 sem hefur lifað það af að stökkva af Golden Gate brúnni í San Francisco. Hann hefur eftir það verið með fyrirlestra um sjálfsvígforvarnir. Ekki ólíkt því sem við gerum með geðraskanir og geðfræðsluna. Írsk hljómsveit, Friends of Emmet, gerði lag og video sem sótti innblástur í Kevin, það heitir Coming Apart, Kevin sést í upphafi og lok myndbandsins. Annars er bloggið hans hér.

Í hádegismatnum var annar fyrirlestur. Í þetta sinn talaði Mark Ragins geðlæknir sem kemur meðal annars fyrir í bíómyndinni "The Soloist". Hann er líka mikill talsmaður batamódelsins. Hann var með marga góða punkta. Við Auður munum verða okkur úti um báða þessa fyrirlestra svo þið munið geta séð þá líka.

Við Auður tókum ekki annað í mál en vera á vinnustofu um eCPR. Þetta sem Fisher talaði um þegar hann var hér. Með eCPR er verið að leika sér með skammstöfunina CPR sem á ensku stendur fyrir lífgunartilraunir. e stendur þá fyrir tilfinningar, semsagt tilfinningalífgunartilraunir sem hljómar auðvitað ekkert sérlega þjált á íslensku. En semsagt verið er að vísa til þess að rétt eins og stundum er þörf á lífgunartilraunum þarf að bregðast við í tilfinningalegum krísum. Daniel Fisher, Lauren Spiro, Will Hall og Tracy Love stýrðu þessari vinnustofu. Við gerðum í þessu ýmsar æfingar. Ykkur að segja held ég að Auður okkar sé ninja með svarta beltið í þessu og held að gæti kennt margt um þetta. Sem minnir mig á annað, margt erum við að gera vel á Íslandi og getum kennt öðrum.

Við sátum árlegan fund NCMHR (National Coalition for Mental Health Recovery eða Landssamtök fyrir bata af geðröskunum sem eru regnhlífasamtök félaga líku Hugarafli í Bandaríkjunum) þar sem var verið að leggja línurnar fyrir áhersluatriði í baráttu þeirra næsta árið. Þau notuðu mjög frumlega aðferð til að fá fram sjónarmið sem flestra og þrengja þau niður í nokkur aðalatriði. Ég ætla ekki að lýsa henni hér en þetta er eitthvað sem við getum örugglega notað í framtíðinni.

Ég kom svo við á "Opnum hljóðnema", kvöld sem er árlegur viðburður. Þar getur hver sem er skráð sig og sungið, farið með ljóð, uppistand eða hvað sem er. Ég tók smá videosýnishorn.

Ég rambaði uppá aðra hæð til að sjá hvort eitthvað væri í gangi þar og kom að litlum hóp sem var á spjalli með Robert Whitaker. Ég var búinn að gleyma að ég hafði ætlað að kíkja á þessa vinnustofu, þar sem átti að ræða um nýjar áherslur í geðheilbrigðiskerfinu. Ég veit ekki hvað þau höfðu rætt áður en ég kom, en það sem ég tók þátt í var meira um viðbrögðin við bókinni og atburðarásina sem fór í gang þegar hann átti ekki að fá að tala á ráðstefnunni, vægast sagt furðulegan ritdóm í Boston Globe en ég ætla ekki að þreyta ykkur með því öllu núna. Þarna hefði ég viljað hafa Steindór með ég veit að báðir hefðu haft gaman af.

Áður en ég kom uppí herbergi kíkti ég svo aftur á "open mic" sem var í fullum gangi. Ótrúleg sköpunargleði, söngvar, ljóð og ýmis konar tjáning.

Takk fyrir allar hlýju kveðjurnar á kommentunum við færslurnar, þær gefa mér kraft til að geta skrifað þær áður en ég fer að sofa. Þetta eru auðvitað bara tæpt á því helsta, en þetta eru í og með minnispunktar sem við getum fjallað um. Það er svo margt sem ég skrifa ekki um, um "pólitíkina", undirölduna og deigluna sem er í gangi. Það eru líka mikil forréttindi að fá að vera hérna og í svona miklu návígi við fólk sem hefur í áraraðir verið í baráttunni.

Ég vildi óska að við værum fleiri hérna, ég finn svo sterkt fyrir að við erum hluti af alþjóðlegri hreyfingu og ég veit líka að við höfum ýmislegt til málanna að leggja. Maður getur látið sig dreyma um að á næsta ári... Sem minnir mig á það að Auður minnti Daniel Fisher á að hann talaði um að koma aftur í heimsókn í maí á næsta ári. Það er ekki annað á honum að heyra en hann ætli að koma.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband