Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Góðan dag kæri hlustandi (pistill eftir Auði Axelsdóttur)

Í síðasta pistli mínum ræddi ég aðeins um mikilvægi sjónarhorns þeirra einstaklinga sem leita sér aðstoðar í geðheilbrigðiskerfinu, með þá von í brjósti að hægt sé að gera breytingar og eignast betra líf. Ræðum þetta mikilvæga sjónarhorn aðeins frekar í dag.

 

Auður Axelsdóttir.Í mínu starfi sem forstöðumaður Geðheilsumiðstöðvar innan Heilsugæslunnar og sem Hugaraflskona hef ég ítrekað séð árangur, bata og nýja framtíðarsýn hjá einstaklingum sem á ákveðnum tímapunkti voru komnir í öngstræti með líf sitt. Ég hef notað batamódelið og valdeflingu sem leiðarljós og aðferð til að styðja einstaklinga og hvetja áfram í bataferlinu. Síðar mun ég koma að innihaldi valdeflingar og batamódelsins og segja ykkur meira frá þeim leiðum sem við höfum notað á árangursríkan hátt í teymi stöðvarinnar.

 

Að vera ekki settur til hliðar vegna tímabundinna áfalla er lykilatriði og þar þarf nánasta umhverfi að koma sterkt inn í, því vonin er ekki mikil hjá þeim einstaklingi sem dregur sig í hlé og ræður ekki við lífið og tilveruna. Aðstandendur eru hér lykilfólk, vinir og aðrir sem hafa reynslu og vilja miðla henni og styðja.

 

Árið 2009 kom út bókin "Geðveikar batasögur" en útgefandi og ritstjóri bókarinnar var Herdís Benediktsdóttir. Hún fékk fólk með geðraskanir til að segja sögu sína og greina frá batanum. Bókin er mikilvæg heimild um hvað geti nýst hverjum og einum á leið sinni til bata. Jafnframt gefa sögumenn innsýn inn í gleði og sorgir á mjög einlægan hátt sem aðdáun er að.

 

Í formála bókarinnar segir: "Ágæti lesandi. Þegar þú lest þessar einstöku frásagnir einstaklinga sem hafa átt við geðrænan vanda að stríða ertu leiddur inn í heim sem þú kannski hefur aldrei velt fyrir þér áður, en ert samt svo nærri. Það verður aldrei metið til fulls hvað lagt er af mörkum hjá hverjum og einum sem stígur fram og segir sögu sína. Það er ekki endilega sjálfsagt að fá hlutdeild á þennan hátt í lífi fólks. Hvatinn á bak við það að opna reynsluheim sinn er vonin um að hjálpa öðrum og um leið minnka fordóma og þá vanþekkingu sem gjarnan einkennir nálgun og umræður um einstaklinga með geðræn vandamál."

 

Þessu tengt langar mig til að gera að umtalsefni áhugavert málþing sem haldið var á vegum Sjónarhóls, um kvíðaraskanir barna og unglinga. Gestir voru á 7 hundrað svo ekki þarf að efast um áhugann og var afar vel að því staðið. Sjónarhóll er ráðgjafarmiðstöð fyrir foreldra barna með sérþarfir á Íslandi. Markmið foreldraráðgjafarinnar er að foreldrar barna með sérþarfir njóti jafnréttis og sambærilegra lífskjara við aðra foreldra og búi við lífsskilyrði sem gera þeim kleift að lifa eðlilegu lífi. Ég hef starfað töluvert með ráðgjöfum Sjónarhóls og það er óhætt að segja að hjá þeim býr mikil reynsla og er nálgunin til fyrirmyndar.

 

Málþingið hafði yfirskriftina "Hvað ræður för" og vísar þá væntanlega til þess hvernig einstaklingum með kvíða reiðir af í samfélaginu, hvernig gangi að finna bjargráð við kvíðanum og hvaða úrræði standi til boða. Fagfólk fræddi um einkenni og meðferð við kvíða, rannsóknir og horfur. Landlæknir greindi frá því að í skýrslu WHO frá 2005 hefði komið fram að algengasta orsök vanda hjá börnum og ungmennum í skólakerfinu, stafaði af geðheilsu vanda eða um 17%.

 

En það sem situr eftir hjá mér eru sögur þeirra einstaklinga sem stigu á stokk og greindu á svo einlægan hátt frá reynslu sinni af áföllum sem ollu straumhvörfum í lífi þeirra. Þau sögðu frá ótrúlegri leit að réttu aðstoðinni, misjöfnum samskiptum við mennta- og heilbrigðiskerfi, hvað þau dreymdi um en var svo erfitt að öðlast.

 

Móðir 16 ára drengs með alvarlega kvíðaröskun sagði frá sinni hólmgöngu í kerfinu leyfi ég mér að kalla það, úrræðaleysi og algjörri uppgjöf. Frásögn hennar tók eðlilega á og hún sýndi ótrúlegan kjark með því að stíga á stokk. Það sem virtist einkennandi í þrautagöngu hennar og barnsins, var að ekki var á þau nægjanlega hlustað og þarfir þeirra virtar að vettugi, móðirin upplifði hroka og fordóma og sagði þau enn vera á milli kerfa sem bentu hvort á annað.

 

Gunnar Magnús Halldórsson sagði frá mjög alvarlegu einelti í grunnskóla, afleiðingunum og þeirri uppbyggingu sem hann hefur tekist á við. Sama virtist uppi á tengingum hér, það var lítið á hann hlustað og hann var oftar en ekki gerður að vandamálinu enda fór hann að trúa því þegar árin liðu og hann fékk ekki þá hjálp sem hann þráði.

 

Gunnar beitir nú kröftum sínum að því að fjalla um einelti og gerir myndbönd til að varpa ljósi á vandann. Einelti er áfall og getur sannarlega leitt til geðraskana. Baráttan gegn einelti verður að halda áfram og innlegg í hana verður án efa sjónvarpsmyndin sem vakið hefur töluverða umræðu um Hallgrím Björgvinsson sem verður endursýnd næstkomandi sunnudag á eftir Silfri Egils.

 

Þórey Guðmundsdóttir sagði á einstakan hátt frá sínu þunglyndi, kvíða og félagsfælni sem hún barðist við í mörg ár og leiddi hana inn í algjört öngstræti á köflum. Hún greindi frá endalausri leit sinni að hjálp og um leið viljanum til að finna leið til bata. Í hennar frásögn mátti enn og aftur heyra að hlustun eftir hennar vanlíðan, hennar löngunum og draumum var ekki mikil og gaf henni ekki mikla von.

 

Það sem reyndist hjálpa henni mest var stuðningsnetið sem í kringum hana var og samanstóð af fjölskyldu, vinum og síðar meðferðaraðilum sem unnu með henni á jafningjagrunni og síðast en ekki síst Hugarafli. Hún greindi líka frá gleðinni í batanum og þeim árangri sem hún hefur náð með þrautseigju sinni, æðruleysi og húmor.

 

Þórey á eina af sögunum í "Geðveikum batasögum". Mig langar að endingu að grípa niður í hennar sögu en hún segir þetta: "Ég vildi óska að ég gæti sett hér á blað eina einfalda töfralausn að bata eða uppskrift sem ég bý til eftir að hafa náð góðum bata, en því miður er það ekki svo gott. Hins vegar eru nokkrir mikilvægir punktar sem hafa hjálpað mér og breytt lífi mínu til frambúðar.

Fyrst og fremst vil ég nefna viðhorfsbreytingu úr því að líta ekki á sjálfan sig sem sjúkdóminn sem viðkomandi er greindur/eða þjáist af, heldur manneskju sem hefur ákveðin sjúkdóm. Sjúkdómurinn ætti ekki að stjórna lífi viðkomandi.

 

Annað breytti miklu fyrir mig og það var að komast úr hlutverki fórnarlambs og taka völdin í mínar eigin hendur. Þar kom hugmyndfræði valeflingar mér til mikillar hjálpar. Ég áttaði mig á að það væri í mínum höndum að breyta lifi mínu, taka ábyrgð á sjúkdómnum mínum og hvaða skref ég tæki í bataferli mínu.

 

Batinn er engin ein stoppistöð. Það felst svo margt í því að ná bata og því gleymdi ég oft. Fyrir mér þýðir bati betri lífsgæði, að geta talað við fólk óttalaus, losna við eilífan kvíða en öll litlu atriðin skipta líka máli."

 

Ég vil að síðustu þakka Sjónarhóli fyrir gott málþing og benda ykkur á að það er hægt að hlusta á málþingið í heild sinni á heimasíðu Sjónarhóls.

- Auður Axelsdóttir.


Pistill eftir Auði Axelsdóttur.

Eftirfarandi pistill var fluttur á RÚV fimmtudaginn 24. mars 2011.

Auður Axelsdóttir.

Að undanförnu hefur farið fram töluverð umræða um geðheilbrigðismál og er það að mínu mati afar jákvætt. Umræðan núna hefur gjarnan verið út frá sjónarhorni notenda og notendur eru í þeim skilningi einstaklingar sem hafa á einhverjum tímapunkti nýtt geðheilbrigðisþjónustu. Sjónarhornið er mjög mikilvægt og ætti í raun að hafa ríkan sess í stefnumótun og markandi ákvaraðanatöku. Ég er sannfærð um að umræðan hefur breyst töluvert, hún er vandaðri en hún var og ekki endileg í æsifréttastíl lengur, enda ekki ástæða til.

"Hallgrímur maður eins og ég" heimildarmyndin sem sýnd var á ríkissjónvarpinu 6.mars síðastliðin, hefur almennt vakið mikla og jákvæða umræðu. Hallgrímur fer inn á mörg málefni sem vert er að huga að í okkar samfélagi s.s. eins og einelti, neyslu, viðmót vegna geðröskunar og bataferlið. Hann hafði einstakan frásagnarstíl og var svo einlæg og hlý manneskja að hann náði til allra sem á hann hlýddu.

Ég hef þá trú að þessi mynd verði okkur leiðarljós í framtíðinni og geti leiðbeint okkur mikið um hvernig við eigum að stuðla að sem bestri nálgun í öllu okkar kerfi.

Kerfin okkar, hvað sem þau heita, heilbrigðiskerfi, velferðarkerfi eða annað, eiga að spegla þeirri nálgun til einstaklinga sem leita aðstoðar að hægt sé að sigrast á vandanum og að það sé það sem að þjónustan gangi út á, ekkert annað. Ef að einstaklingur sem leitar sér hjálpar mætir þessu viðhorfi segir sig sjálft að vonin verður sterkari, leitin að lausnum verður einfaldari og trúin á að hægt sé að komast yfir vandann verður önnur og meiri. Manneskja sem hefur von fer öðruvísi af stað í sínu bataferli en sú sem hefur hana ekki.

Sú nálgun sem beita á þegar einstaklingur kemst í þrot með líf sitt vegna geðheilsuvanda, er að mínu mati hlýja, persónuleg nánd og virðing. Það má auðvitað velta því fyrir sér hvort kerfin okkar séu að búa til of stórar einingar þar sem ofangreind gildi geta auðveldlega týnst í dagsins önn. Ef svo er þarf að staldra við, stokka upp og opna augun fyrir öðrun leiðum.

Ef að viðmót hjá þjónustukerfi ítrekar að bilið sé stórt milli einstaklings og kerfis, einstaklingurinn hafi litla sem enga rödd og eigi bara að fara eftir því sem honum er sagt, er farið rangt af stað. Manneskja sem upplifir sig minni máttar eða valdalausa, á mun erfiðara með að finna rétta farveginn og hefur meiri tilhneigingu til að gefast upp. Vert er að hafa í huga að líkurnar á að hægt sé að sigrast á vandanum eru miklar og æ fleiri rannsóknir sýna að það er hægt að ná bata og eiga gott líf þrátt fyrir geðröskun. 

Hugarafl er hópur notenda og fagfólks sem hefur með starfi sínu undanfarin ár lagt áherslu á að breyta viðhorfum og nálgun í íslensku geðheilbrigðiskerfi. Hugarafl er m.a. stofnað til þess að hafa áhrif á ríkjandi kerfi, að kynna fyrir almenningi að það sé hægt að ná bata af geðröskunum, að kynna fjölbreyttar leiðir í bataferli og síðast en ekki síst minnka fordóma.

Robert Whitaker kom á dögunum til landsins í boði Hugarafls, Maníu og Unghuga sem samanstendur af unga fólkinu innan Hugarafls.

Robert hélt erindi um geðheilbrigðismálin, ítök læknisfræðilega módelsins, lyfin og áhrif þeirra á heilastarfsemina og daglegt líf einstaklinga. Hann gaf viðstöddum verðug umhugsunarefni og fræddi um sláandi staðreyndir í þessum efnum hér heima og erlendis.  

Robert Whitaker er bandarískur rithöfundur og rannsóknablaðamaður og hefur m.a. verið tilnefndur til Pulitzer verðlaunanna fyrir greinarflokk sinn í Boston Globe, þar sem hann fjallaði um ný geðlyf sem náð höfðu mikilli útbreiðslu í Bandaríkjunum. Hann hefur skrifað tvær bækur um geðheilbrigðismál "Mad in America" sem kom út árið 2002 og "Anatomy of an Epidemic" sem kom út árið 2010.

Kveikjan að "Mad in America" er skýrsla frá WHO sem skýrði m.a. frá því að fólk sem greindist með geðklofa í vanþróuðu löndunum á borð við Nigeríu var líklegra til að ná sér en fólk sem fékk þessa greiningu á Vesturlöndum. Hluti af skýringunni virðist liggja í því að lyfin voru oftast notuð í stuttan tíma í vanþróuðu löndunum og meiri áhersla lögð á að gera umhverfis breytingar sem gátu stutt viðkomandi einstaklinga í daglegu lífi. Á Vesturlöndum hefur þróunin hins vegar verið sú að fólki er haldið lengur á lyfjum en bati sjúklinga er minni. Þetta er vissulega sláandi og vert fyrir okkur hér heima að huga að hvort ekki megi skoða. 

Í síðarnefndu bókinni tekur hann til skoðunar spurninguna, af hverju svo miklu fleiri núna fari núna á örorku vegna geðraskana, en nokkru sinni fyrr?

Whitaker skildi eftir margar spurningar sem ég vona að við munum reyna að svara og ekki síður nota til að horfa í eigin barm. Við hjá Hugarafli erum sammála um að innblásturinn var nauðsynlegur og hvetur okkur til að skoða með gagnrýnum huga hvað sé verið að gera í íslensku geðheilbrigðiskerfi þegar kemur að lyfjamálum og hvað beri að gera til að stuðla að minnkun lyfjanotkunar þegar um geðheilsuvanda er að ræða. Erum við ekki að nota lyfin í of miklum mæli og stundum án þess að skoða hvað veldur því að einstaklingur kemst í þrot með líf sitt?

Hvað með ungt fólk sem veikist í kjölfarið á neyslu fíkniefna, eigum við ekki að horfa á bak við vandann áður en hann er sjúkdómsvæddur? Þurfum við ekki að stoppa greiningargleðina og horfa á manneskjuna? Er eðlilegt að sjúkdómsgreina börn og gefa þeim lyf? Er ekki komið að því að skoða þurfi aðrar leiðir og hlusta betur á lífssögu einstaklinga? Getum við ekki farið einfaldari og ódýrari leiðir þegar kemur að því að styðja fólk út í lífið á ný?

Hvað með valmöguleika við hefðbundnum leiðum? Fleiri áleitnar spurningar leita á hugann og vert að nota neistann til að reyna að svara þeim og leita annarra leiða. Heimsókn Whitakers hvetur okkar sannarlega áfram til að skoða hug okkar og stuðla að fjölbreyttari leiðum til að styðja einstaklinga til sjálfstæðis eftir áföll án þess að auka sjúkdómsvæðingu á mannlegum tilfinningum.

Hlustandi góður, það eru mörg málefni sem vert er að skoða vel frá öllum hliðum með opnum huga. Það er engin ein leið sem hentar okkur öllum ef við þurfum á hjálp að halda, en það er mikilvægt að við virðum mismunandi sjónarhorn og leiðir. Víðsýni, skilningur fyrir fjölbreytileikanum er nauðsynlegur og gerir okkar samfélag dýrmætara og ekki síður skemmtilegra.

Í mínu starfi sem forstöðumaður Geðheilsumiðstöðvar innan Heilsugæslunnar og sem Hugaraflskona hef ég ítrekað séð árangur, bata og nýja framtíðarsýn hjá einstaklingum sem á ákveðnum tímapunkti voru komnir í öngstræti með líf sitt.

Ég hef notað batamódelið og valdeflingu sem leiðarljós og aðferð til að styðja einstaklinga og hvetja áfram í bataferlinu. Að vera ekki settur til hliðar vegna tímabundinna áfalla er lykilatriði og þar þarf nánasta umhverfi að koma sterkt inn í því vonin er ekki mikil hjá þeim einstaklingi sem dregur sig í hlé og ræður ekki við lífið og tilveruna. Aðstandendur eru hér lyklfólk, vinir og aðrir sem hafa reynslu og vilja miðla henni og styðja.  

Þrátt fyrir að erfiðleikar virðist óyfirstíganlegir á ákveðnum tímapunktum, einstaklingur virðist komin í þrot og veit ekki hvað skal gera. Endurskoðunar er þörf, breytingar á umhverfi geta verið mikilvægar og streituvalda þarf að uppræta. 

Til þess að gera breytingar á lífi sínu þarf kjark, jafnvel uppstokkun og þor til að troða nýjar slóðir, taka nýjum áskorunum. Það er miklvægt að muna að endurskoðun þýðir ekki ósigur en getur þvert á móti opnað nýjar leiðir og nýjir styrkleikar líta dagsins ljós sem ekki voru meðvitaðir áður. Það er mikilvgt að vera ekki einn, hafa góða aðstoð og samferðamenn sem skilja vandann og tengsl eru dýrmæt.

Tilfinningar eru mikilvægur leiðarvísir og það að höndla þær og finna er hverjum einstaklingi nauðsynlegt. Ég held að það sé gjarnan vendipunktur í bataferlinu þegar einstaklingur áttar sig á því að tilfinningar á ekki að deyfa eða forðast heldur sættast við og líta á sem hluta af lífinu


Fólki gefin lyf við sorg.

Auður Axelsdóttir: „Þótt við séum sorgmædd, stressuð eða verðum fyrir áföllum þurfum við að ná okkur öðruvísi en með lyfjaskammti.“

„Við erum mjög dugleg við að sjúkdómsvæða hlutina. Til dæmis bara sorg. Ef einhver einstaklingur er lengi að jafna sig, til dæmis á því að missa maka, þá erum við farin að gefa lyf við því. Sem er í hæsta máta óeðlilegt. Því líkaminn hefur ákveðin tæki og þarf ákveðinn tíma til að takast á við áföll af þessu tagi,“ segir Auður Axelsdóttir iðjuþjálfi, forstöðumaður Geðheilsu – eftirfylgdar og einn stofnenda samtakanna Hugarafls.

Auður Axelsdóttir.Auður segir Íslendinga alltof gjarna á að taka lyf þegar kemur að geðrænum vandamálum og að fólki sé ekki gefinn tími til að jafna sig á eðlilegan hátt.

„Eins og rítalínnotkun okkar gefur til kynna erum við mjög snögg að „lyfja“ vandann.“

Telur Auður að íslensk börn séu að breytast eða umhverfið? „Ég held að börnin séu jafn yndisleg og þau hafa alltaf verið. ­Þolinmæði okkar er hins vegar alltaf að minnka. Það má enginn vera öðruvísi og það er verið að reyna að troða okkur öllum í sama formið.“

Auði bregður fyrir í heimildarmyndinni Hallgrímur – maður eins og ég, sem sýnd var í Sjónvarpinu  sunnudaginn 6. mars. Þar segir Hallgrímur Björgvinsson sögu sína og talar opinskátt um geðræn veikindi sín, meðhöndlun þeirra og þann bata sem hann á endanum náði.

Hallgrímur stofnaði ásamt Auði og þremur öðrum samtökin Hugarafl sem eru í dag orðin kraftmikið afl í endurhæfingu einstaklinga sem glímt hafa við geðræna sjúkdóma. Hallgrímur varð bráðkvaddur í fyrra..


Lyf eru ekki allsherjarlausn.

Robert Whitaker í heimsókn hjá Hugarafli.Blaðamaðurinn Robert Whitaker hefur valdið miklum titringi í Bandaríkjunum með bók sinni, Anatomy of an Epidemic, sem kom út á síðasta ári, og deilir hart á geðheilbrigðiskerfið þar í landi.

Júlía Margrét Alexandersdóttir hitti Whitaker, sem segir Íslendinga þurfa að spyrja sig að því hvers vegna sífellt fleiri fari á örorkubætur vegna geðsjúkdóma um leið og lyfjanotkun aukist.

Það var helber tilviljun að Robert Whitaker fór að kynna sér geðheilbrigðismál.

Frá árinu 1989 hafði hann skrifað um lyf og læknisfræði, meðal annars fyrir útgáfufélag læknadeildar Harvard-skólans og Albany Times Union. Árið 1994 stofnaði hann svo sitt eigið fjölmiðlafyrirtæki sem fylgdist með lyfjafyrirtækjum og lyfjaþróun.

Og árið 1999 var Whitaker tilnefndur til Pulitzerverðlaunanna fyrir greinaflokk þar sem hann skrifaði um ný geðlyf sem náð höfðu mikilli útbreiðslu í Bandaríkjunum.

„Ég beindi sjónum mínum að nýjum geðlyfjum sem voru að koma á markað um þetta leyti og höfðu slegið í gegn, ef svo má að orði komast. Ég notfærði mér upplýsingalöggjöfina í Bandaríkjunum og óskaði eftir upplýsingum um lyfið og þær tilraunir sem höfðu verið gerðar. Ég komst að því að þónokkrir sjúklingar, sem prófað höfðu lyfið, höfðu dáið.

Ég fór með þessar upplýsingar til Boston Globe, sagði þeim að ég væri með trausta frétt og að við skyldum gera greinaflokk um þetta málefni."

Úr varð greinaflokkurinn sem Whitaker fékk tilnefninguna fyrir.

Menn farnir að hlusta

Whitaker hélt fyrirlestur hérlendis í síðasta mánuði á vegum Hugarafls, Maníu og Unghuga og mættu um 200 manns til að hlýða á hann.

Þar ræddi Whitaker meðal annars um fjölgun í hópi fólks sem er á örorku vegna geðsjúkdóma, þrátt fyrir að notkun geðlyfja á Vesturlöndum hafi aukist.

Nýjustu skrif hans, bókin Anatomy of an Epidemic, hefur valdið heitum umræðum í hinu virta bandaríska geðlæknasamfélagi og er umdeild.

Bókin kom út í fyrra og Whitaker segir að í fyrstu hafi starfsmenn í geðheilbrigðisþjónustu Bandaríkjanna ekkert af bókinni viljað vita.

„Það breyttist nýverið þegar sálfræðingar, geðlæknar og iðjuþjálfarar frá sautján ríkjum komu saman, fóru yfir bókina og veltu því fyrir sér hvort hægt væri að snúa þessari þróun við í lyfjanotkun. Hvort það mætti endurskoða lyfjagjöfina.

Ein mesta viðurkenningin, sem segir mér jafnframt að ég er að ná til manna sem hingað til hafa ekki viljað af mér vita, er sú að síðar á þessu ári hefur mér verið boðið að tala á ráðstefnu samtaka geðlækna og sálfræðinga í Bandaríkjunum."

Um svipað leyti og greinaflokkurinn varð til í samvinnu við Boston Globe komst Whitaker á snoðir um skýrslu frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, WHO. Í skýrslunni kom meðal annars fram að fólk sem greindist með geðklofa í vanþróuðum löndum á borð við Nígeríu var líklegra til að ná bata en fólk sem greindist með geðklofa á Vesturlöndum.

Út frá lestri þeirrar skýrslu varð bókin Mad in America til árið 2002.

Whitaker segir niðurstöður skýrslunnar hafa komið honum í opna skjöldu. Í skýrslunni hafi komið fram að í hinum vanþróuðu löndum séu lyf við geðklofa einungis notuð í stuttan tíma.

Fólk lengur á lyfjum

„Á þeim tíma sem skýrslan kom út voru lyf við geðklofa í þessum löndum yfirleitt notuð í mjög stuttan tíma og aðeins lítill hluti þeirra sem greindust notaði lyfin í langan tíma. Sjúklingum var því ekki haldið á lyfjum heldur var reynt að skapa þeim þannig umhverfi að þeir gætu verið án lyfja til langframa.

Á Vesturlöndum hefur þróunin hins vegar verið allt önnur. Þar er fólki haldið lengur á lyfjum en bati sjúklinga er hins vegar minni," segir Whitaker og bætir því við að mikil breyting hafi hins vegar orðið í geðheilbrigðisþjónustu þróunarlandanna frá því að skýrslan kom út.

„Þar hafa sífellt fleiri ríki tekið upp siði Vesturlandanna og haldið sjúklingum lengur á lyfjum. Og nýlegar rannsóknir sýna að mun færri sjúklingar á þessum stöðum ná endanlegum bata frá því sem var. Þeir stefna því í sömu átt og við í Vesturheimi, meiri lyfjaneysla, minni bati."

Sama þróun á Íslandi

Það er samhengið milli örorku og lyfjanotkunar sem á hug Whitakers allan um þessar mundir. Árlega birtast fréttir þess efnis að notkun á þunglyndislyfjum aukist ár frá ári á Vesturlöndum. Ísland er þar engin undantekning.

Samkvæmt þeim tölum sem Whitaker birtir í bókinni Anatomy of an Epidemic voru 1,2 milljónir Bandaríkjamannamanna á örorkubótum vegna geðsjúkdóma árið 1987. Í dag nær þessi fjöldi upp í fjórar milljónir.

„Ef við horfum til þeirrar fjölgunar sem væri eðlileg miðað við mannfjölda og reiknum töluna með hliðsjón af henni ætti fjöldi þeirra sem væru á örorkubótum að vera 1,6 milljónir. Þróunin á Íslandi hefur verið svipuð. Hins vegar virðist einhver misbrestur vera á því að bati náist. Sífellt fleiri eru á geðlyfjum til langs tíma um leið og sá hópur sem hefur þurft að hverfa af vinnumarkaði og virkri þátttöku í samfélaginu vegna geðraskana hefur margfaldast.

Á Íslandi hefur fólki á örorkubótum fjölgað og það þrátt fyrir að mun fleiri séu á þunglyndislyfjum. Þessi tala ætti að lækka en ekki hækka. Og það er stóra spurningin: af hverju?"

Geðlyf er vara sem þarf að seljast?

Whitaker segir ekkert eitt svar við þeirri spurningu út af hverju öryrkjum vegna geðvanda fjölgar þrátt fyrir aukna lyfjanotkun. Þetta geti verið samfélagslegt - fólk hafi meiri áhyggjur af fjármálum sínum og hvað það hafi milli handanna. Uppeldi barna sé allt öðruvísi en það var fyrir tuttugu árum. Heimilisaðstæður eru gjörbreyttar og fólk einangraðra.

Ein af hugsanlegum ástæðum sem Whitaker veltir upp í nýjustu bók sinni er jafnframt sú sem valdið hefur mesta fjaðrafokinu þar ytra: að geðlyf séu vara sem þarf að selja.

„Til þess að varan seljist þarf að búa til markað. Sem dæmi: Hér áður fyrr syrgði fólk látinn ástvin og sorgarferlið tók kannski þrjá mánuði og enginn kippti sér upp við það.

Núna fær fólk oftar en ekki þá greiningu að það sé þunglynt og fær lyf við því. Og þá erum við farin að setja fólk á lyf við „hversdagslegum" kvillum."

Ofnotkun á lyfjum er önnur ástæða sem Whitaker tilgreinir:

„Fyrir tuttugu til þrjátíu árum varð fólk veikt, var lagt inn á sjúkrahús og fékk aðhlynningu í þrjá mánuði, stundum hálft ár eða lengur. En svo gengu veikindin yfir og fólki gafst kostur á að hverfa til síns heima og aðlagast sínu umhverfi á ný. Það festist ekki inni í „kerfinu" eins og gerast vill í dag og barðist ekki við krónískan sjúkdóm það sem eftir lifði með stöðugri lyfjaneyslu. Auðvitað væri það gott og gilt ef rannsóknir sýndu að slík meðferð virkaði að einhverju marki."

Whitaker tekur fram að barátta hans sé ekki tilkomin vegna þess að hann sé harður andstæðingur lyfja. Þau geti oft verið af hinu góða og nauðsynleg. Það megi hins vegar ekki nálgast þau sem eina allsherjarlausn. Hann vill sjá breyttar vinnureglur í kringum greiningar og að læknar nálgist sjúklinga á persónulegri hátt en út frá stöðluðum spurningalistum.

„Tveir aðilar sem hegða sér á nákvæmlega sama hátt, með sömu einkenni, gera það oftar en ekki af tveimur gjörólíkum ástæðum.

Greiningar fylgja hins vegar gjarnan ákveðnum reglum um einkenni og í kjöl farið lenda einstaklingar í hollum og fá ákveðin lyf. Annar sjúklingurinn þarf kannski lyf í skamman tíma á meðan hinn þarf ekki lyf heldur allt annars konar meðferð.

Auðvitað þurfa sumir lyf til frambúðar en greiningin má ekki vera of hraðvirk. Heilbrigðiskerfið verður að hafa tækifæri til að geta litið til fleiri þátta í umhverfinu og hugsa málið út fyrir lyfjameðferðina."

Börnin áhyggjuefni

Whitaker hefur miklar áhyggjur af bandarískum börnum en sá hópur barna þar í landi sem notar geðlyf fer sístækkandi.

„Í Bandaríkjunum var farið að gefa börnum rítalín og geðlyf rétt eftir miðjan 9. áratug síðustu aldar. Þá voru 16.000 börn öryrkjar vegna geðsjúkdóma. Í dag er þessi tala komin upp í 600.000. Og það sem verra er, mörg af þessum börnum nota geðlyf allt sitt líf og halda áfram að vera öryrkjar," segir Whitaker og telur að þarna sé verið að búa til vítahring.

„Sú þróun sem á sér stað hjá ykkur á Íslandi gefur til kynna að þið gætuð verið á sömu leið og við í Bandaríkjunum. Þar er mikilvægast fyrir ykkur að rannsaka og skoða hvort börnum með geðraskanir sé að fara fram og ná bata með þessari lyfja notkun. Erum við að hjálpa þeim eða erum við að skapa frekari vandamál fyrir þau í framtíðinni?"

Hugarfarsbreyting nauðsynleg

En það er ljós við enda ganganna að mati Whitakers. Til þess þurfi þó ákveðna hugarfars breytingu, ekki bara innan geðheilbrigðis kerfisins heldur samfélagsins alls.

„Maður veltir því fyrir sér hvort samfélagið sé að gera sér lífið þægilegra með allri þessari lyfjanotkun hjá börnum og fullorðnum.

Er umburðarlyndi okkar fyrir því sem er „öðruvísi" að fjara út? Mér finnst eins og við séum markvisst að útrýma fjölbreytileika mannfólksins."

Hann segir nítjándu aldar skáld lýsa fallega þeim fjölbreyttu tilfinningum og hegðun sem mannfólkið sýnir.

„Fólkið var ekki brjálað eða klikkað - það bara hegðaði sér ekki allt eins. Og sá sem var ekki eins, fékk ekki endilega lyf heldur fékk að vera eins og hann var. Ég held að við þurfum að sýna mannlegu eðli aðeins meiri þolinmæði."

Kenningar Whitakers, meðal annars um samband örorku og aukinnar notkunar geðlyfja, hafa verið mjög umdeildar.

Þá hefur verið bent á að neikvæð umræða um aukna notkun geðlyfja endurspegli rótgróna fordóma í garð lyfja. Þórður Sigmundsson, yfirlæknir á geðsviði Landspítalans, sagði til að mynda í viðtali við Spegilinn árið 2009 að þó margt hafi breyst í viðhorfum fólks til geðsjúkdóma undanfarin ár þá mætti enn finna ótta, hræðslu og fordóma gegn geðsjúkdómum og meðferð þeirra og sá ótti birtist ekki síst í neikvæðri umræðu um aukna geðlyfjanotkun.

-------------------------------

Robert Whitaker er sjálfstætt starfandi blaðamaður í Bandaríkjunum og hefur hlotið fjölmörg verðlaun fyrir skrif sín. Hann var tilnefndur til Pulitzer-verðlaunanna árið 1998 fyrir greinaflokk sem hann skrifaði fyrir Boston Globe. Það sama ár hlaut hann hin virtu George Polk-verðlaun sem Long Island-háskólinn stendur fyrir en meðal þeirra sem hafa hlotið þau eru heimsþekktu fréttamennirnir Edward R. Murrow og Diane Sawyer.

Bækur Whitakers hafa vakið mikla athygli; Mad in America var til að mynda valin besta rit almenns efnis eða fræðirita af samtökum bókasafna í Bandaríkjunum. Hérlendis fást bækur Whitakers hjá Bóksölu stúdenta. Hægt er að hlýða á erindi Whitakers á slóðinni mindpower.this.is.

*Tölurnar koma fram í grein eftir Sigurð Thorlacius, Sigurjón B. Sigurðsson, Stefán Ólafsson og Kristin Tómasson sem í Journal of Mental Health árið 2010 . Þess má geta að öryrkjum með yfir 75% örorku fjölgaði á tímabilinu úr tæplega 5.000 í rúmlega 16.000 þúsund.

-----------------------------------

Grein þessi er tekin af heimasíðu Hugarafls og er birt hér með leyfi.


Robert Whitaker á Ísland - hlustið á fyrirlestur hans.

Robert WhitakerHugarafl í samstarfi við Maníu og Unghuga stóð fyrir opnu málþingi í tilefni af heimsókn Robert Whitaker til Íslands. sl.laugardag. Málþingið fór vel fram, gestir voru áhugasamir og mikil ánægja ríkir hjá okkur Hugaraflsmönnum.

Við viljum þakka þeim sem mættu á málþingið og hlustendum á vefnum fyrir áheyrnina. Whitaker hélt frábæran og sláandi fyrirlestur um geðheilbrigðismálin, ítök læknisfræðilega módelsins, lyfin og áhrif þeirra á heilastarfsemina og daglegt líf einstaklinga. Hann gaf viðstöddum verðug umhugsunarefni og fræddi um sláandi staðreyndir í þessum efnum hér heima og erlendis.

Hvetjum ykkur til að heyra erindi hans á eftirfarandi slóðum.

Fyrirlesturinn:

http://www.ustream.tv/recorded/12796315

Spurningar og svör:

http://www.ustream.tv/recorded/12798560

Við hjá Hugarafli erum sammála um að innblásturinn var nauðsynlegur og hvetur okkur til að skoða með gagnrýnum huga hvað sé verið að gera í íslensku geðheilbrigðiskerfi þegar kemur að lyfjamálum og hvað beri að gera til að stuðla að minnkun lyfjanotkunar þegar um geðheilsuvanda er að ræða.

Erum við að nota lyfin í of miklum mæli og stundum án þess að skoða hvað veldur því að einstaklingur kemst í þrot með líf sitt? Hvað með ungt fólk sem veikist í kjölfarið á neyslu fíkniefna, eigum við ekki að horfa á bak við vandann áður en hann er sjúkdómsvæddur? Þurfum við ekki að stoppa sjúkdóms-greiningargleði og horfa á manneskjuna? Er eðlilegt að sjúkdómsgreina börn og gefa þeim lyf? Er ekki komið að því að skoða þurfi aðrar leiðir og hlusta betur á lífssögu einstaklinga? Getum við ekki farið einfaldari og ódýrari leiðir þegar kemur að því að styðja fólk út í lífið á ný? Hvað með valmöguleika við hefðbundnum leiðum?

Fleiri áleitnar spurningar leita á hugann og vert að nota neistann til að reyna að svara þeim og leita annarra leiða. Heimsókn Whitakers hvetur okkar sannarlega áfram til að skoða hug okkar og stuðla að fjölbreyttari leiðum til að styðja einstaklinga til sjálfstæðis eftir áföll án þess að auka sjúkdómsvæðingu á mannlegum tilfinningum.

Robert Whitaker er bandarískur rithöfundur og rannsóknablaðamaður og hefur m.a. Verið tilnefndur til Pulitzer verðlaunanna. Hann hefur skrifað tvær bækur um geðheilbrigðismál "Mad in America" sem kom út árið 2002 og "Anatomy of an Epidemic" sem kom út árið 2010. Í síðarnefndu bókinn tekur hann til skoðunar spurninguna, af hverju fara svo miklu fleiri núna á örorku vegna geðraskana en nokkru sinni fyrr?

Bækur hans "Mad in America" og "Anatomy of an Epidemic" er hægt að nálgast í bókasölu Stúdenta. Ef upplagið reynist uppselt hvetjum við ykkur til að hafa samband við Hugarafl og við munum fá sendar fleiri bækur.

Við munum kappkosta að fylgja heimsókn Whitakers eftir og stuðla að áframhaldandi umræðu um þetta mikilvæga málefni. Hann átti ekki orð yfir mótttökunum sem hann fékk, hlýju Hugaraflsmanna og var afar ánægður með heimsóknina. Hann heillaðist af íslenskri náttúru og sögu landsins og má segja að hann sé nú sannur Íslandsvinur.

Robert hefur síðan bók hans kom út, haldið fjölda fyrirlestra úti um allan heim og hvarvetna vekur hann mikla athygli. Geðlæknar og annað fagfólk hefur sumstaðar ákveðið að endurskoða starfssemi og aðferðir í kjölfar útgáfu bókar hans; "Anatomy of an Epidemic". Við megum vera afar stolt af því að hafa fengið hann hingað til lands og nú reynir á okkur að fylgja innblæstrinum eftir gott fólk!     

Kær kveðja; Auður Axelsdóttir


Af hverju fara svo miklu fleiri á örorku vegna geðraskana en nokkru sinni fyrr?

Robert Whitaker, höfundur bókarinnar Anatomy of a Epidemic, verður aðalgestur málþings í dag, laugardaginn 19. febrúar, kl. 14:00. Allir velkomnir. Sjá nánari upplýsingar hér fyrir neðan.

Lesið einnig grein Steindórs Erlingssonar sem birtist í Fréttablaðinu á dögunum og er einnig að finna  á bloggsíðu Arnars Pálssonar erfðafræðings.

Roger whitaker


Þörf á skýrari reglum í lyfjaiðnaði

Fréttaskýring í Morgunblaðinu, 1. desember, 2010.

Vísað er í umfjöllunina í leiðara blaðsins

Unnt væri að ná fram sparnaði í heilbrigðisgeiranum með því að setja skýrar reglur um samskipti lækna við fulltrúa lyfjaiðnaðarins og auka meðvitund um starfshætti hans. Þessu heldur Steindór J. Erlingsson vísindasagnfræðingur fram.

„Því miður sýna rannsóknir fram á að starfshættir lyfjafyrirtækjannna eru oft þannig að þau gefa villandi upplýsingar til lækna,“ segir Steindór. Hann sendi í vikunni bréf til allra þingmanna þar sem hann kallaði eftir breytingum.

Lyfjaiðnaðurinn ver á hverju ári milljörðum dala í markaðssetningu á nýjum lyfjum, þar á meðal í kynningarstarf sem beinist að læknum og felur gjarnan í sér ýmis hlunnindi og boðsferðir. Fjöldi rannsókna hefur síðustu ár sýnt fram á að læknar verða fyrir meðvituðum og ómeðvituðum áhrifum af þessu.

Steindór bendir á að með öfluga markaðsvél að vopni haldi lyfjafyrirtækin nýjum og rándýrum lyfjum að læknum sem ávísi þeim til sjúklinga, án þess að þau séu endilega betri en eldri og ódýrari lyf.

74% niðurstaðna aldrei birt

Hluti af vandamálinu er að oft er stór hluti rannsókna sem gerðar eru á nýjum lyfjum aldrei birtur. Lyfjafyrirtækin sjálf fjármagna í auknum mæli lyfjaprófanir, ýmist með eigin rannsóknum eða sem styrktaraðilar rannsókna.

Skiptar skoðanir eru um hvort eðlilegt sé að lyfjafyrirtækin sjálf beri ábyrgð á rannsóknum á áhrifum og öryggi nýrra lyfja. Ekki síst í ljósi þess að ítrekað hafa komið fram dæmi um að rannsóknunum sé hagrætt og þær ritskoðaðar, þannig að aðeins eru birtar niðurstöður sem eru hagstæðar markaðssetningu.

Nýjasta dæmið um þetta varðar þunglyndislyfið Reboxetine og er rakið í læknaritinu British Medical Journal þann 12. október síðastliðinn. Vísindamenn hjá opinberu lyfjaeftirliti í Þýskalandi komust að því að lyfjafyrirtækið sem stýrði rannsóknum á lyfinu opinberaði aðeins 26% af niðurstöðunum, 74% voru aldrei birt. Þær niðurstöður sýndu fram á að þveröfugt við það sem fram kom í ritrýndum greinum væri Reboxetine „áhrifalítið og hugsanlega skaðlegt þunglyndislyf“.

Í leiðara British Medical Journal segir að endurheimta þurfi traust á vísindarannsóknum í lyfjageiranum. Steindór segir að vandamálið sé ekki síst að heilbrigðisgeirinn sitji nú uppi með fjölda birtra vísindagreina frá síðustu áratugum án þess að vita hvar niðurstöðum hafi verið haldið eftir og hvar ekki.

Vandamálið er ekki nýtt af nálinni og umræðan um það ekki heldur. Árið 2007 voru reglur hertar í Bandaríkjunum þannig að skrá þarf öll lyfjapróf í sérstakan gagnagrunn. Markmiðið var að koma í veg fyrir að fyrirtæki gætu komist upp með að fela neikvæð lyfjapróf. Fyrstu úttektir sem gerðar hafa verið á þessu kerfi síðan sýna þó að það hefur ekki skilað tilætluðum árangri að sögn Steindórs. Læknablöð hafa einnig mörg sett sér þá stefnu að greina verði frá fjárhagslegum tengslum höfunda við lyfjafyrirtæki. Það hefur heldur ekki virkað sem skyldi. Steindór er þeirrar skoðunar að ekki dugi til að læknar setji sér siðareglur, heldur þurfi að binda reglurnar í læknalög. „Meginatriðið er þó að vekja Íslendinga til meðvitundar um þetta.“

Alvarlegar aukaverkanir

Samkvæmt nýrri rannsókn eru lífslíkur fólks á Norðurlöndum með geðraskanir allt að 15-20 árum skemmri en annarra íbúa. Steindór segir að þótt hluta ástæðunnar megi rekja til óheilbrigðari lífshátta fólks með geðraskanir sé enginn vafi á að notkun geðlyfja hafi líka áhrif. „Við vitum núna að nýju geðrofslyfin geta valdið sykursýki, hjarta- og æðasjúkdómum og jafnvel skyndidauða. Þetta er alvarlegt mál því útbreiðsla þessara lyfja er miklu meiri en æskilegt er.“ Lyfin voru kynnt fyrir um 20 árum sem „ný kynslóð“ geðlyfja, en læknablaðið The Lancet greindi frá því árið 200[9] að sú markaðssetning væri spunaleikur lyfjafyrirtækja, lyfin væru í reynd lítt frábrugðin þeim gömlu.

Una Sighvatsdóttir una@mbl.is

Þessi fréttaskýring birtist í Morgunblaðinu, 1. desember, 2010.


Ég er reiður

Steindór J. Erlingsson

„Stóra spurningin er hvernig við getum horft framan í heiminn þegar við byrjum að fá á okkur gagnrýni fyrir að halda gögnum leyndum ...“. Framkvæmdastjóri útgáfumála hjá AstraZeneca, framleiðanda Seroquel, í innanhústölvupósti 6. desember, 1999.

Í rúm tuttugu ár hef ég barist við mjög alvarlegt þunglyndi og kvíða. Í þessari baráttu hef ég innbyrgt mikið magn lyfja af ýmsum gerðum. Ber þar helst að nefna þunglyndislyf og geðrofslyf. Megnið af þessum tíma hef ég treyst því að lyfin sem ég fékk byggðu á traustum vísindalegum grunni. Á undanförnum misserum hefur þetta traust minnkað snarlega. Ekki að ástæðulausu því eins og segir í leiðara British Medical Journal, sem birtist á vefsíðu tímaritsins 12. október sl., er brýnna aðgerð þörf til þess að „endurvekja trúna á fyrirliggjandi vísindagögn“ í læknisfræðinni. Hér liggur rót reiði minnar.

Frá því í lok desember 2008 hef ég lesið mikinn fjölda bóka og vísindagreina sem hafa smátt og smátt opnað augu mín fyrir vandamálinu sem BMJ gerir að umtalsefni í leiðara sínum. Þar sem ég á sjálfur við geðröskun að stríða hefur þessi opinberun eðlilega kveikt talsverða reiði innra með mér. Sérstaklega eftir að ég komst að því að lyfjafyrirtæki hafa beitt blekkingum til þess að koma á markað sumum þeirra þunglyndis- og geðrofslyfja sem ég hef innbyrgt. Hvernig eru slíkar blekkingar framkvæmdar?

Rannsóknir hafa leitt í ljós að lyfjapróf sem fjármögnuð eru af lyfjafyrirtækjum (í dag eru rúmlega 70% af lyfjaprófum fjármöguð af þeim) eru mun líklegri til þess að sýna marktækan mun á lyfi og lyfleysu eða samkeppnislyfi en þegar þau eru fjármögnuð af óháðum aðilum. Vandamálið snýst um að lyfjafyrirtækin halda öllum gögnum, takmarka þannig aðgang rannsakenda að þeim og láta oft „draugahöfunda“ skrifa vísindagreinar.

Ein alvarlegasta birtingarmynd þessa er þegar lyfjafyrirtæki birta ekki niðurstöður neikvæðra lyfjaprófa eða birta þau sem „jákvæð“. Með þessu móti er dregin upp röng mynd af mögulegri virkni lyfja. Þessari aðferð hefur verið beitt við markaðssetningu ýmissa þunglyndislyfja sem komið hafa á markað á undanförnum rúmum tuttugu árum.

Önnur aðferð felst í því að draga úr eða birta ekki upplýsingar um alvarlegar aukaverkanir. Framleiðendur geðrofslyfja, s.s. ZyprexaSeroquel og Risperdal, beittu m.a. þessari aðferð til þess að sannfæra lækna um að lyfin stæðu framar eldri gerðum geðrofslyfja. Rannsóknir hafa hins vegar leitt í ljós sú er ekki raunin. Í umsögn um eina slíka rannsókna, sem birtist í læknablaðinu Lancet 3. janúar, 2009, segir að læknar hafi verið blekktir í nærri 20 ár og einungis núna séu þeir að átta sig á sannleikanum. Hér er um alvarlegt mál að ræða því áður en nýju geðrofslyfin komu á sjónarsviðið um miðjan síðasta áratug 20. aldar var markaðurinn fyrir þau lítill og miðaðist aðallega við einstaklinga með geðklofa. Ávísun nýju lyfjanna hefur hins vegar vaxið gríðarlega og eru þau í dag m.a. notuð til þess að meðhöndla kvíða og svefntruflanir.

Af framansögðu má ljóst vera að læknar hafa ekki síður en sjúklingar verið blekktir. Þeir geta hins vegar ekki fríað sig ábyrgð. Í bók lífsiðfræðingsins Carls Elliott, White Coat, Black Hat: Adventures on the Dark Side of Medicine (2010), er fjallað um þennan vanda sem læknisfræðin stendur frammi fyrir. Eitt af því sem hann gerir að umtalsefni eru samskipti lækna við lyfjaiðnaðinn. Elliott segir læknasamfélagið hafa deilt áratugum saman um hvort auglýsingar, gjafir, námsferðir eða önnur hlunnindi sem lyfjaiðnaðurinn og fulltrúar hans láta læknum í té hafi áhrif á lyfjaávísanir þeirra. Í dag liggur hins vegar ljóst fyrir að þessi samskipti hafa oft bein áhrif á hvernig og hvaða lyfjum læknar ávísa, enda segir Elliott endurteknar rannsóknar hafa staðfest þetta.

Í ljósi þess sem fram hefur komið þá hlýt ég að spyrja:

Af hverju halda læknar áfram að eiga bein samskipti við fulltrúa lyfjaiðnaðarins?

Af hverju leyfði Geðlæknafélag Íslands fulltrúum lyfjaiðnaðarins að sitja fyrir gestum á vísindaþingi félagsins í vor?

Af hverju tóku íslenskir geðlæknar þátt í skipulagningu fundar í vor þar sem til stóð að fulltrúi lyfjafyrirtækisins Pfizer, framleiðandi hins rándýra kvíðalyfs Lyrica, gagnrýndi eldri gerðir kvíðalyfja? Er það eðlilegt að lyfjaiðnaðurinn borgi með auglýsingum rúmlega 90% af rekstarkostnaði Læknablaðsins?

Við þurfum að fá svör við þessum og skyldum spurningum, þó ekki væri nema til að koma í veg fyrir að læknar fari að ávísa nýjum og rándýrum lyfjum sem síðar mun koma í ljós að standa ekki framar fyrirliggjandi lyfjum. Þangað til mun reiðin halda áfram að krauma innra með mér.

Steindór J. Erlingsson
Vísindasagnfræðingur
steindor@akademia.is

Þessi grein Steindórs birtist upphaflega á pressan.is  þann 26.11.2010


Geðsjúkum mismunað á nýja háskólasjúkrahúsinu?

spitalatorg2Ég hef verið að skoða og kynna mér nýja háskólasjúkrahúsið. Þetta nýja háskólasjúkrahús á að vera mjög flott og standast nútímakröfur. Þar er meðal annars talað um að allar sjúkrastofur verði einstaklingsherbergi með sér baðherbergi og aðgengi út á skjólsæla þakgarða sem snúa vel við sólu þar sem rækta má rósir og lækningajurtir.

Þetta hljómar mjög vel og finnst mér þetta vera góð þróun. Það sem stakk mig þegar ég var að skoða teikningaranar er að geðsviðið á ekki að færast inn í nýja háskólasjúkrahúsið. Það á að halda áfram starfssemi í núverandi geðdeildarbyggingu. Ég fór að lesa mér til og skoða eins mikið af gögnum í sambandi við nýja háskólasjúkrahúsið eins og ég komst yfir. Ég sá að í upphafi ferlisins var hugmyndin að geðsviðið fengi aukið húsnæði en samkvæmt nýjustu skýrslum og teikningum er svo ekki. Það er samt talað um að endurbæta húsnæðið en ekki stækka það. Ég sé því ekki hvernig hægt sé að bæta aðstöðuna mikið því byggingin er nú þegar sprungin. Oft þarf að vísa sjúklingum frá eða útskrifa þá of snemma vegna skorts á plássum. Það er því ekki hægt að fjölga herbergjum til að allir fá eins manns herbergi, eða bæta við aðstöðu inn á deildum fyrir til dæmis iðjuþjálfun.

Af hverju fá geðsjúkir ekki sömu aðstöðu og aðrir sjúklingar? Ég persónulega hef legið inn á geðdeild og finnst aðstaðan þar vera óviðunandi. Flest herbergin eru tveggja manna sem getur verið mjög erfitt því sjúklingar eru í mismunandi ástandi. Ég hef oft lent í því að herbergisfélagi minn hefur haldið fyrir mér vöku eða truflað mig á annan hátt. Þetta er mjög slæmt þar sem margir sjúklingar hafa átt erfitt með svefn og þurfa nauðsynlega að komast í ró og næði. Hreinlætisaðstaðan er líka slæm, upp að 5 sjúklingar nota sama baðherbergið og sömu sturtuna. Þeir geta verið af báðum kynjum og í misjöfnu ástandi. Þetta aðstöðuleysi hefur áður verið í umræðunni og kallað hefur verið eftir úrbótum frá sjúklingum, starfsfólki og aðstandendum án mikils árangurs.

Það má samt nefna að flytja á bráðamóttöku geðsviðs inn í nýja háskólasjúkrahúsið þar sem verður sameinuð bráðamóttaka fyrir allt sjúkrahúsið. Að sumu leyti er það jákvætt og væntanlega verður þar mun betri aðstaða en er á núverandi bráðamóttöku. Það eru samt ekki allir sammála um kosti þess að hafa eina sameinaða bráðamóttöku, ég veit til dæmis um einstaklinga sem finnst það hræðileg tilhugsun að þurfa að fara á svona stóra bráðamóttöku þegar því líður svona illa. Það má líka nefna að á teikningu fyrir annan áfanga er sýnd möguleg stækkun geðdeildar. En því miður er það bara framtíðarmöguleiki eftir að annari áætlaðri uppbyggingu er lokið.

Mér og félögum mínum í Hugarafli finnst það mjög alvarlegt mál að verið sé að mismuna geðsjúkum í heilbrigðiskerfinu á Íslandi árið 2010! Eru þetta fordómar? Eru geðsjúkdómar annars flokks sjúkdómar í heilbrigðiskerfinu?

Elín Ósk Reynisdóttir


Grein: Er AHDH ofgreint?

Að undanförnu hefur talsvert verið rætt í fjölmiðlum um athyglisbrest og ofvirkni (ADHD) og mögulega misnotkun á lyfjunum sem notuð eru til þess að meðhöndla geðröskunina.

Umræðan hefur fyrst og fremst snúist um að gagnrýna of mikla ávísun ADHD lyfja eða verja ágæti lyfjanna til þess að bæta líf þeirra fjölmörgu einstaklinga sem þau nota. Við þurfum að opna þessa umræðu enn frekar og spyrja tveggja mikilvægra spurninga: 1) Í samanburði við hvað er ávísun ADHD lyfja mikil hér á landi? 2) Er ADHD mögulega ofgreint?

1. Í grein eftir Helgu Zoëga, Matthías Halldórsson fyrrverandi aðstoðarlandlækni og fleiri, sem birtist á síðasta ári í Journal of Child and Adolescent Psychopharmacology, koma fram sláandi upplýsingar um geðlyfjaneyslu barna og unglinga hér á landi. Ávísun geðlyfja til þessa aldurshóps er sú mesta sem þekkist í Evrópu, en er að einhverju leyti sambærileg við það sem tíðkast í Bandaríkjunum.

Eins og bent er á í greininni eigum við heimsmet í ávísun þunglyndislyfja til barna og unglinga. Ávísun geðrofslyfja hér á landi er einnig langt umfram það sem tíðast í Evrópu, sem er varasöm þróun vegna alvarlegra aukaverkana geðrofslyfja.

Samkvæmt greininni hefur ávísun ADHD lyfja aukist gríðarlega á undanförnum tveimur áratugum. Ef Ísland er borðið saman við hin Norðurlöndin koma fram athyglisverðar tölur. Í samanburði við Finna nota Danir, skv. grein sem kom út í finnska læknablaðinu árið 2006, tvisvar sinnum meira af þessum lyfjum, Svíar þrisvar, Norðmenn átta en Íslendingar 22 sinnum meira.

Þrátt fyrir áhyggjur sumra lækna og vísindamanna af langtímaáhrifum þessara lyfja kemur fram í skýrslu lyfjaframleiðendanna, sem opinberuð var í upphafi mars, að fyrirtækin sjá ekki ástæðu til þess að kanna málið nánar.

2.Í ljósi mögulegra neikvæðra afleiðinga af langvarandi neyslu ADHD lyfja er mikilvægt að einungis þeir sem þurfa nauðsynlega á meðferðinni að halda fái hana. Það hlýtur því að vera talsvert áhyggjuefni þegar einn af höfundum skilgreiningarinnar á ADHD, bandaríski geðlæknirinn Allen Frances, viðurkenndi ítrekað fyrr á þessu ári í bandarískum fjölmiðlum að hún hafi stuðlað að „fölskum faraldri“.

Frances segir ADHD-netið hafa of þrönga möskva. Það hafi „fangað marga ‚sjúklinga‘ sem hefði líklega vegnað mun betur utan geðheilbrigðiskerfisins“. Ástæða þess að Frances getur haldið þessu fram er að við greiningu á ADHD, eða öðrum geðröskunum, er stuðst við huglæga spurningalista en ekki hlutlæg líffræðileg próf.

Eins og Allen Frances gefur í skyn fylgja ýmis vandamál flokkun og greiningu geðraskana og rista þau raunar svo djúpt að Frances og Steven E. Hyman, fyrrverandi forstjóri bandarísku geðheilbrigðisstofnunarinnar, hafa líkt þeim við ástand líffræðinnar áður en Darwin setti fram þróunarkenningu sína árið 1859. Má líkja sumum þeirra við þá staðreynd að fyrir daga Darwins var hægt að flokka höfrunga með fiskum og leðurblökur með fuglum því oftast var horft á yfirborðseinkenni, eins og geðlæknisfræðin gerir í greiningum sínum, en ekki undirliggjandi skyldleika.

Í september hefti Journal of Health Economics birtust tvær óháðar rannsóknir sem varpa skýru ljósi á þessa hættu. Í báðum rannsóknunum var kannað hvort aldur innan árgangs hefði áhrif á hvort börn eru greind með ADHD. Þegar horft er á einstaklinga sem eru að hefja skólagöngu sína þá eru yngstu börnin innan árgangsins, skv. annarri rannsókninni, 60% líklegri til þess að fá ADHD greiningu en þau sem eldri eru.

Þegar þessir einstaklingar eru komnir upp í 6. og 8. bekk er tvisvar sinnum líklegra að þeir séu á ADHD lyfjum en þeir sem eldri eru innan árgangsins. Höfundar beggja rannsóknanna telja þetta skýra vísbendingu um að „ADHD einkennin“ endurspegli einungis tilfinninga- og vitsmunalegan vanþroska yngstu nemendanna.Niðurstaða beggja rannsóknanna er því sú að u.þ.b. 20% þeirra barna og ungmenna í Bandaríkjunum sem fá ADHD greiningu séu ranglega greind.

Ég tel brýnt að sambærileg rannsókn verði gerð hér á landi því ef rétt reynist þá þurfa yngstu börnin í hverjum grunnskólaárgangi ekki lyf heldur þarf skólakerfið að koma til móts við þarfir þessara einstaklinga. Einnig tel ég heilbrigðiskerfið skulda almenningi skýringu á því af hverju ávísun geðlyfja til barna og unglinga hér á landi er jafn mikil og raun ber vitni. Það er kominn tími til að við sem samfélag horfum upp úr pilluglösunum og út fyrir greiningaprófin og spyrjum okkur hvort við séum á réttri leið.

Höfundur : Steindór J. Erlingsson.

Fréttablaðið, 2. október, 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband