Þörf á skýrari reglum í lyfjaiðnaði

Fréttaskýring í Morgunblaðinu, 1. desember, 2010.

Vísað er í umfjöllunina í leiðara blaðsins

Unnt væri að ná fram sparnaði í heilbrigðisgeiranum með því að setja skýrar reglur um samskipti lækna við fulltrúa lyfjaiðnaðarins og auka meðvitund um starfshætti hans. Þessu heldur Steindór J. Erlingsson vísindasagnfræðingur fram.

„Því miður sýna rannsóknir fram á að starfshættir lyfjafyrirtækjannna eru oft þannig að þau gefa villandi upplýsingar til lækna,“ segir Steindór. Hann sendi í vikunni bréf til allra þingmanna þar sem hann kallaði eftir breytingum.

Lyfjaiðnaðurinn ver á hverju ári milljörðum dala í markaðssetningu á nýjum lyfjum, þar á meðal í kynningarstarf sem beinist að læknum og felur gjarnan í sér ýmis hlunnindi og boðsferðir. Fjöldi rannsókna hefur síðustu ár sýnt fram á að læknar verða fyrir meðvituðum og ómeðvituðum áhrifum af þessu.

Steindór bendir á að með öfluga markaðsvél að vopni haldi lyfjafyrirtækin nýjum og rándýrum lyfjum að læknum sem ávísi þeim til sjúklinga, án þess að þau séu endilega betri en eldri og ódýrari lyf.

74% niðurstaðna aldrei birt

Hluti af vandamálinu er að oft er stór hluti rannsókna sem gerðar eru á nýjum lyfjum aldrei birtur. Lyfjafyrirtækin sjálf fjármagna í auknum mæli lyfjaprófanir, ýmist með eigin rannsóknum eða sem styrktaraðilar rannsókna.

Skiptar skoðanir eru um hvort eðlilegt sé að lyfjafyrirtækin sjálf beri ábyrgð á rannsóknum á áhrifum og öryggi nýrra lyfja. Ekki síst í ljósi þess að ítrekað hafa komið fram dæmi um að rannsóknunum sé hagrætt og þær ritskoðaðar, þannig að aðeins eru birtar niðurstöður sem eru hagstæðar markaðssetningu.

Nýjasta dæmið um þetta varðar þunglyndislyfið Reboxetine og er rakið í læknaritinu British Medical Journal þann 12. október síðastliðinn. Vísindamenn hjá opinberu lyfjaeftirliti í Þýskalandi komust að því að lyfjafyrirtækið sem stýrði rannsóknum á lyfinu opinberaði aðeins 26% af niðurstöðunum, 74% voru aldrei birt. Þær niðurstöður sýndu fram á að þveröfugt við það sem fram kom í ritrýndum greinum væri Reboxetine „áhrifalítið og hugsanlega skaðlegt þunglyndislyf“.

Í leiðara British Medical Journal segir að endurheimta þurfi traust á vísindarannsóknum í lyfjageiranum. Steindór segir að vandamálið sé ekki síst að heilbrigðisgeirinn sitji nú uppi með fjölda birtra vísindagreina frá síðustu áratugum án þess að vita hvar niðurstöðum hafi verið haldið eftir og hvar ekki.

Vandamálið er ekki nýtt af nálinni og umræðan um það ekki heldur. Árið 2007 voru reglur hertar í Bandaríkjunum þannig að skrá þarf öll lyfjapróf í sérstakan gagnagrunn. Markmiðið var að koma í veg fyrir að fyrirtæki gætu komist upp með að fela neikvæð lyfjapróf. Fyrstu úttektir sem gerðar hafa verið á þessu kerfi síðan sýna þó að það hefur ekki skilað tilætluðum árangri að sögn Steindórs. Læknablöð hafa einnig mörg sett sér þá stefnu að greina verði frá fjárhagslegum tengslum höfunda við lyfjafyrirtæki. Það hefur heldur ekki virkað sem skyldi. Steindór er þeirrar skoðunar að ekki dugi til að læknar setji sér siðareglur, heldur þurfi að binda reglurnar í læknalög. „Meginatriðið er þó að vekja Íslendinga til meðvitundar um þetta.“

Alvarlegar aukaverkanir

Samkvæmt nýrri rannsókn eru lífslíkur fólks á Norðurlöndum með geðraskanir allt að 15-20 árum skemmri en annarra íbúa. Steindór segir að þótt hluta ástæðunnar megi rekja til óheilbrigðari lífshátta fólks með geðraskanir sé enginn vafi á að notkun geðlyfja hafi líka áhrif. „Við vitum núna að nýju geðrofslyfin geta valdið sykursýki, hjarta- og æðasjúkdómum og jafnvel skyndidauða. Þetta er alvarlegt mál því útbreiðsla þessara lyfja er miklu meiri en æskilegt er.“ Lyfin voru kynnt fyrir um 20 árum sem „ný kynslóð“ geðlyfja, en læknablaðið The Lancet greindi frá því árið 200[9] að sú markaðssetning væri spunaleikur lyfjafyrirtækja, lyfin væru í reynd lítt frábrugðin þeim gömlu.

Una Sighvatsdóttir una@mbl.is

Þessi fréttaskýring birtist í Morgunblaðinu, 1. desember, 2010.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mjög alvarlegt. Þetta er hrykalegt og þetta þarf að rannsaka sem fyrst. Ég held að við sem erum á þessum lyfjum ættum að fara fram á það að þetta verði rannsakað hið fyrsta.

En allavega. Gott að fá þessa grein hérna inn.

Takk.

Valgeir Matthías Pálsson (IP-tala skráð) 2.12.2010 kl. 09:37

2 identicon

Flott hjá þér Steindór....ég er algjörlega sammála þér og er í rauninni farin að verða skíthrædd við Serocuel...er að taka 100 mg á kvöldin.

Þetta eru sko þarfar ábendingar og þörf umræða!

Gleðileg jól til þín og fjölskyldu þinnar

Adda (IP-tala skráð) 22.12.2010 kl. 23:17

3 identicon

Alltaf gott að fá umræður.Og eins með það að sumir geta ekki verið án lyfja.Gleðileg jól kv Eymundur

Eymundur Lúter Eymundsson (IP-tala skráð) 29.12.2010 kl. 22:50

4 Smámynd: Ari Jósepsson

Mér finnst vanta Gestabók á síðunna og sjá vinalistan líka.

Kv Ari 

Ari Jósepsson, 15.1.2011 kl. 16:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband