Færsluflokkur: Batasögur

Að fá að vera þátttakandi

Ég er ein þeirra sem hef barist við sjúkdóminn allt mitt líf. Ég fæddist 1972 sem er fullsnemmt til að fá viðurkenningu og greiningu, ég var bara sett í flokkinn óþægt og erfitt barn. Líf mitt hafði alls ekki legið í rétta átt fyrr en fyrir rúmum fimm árum þegar ég komst í meðferð sem hentaði mér, um var að ræða hópameðferð fjórum sinnum í viku.

Löngunin um að fá að vera eins og hinir getur verið lamandi, ég leitaði og leitaði að hjálp því ég gat ekki verið til, sársaukinn var svo gríðarlega mikill, óttinn við lífið og hvort ég mundi nokkur tíma geta dregið andann án þess að finna fyrir þessum nístandi sársauka.

Ástandið sem ég var í á þessum tíma var óþolandi, ég gat ekki verið til en ég mátti samt ekki deyja, ég var orðin það veik á tímabili að ég þurfti á innlögn að halda vegna þess hversu mikilli hættu ég var í, ég vildi bara deyja.

Landsspítalinn: Ég var lögð inn á geðdeild á landsspítalanum. Dvölin þar var hræðileg, og fannst mér hún að mörgu leyti ganga út að róa mann niður með lyfjum. Ég hef aldrei viljað taka ávanabindandi lyf og flokkaðist þess vegna í hópinn erfiður sjúklingur, því ég vildi ekki taka lyf sem ég gæti hugsanlega orðið háð. Ástæðan á baki þessari ákvörðun minni er sú að það er gríðarlega mikið um alkahólista í fjölskyldunni minni, og ég mat ástandið þannig að ég væri í alveg nægjanlega miklum vandræðum þó svo ég yrði ekki háð einhverjum lyfjum.

Sjálfsmatið í molum: Það var ekki nóg með að sjálfsmatið væri hrunið heldur þurfti líka að ýta undir það á geðdeildinni hversu misheppnaður maður væri. Bara sem eitt lítið dæmi: ég græt ekki oft því ég er að mörgu leyti mjög frosin tilfinningarlega, en í þetta skiptið leið mér svo hræðilega að ég sat á ganginum og grét, grét yfir að vera misheppnuð, grét yfir sársaukanum sem var svo óbærilegur, grét yfir því að ég gæti ekki hugsað um börnin mín, ég grét yfir að missa af tækifærinu til að vera til. ég grét af sorg... því það fylgir því mikil sorg að vera staddur á þessum stað í lífinu.

Á þessari stundu þar sem ég sat þarna og grét hefði ég svo sannarlega þurft á huggun að halda, nærgætni og skilningi, en NEI mér var sagt að fara inn í herbergið mitt og grenja þar því til þess værum við með herbergin. Þetta gerði það að verkum að ég lokaðist enn frekar og gat ekki opnað á þessar tilfinningar og sorg fyrr en löngu seinna.

Geðdeild: Ég velti því fyrir mér hvort gott sé fyrir veikar manneskjur að vera geymdar á svona stað. Því geðdeildir á Íslandi eru ekkert annað en geymslustaðir. Þar er enga endurhæfingu að fá til að hjálpa til við að komast út í lífið aftur. Það mesta sem hægt er að gera er að föndra í tvo klukkutíma á viku, og jú einstaka gönguferðir um nágrennið í fylgd með starfsmanni.

Þarna hékk ég þó í nokkrar vikur. Það var mjög erfitt að fá viðtal við sálfræðing eða geðlækni. Það er að mörgu leyti komið fram við sjúklingana eins og lítil ósjálfráða börn, allar ákvarðanir eru teknar fyrir þig og um þig og oftast án þess að hafa þig með í ráðum.

Þegar þarna var komið leið mér hræðilega og ég hafði yfirleitt þann háttinn á að þegar líðanin var svona hrikalega sár inni í mér þá leitaði ég gjarnan í það að skaða mig líkamlega, ég skar mig í handleggina eða barði hausnum í veggi, til þess eins að reyna að deyfa sársaukann sem bjó innra með mér. Mér fannst oft og tíðum betra að geta staðsett sársaukann í líkamanum heldur en í sálinni.

Að dvelja á geðdeild er ekki eftirsóknarvert, þar ertu eiginlega fyrir og ef þú gerir ekki það sem starfsmennirnir segja þér að gera, áttu ekki von á miklum skilningi.

Það á að vera komin ró á kvöldin kl 10 á virkum kvöldum og kl 11 um helgar, alveg sama hvort þú sér 18 ára eða 70 ára. Þetta var reglan sem þú áttir að fara eftir. Inni á geðdeilum Landsspítalans er misveikt fólk. Margir ef ekki flestir sem liggja þar inni reykja. Til þess að fá að reykja þá færðu að fara út og inn í lítið glerhýsi fyrir utan anddyri geðdeildar hússins.

En þar inni var einn stór skipti markaður á lyfjum. Sjúklingar af fíkladeildinni geymdu gjarnan lyfin sín, tóku þau ekki heldur fór með þau með sér og seldu þau eða skiptu þeim út fyrir aðrar tegundir. Þannig að á þennan stað leitar mikið af ógæfu fólki sem er háð einhverskonar efnum.

Dvölin mín var ekki áhugaverð á neinn hátt. Ég var bara þarna í geymslu, ekkert er gert til að reyna að hjálpa einstaklingunum að komast út í lífið aftur. Svo kom að því að það átti að útskrifa mig. Og ég var á þeim tíma ekki í góðu ástandi og þorði ekki heim því ég var hrædd, hrædd við það hvað beið mín, ég átti enga til að taka á móti mér eða til að ná í mig og fylgja mér heim.

Ég ræddi þetta við þá sem réðu og sagði þeim frá ótta mínum við að fara heim, en ekki var hlustað á mig frekar en fyrri daginn og mér sagt að ég yrði að fara heim að svo stöddu því ég var ekki lengur í bullandi sjálfsvígshættu. Ég var hrædd og skalf á beinunum yfir því hvað mundi bíða mín, hvort ég gæti andað heima eða hvort sársaukinn mundi taka völdin aftur.

Ég treysti mér ekki til að fara heim og vera ein heima. En mér var ýtt út um dyrnar og sagt við mig, þú veist þú getur leitað hingað ef þér líður illa.... og mér leið illa en átti samt að fara heima og vera ein þar. Þar með var það haldreipi farið um að ég gæti leitað til þeirra ef ég gæti ekki dregið andann lengur.

Ég fór niður í anddyrið með dótið mitt og bað vörðinn að hringja fyrir mig á leigubíl því eins og fram kom áðan hafði ég engan til að sækja mig. Leigubíllinn kom fljótlega og keyrði mig heim til mín og það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom heim það var að taka öll þau lyf sem ég átti því ég vildi ekki tilheyra þessu lífi lengur.

En einhverra hluta vegna hringdi í mig fyrrum vinur minn og hann var mjög hissa á að ég skildi vera komin heim og heyrði jafnframt á mér að það var ekki allt í lagi með mig. Hann hringir niður á deild þar sem ég hafði legið inni í 6 vikur og spurðist þar fyrir hvers vegna ég hafði verið útskrifuð í þessu ástandi, svarið var það vantaði pláss.

Hann gerði starfsmönnum deildarinnar grein fyrir því að ég væri heima hjá mér í annarlegu ástandi. Þegar þarna var komið við sögu lá ég heima í rúminu mínu undir sæng með dregið fyrir og var hálf rænulaus, beið í rauninni eftir því að dauðinn mundi koma og frelsa mig undan þessum hræðilegu sálarangist sem ég bjó við. En nei í staðinn fyrir að dauðinn kæmi hringdi síminn og einhverra hluta vegna svaraði ég (ég var vön að hundsa símann vildi vera ein með sjálfri mér og vanlíðan minni) á hinum enda línunnar hljómar kunnugleg rödd.

Já það var röddin í yfirlækni deildarinnar sem ég hafði verði útskrifuð af.

Hann segir við mig. Hvað ertu búin að taka... eitthvað á þennan hátt... man það ekki alveg vegna ástandsins sem ég var í... ég svara að honum komi það ekki við... hins vegar segir hann mér að ef ég væri ekki komin niður á deild innan 30 mínútna mundi hann senda eftir mér sjúkrabíl... ég vildi ekki tala við hann og skellti á... og ætlaði að leyfa lyfjunum að ná völdunum... en vildi samt ekki að það kæmi sjúkrabíll á svæðið einu sinni enn, nágrönnunum til ama. Þess vegna pantaði ég leigubíl og fór niður á Landsspítala og inn á deildina sem ég hafði verið útskrifuð af.

Ég var send á bráðamóttökuna þar sem dælt var upp úr mér og mér gefin lyfjakol. Var síðan send yfir á „mína“ deild aftur. Kom þá þessi tiltekni læknir að rúminu sem ég lá í og sagði við mig orðrétt: vantaði þig athygli , tókst þú þess vegna þessi lyf.

Ég hef oft hugsað um þetta og verð í rauninni alltaf reiðari og reiðari yfir þessum orðum hans. Að fagmaður hafi virkilega haldið það að ég hafi ætlað mér að deyja vegna þess að mig hafi vantað athygli.

Sennilega var að það síðasta sem mig vantaði. Í fyrsta lagi vantaði mig umhyggju, nærgætni og skilning. Manneskja sem er stödd á þessum hræðilega stað vill nefnilega alls ekki athygli, ég vildi á þessum tímapunkti frið.... frið frá öllu ekki síst frá sársaukanum sem bjó innra með mér. Þannig að þarna upplifði ég algera höfnun bæði frá yfirmanni deildarinnar og öðru starfsfólki. Og þá vildi ég fara heim en þá mátti ég það ekki. Þannig að ég var geymd þarna í eina viku í viðbót en var þá útskrifuð og ég var svo heppin að það var tilraunarverkefni í gangi, sem gekk út á það að fá heimahjúkrun við útskrift.

Heimahjúkrunin: Þegar þarna var komið við sögu var búið að kynna heimahjúkrunarkonuna fyrir mér áður en ég fór heim. Hjúkrunarkonan fylgdi mér heim og fór með mér inn, þar með voru þessi erfiðu skref tekin og ég var ekki ein. Hjúkrunarkonan kom til mín eftir þörfum. Hún fór með mér að versla í matinn og kom með lyfin mín til mín því ég vildi ekki hafa þau heima af ótta við að ofskammta.

Þegar þarna var komið sögu þá gat ég andað heima og fór smá saman að byggja mig upp, var dugleg að mæta í meðferðina mína og hjúkrunarkonan kom til mín og studdi mig í gegnum erfið skref.

Líf mitt tók smá saman breytingum til hins betra. Ég fór smá saman að öðlast heilsu aftur en við unnum líka í málunum þannig að ég var aldrei með nein aukalyf heima hjá mér. Heldur fór ég í skömmtun í apótekið og fékk viku skammt í einu sem mundi ekki duga mér til að deyja af. En sú sorglega staðreynd er að það var einungis um tilraunarverkefni að ræða með heimahjúkrunina. Svo að það fengu ekki nægilega margir tækifæri á að njóta þessarar aðstoðar sem ég fékk.

Lífið í dag: Í dag er ég hamingjusöm og er í fullu námi við einn af Háskólum landsins. Er búin að ljúka einu ári og mun fara í fullt nám næsta haust. Börnin mín búa hjá mér og ég er með fullt forræði yfir þeim öllum. En ég vil taka það fram að ég óskaði á sínum tíma eftir að þau fengju að vera hjá pabba sínum á meðan ég gekk í gegnum versta tímann.

Þau dvöldust hjá honum í þrjá mánuði og komu svo til mín og hafa verið hjá mér allar götur síðan. Ég er afar stolt af því að ég gerði mér grein fyrir ástandi mínu og leitaði mér hjálpar, jafnframt gerði ég mér grein fyrir því að börnin væru betur sett hjá föður sínum.

Ég lít á þetta sem einn af mínum helstu styrkleikum að hafa getað séð hvað var börnunum fyrir bestu burt séð frá sársaukanum sem fylgir því að viðurkenna fyrir sjálfum sér að maður sé ekki hæfasti aðilinn til að sjá um þau á þessum tíma.


Batasaga: Af þunglyndi og félagsfælni.

Halló, ég er kölluð Dísa og mig langar að segja ykkur söguna mína.

Ég hef verið þunglynd, félagsfælin og með kvíða í mörg ár. Ég átti mjög erfiða æsku, þar sem mikið einelti kom til sögu. Alveg frá því ég var krakki byrjaði þunglyndið að festa sér rætur, það sem hélt mér gangandi og á lífi var fjölskyldan mín. Ég er mjög heppin með fjölskyldu, en ég átti enga vini og treysti engum nema mínum nánustu.

Eineltið var að mestu andlegt og það drap allt sjálfstraust og virðingu fyrir sjálfri mér. Það eina sem ég þráði var viðurkenning meðal jafnaldra minna, en fékk hana aldrei, og hef ekki fengið ennþá. Þar sem vinirnir voru engir var ég oftast ein, ég lék mér ein og var ein í skólanum, á móti 100 krökkum. Einsemdin þróaðist svo út í þunglyndi og kvíða.

Ég fékk aldrei faglega hjálp, þó beðið hafi verið um hana. Það er eitthvað sem mér finnst hvað sárast, að skólayfirvöld í mínum skóla hafi aldrei viljað hjálpa mér eða ekki haft ráð fyrir mig. Ég fékk ekki samtöl við sálfræðing, þó oft hafi verið beðið um það.

Eftir grunnskóla og eitt ár af framhaldsskóla, flosnaði ég upp úr námi og fór að vinna. Ég vann á hinum og þessum stöðum og vann mikið. Ég gat samt aldrei náð því að eignast vini af því að ég treysti ekki samstarfsfólki mínu og var farin að halda að allir væru jafn vondir og krakkarnir sem voru með mér í grunnskóla. Í mesta lagi náði ég að tengjast hinni og þessari stelpu sem voru að vinna með mér þann tímann og vera með henni, fara með þeim á djammið til dæmis. En ég var alltaf sama gólftuskan og lét þessar stelpur vaða yfir mig. Ég þóttist vera hress þegar ég var með þeim og bara í kringum fólk og var búin að búa mér til grímu, sem ég notaði alltaf í kringum aðra.

Seinni part unglingsáranna voru mér líka erfið líkamlega, ég þurfti að fara í margar aðgerðir á meltingarfærum og var mjög oft veik. Ég lá heima kannski vikum saman áður en eitthvað var gert fyrir mig. En læknar voru búnir að stimpla mig móðursjúka. Til dæmis var farið með mig á slysó í eitt skipti og þá sagði læknir: „kemur þessi“, þá var ég með gat á maga.

Eftir öll þessi ár þar sem ég var á vinnumarkaðinum og smá prufur af því að fara aftur í skóla. Ég náði þó að klára tækniteiknun, sem mér líkaði ekki að vinna við, og nánast klára sjúkraliðann, en þá gafst ég upp. Ég gat ekki klárað verklega námið vegna verkja í hnjám, þar sem ég er með slök liðbönd, sem ekki er hægt að laga.

Það var sumarið 2003, þá brotlenti ég. Ég hafði verið mjög þung þetta sumar og varð að fara fyrr heim úr sumarfríi með fjölskyldunni. Ég var hætt að geta sofið eða svaf mjög lítið, matarlystin minnkaði og ég var einræn og vildi ekki eiga samskipti við neinn. Hugsunin var sú að ég væri fyrir öllum og að ég væri betur komin, bæði fyrir mig sjálfa og mína nánustu, dauð. Ég hugsaði mikið um dauðann, skildi ekki af hverju nokkur maður vildi lifa.

Seint um sumarið reyndi ég fyrst sjálfsmorð. Ég hafði safnað að mér lyfjum og tók þau seint eitt kvöldið og lagðist upp í rúm. Einhverra hluta vegna þá hefur mamma fengið á tilfinninguna að eitthvað var að og hún kom inn til mín og fann mig þar á gólfinu. Eftir að hafa farið á bráðamóttökuna og dælt upp úr mér og mér gefin lyfjakol, var ég lögð inn á geðdeild.

Það var mjög erfitt, eiginlega erfiðara en allt annað að viðurkenna að ég væri svona veik að ég þurfti að fara á geðdeild. Eftir aðeins nokkra daga þar reyndi ég aftur sjálfsmorð. Næturvaktin kom að mér á gólfinu og ég var send aftur upp á bráðamóttöku í sömu meðferð og ég fékk í fyrra skiptið. Oft reyndi ég að skera mig á púls og brenna mig með sígarettum til að beina sársaukanum annað
Þá voru lyfin ekki farin að virka almennilega og það eina sem ég upplifði var skömm. Ég skammaðist mín fyrir að vera á geðdeild, ég skammaðist mín fyrir að hafa reynt sjálfsmorð, ég skammaðist mín fyrir að vera til. En alltaf voru foreldrar mínir til staðar og reyndu að stappa í mig stálinu,

Um haustið sá læknirinn minn að lyfin voru ekki að virka nógu vel á mig, svo hann vildi reyna raflostmeðferð. Ég var dauðhrædd, en samþykkti að reyna það. Meðferðin gekk vel og eftir 15 skipti af raflosti og betri líðan var ég útskrifuð af deildinni. Þá var ég byrjuð í iðjuþjálfun á landspítalanum og mætti þar eftir hádegi fimm daga vikunnar. Það hjálpaði aðeins, að hafa einhvern stað til að mæta á, því ekki gat ég farið í vinnu. Eftir nokkra mánuði var mætingin hjá mér farin að slappast mikið og ég kannski mætti einn eða tvo daga í viku. Þá var þunglyndið aftur farið að ná heljartökum á mér. Það endaði með annarri innlögn.

Svona gekk þetta í nokkur ár, ég var inni og út af deild og enn ein greiningin bættist við en það er persónuleikaröskun. Fékk slæm tímabil og sæmileg tímabil, sem voru að vísu mikið styttri en þau slæmu. Þegar ég vildi, leitaði ég ýmsa leiða til að láta mér batna, fór í nálastungur, heilun og til grasalæknis svo fátt eitt sé nefnt. En ekkert af þessu virkaði á mig, það getur vel verið að þetta sé gott fyrir aðra, en ekki mig.

Stundum vill maður ekki hjálp. Stundum eða oft í mínu tilviki, vildi ég bara fá að vera í friði og helst fá að sofa allan sólarhringinn. Á mjög slæmum dögum reyndi ég sjálfsvíg, alls sjö sinnum held ég, sem misheppnuðust sem betur fer hugsa ég núna, en var samt alltaf jafn vonsvikin þegar ég vaknaði eftir þær. Ég var búin að planleggja jarðarförina mína og allt, Það kostaði mig oftast innlagnir og vist og yfirsetu á b-gangi deildarinnar sem ég var á.

Ég hugsaði alltaf svo vitlaust, hélt að ég væri betur sett á himnum hjá ömmu minni og afa, og að ég væri baggi á fjölskyldu minni og þegar ég var hvað veikust þá var ég farin að hugsa sem svo að það væri verið að fylgjast með mér og að það væri faldar myndavélar útum allt. Þetta var svona eins og Truman show, þar sem fylgst er með einum manni alla hans ævi. Ég braut spegla og leitaði útum allt að myndavélum. Svona ranghugmyndir komu þegar ég var hvað veikust.

Ég fór líka í meðferðir á Reykjalundi og Kleppi, en þær voru ekki alveg að gera sig. Á Reykjalundi var ég svo óheppin að vera um mitt sumar þar sem allir voru í fríi og það eina sem ég gerði var að fara í sund og tækjasal. Ég fékk engin viðtöl hjá sálfræðingi, né það sem ég sóttist eftir og það var hugræn atferlismeðferð. Sú meðferð endaði á því að ég snarversnaði og var komin með ranghugmyndir og var komin í sturlunarástand og endaði inni á deild.

Svipað gerðist á Kleppi. Þar var ég komin og var í nokkuð góðu jafnvægi, þegar læknirinn minn ákvað allt í einu að ég mætti bara fara út tvisvar í viku í tvo tíma í senn og þá helst ekki heim til mín. Og eina vikuna var ég búin með kvótann þegar ég þurfti að fara á sjúkrahús til að heimsækja dauðvona ömmu mína og var bannað það, með þeim rökum að ég væri búin með kvótann minn. Það var úr að ég útskrifaði mig gegn læknisráði og heimsótti ömmu mína sem dó svo um nóttina.

Eftir þessara endalausu innlagnir og verandi í iðjuþjálfun, var ég alltaf í sömu sporunum, þar til iðjuþjálfunin lokaði í maí síðastliðnum. Þá var mér bent á Hugarafl og ég fór þangað í forviðtal og ég ákvað að reyna þetta.

Þar lærði ég sjálfsstyrkingu og sjálfstraustið jókst mikið. Ég að vísu tók að mér of mörg verkefni í byrjun sem ekki var mælt með og það endaði á því að ég sprakk og þurfti að fara á spítalann í nokkrar vikur þar sem lyfjunum voru breytt og ég fór í nokkur skipti í raflost. En þegar líða fór á haustið og ég útskrifuð, búin að vera með lungnabólgu og ferð til útlanda, fór ég aftur í Hugarafl og hef ekki farið þaðan síðan. Ég að vísu passa mig betur á að taka ekki of mikið að mér, þó það sé erfitt því Hugarafl er með svo mörg verkefni sem ég hef áhuga á.

Í dag líður mér bara nokkuð vel, þó það komi einstaka sveifludagar inn á milli. Ég lít á Hugarafl sem vinnuna mína og reyni að mæta þar á hverjum degi. Svo á ég líka æðislega fjölskyldu sem ég nýt að vera með. Og... ég á vinkonu, í fyrsta skipti á ævinni á ég vinkonu og reyndar fleiri vini, en þessi stelpa er alveg sérstök. Við kynntumst á Kleppi og höfum að vísu legið saman á deildinni, en við bara smellpössum saman. Ég á í dag fullt af vinum sem ég get talað við og farið með þeim á kaffihús, út að borða og á djammið ef svo ber til.

Mér sýnist á öllu í dag að mín framtíð sé björt og ég eigi vonandi eftir að láta gott af mér að leiða. Þetta er hægt, þó manni sýnist það ekki á dimmustu tímum. Batinn kemur.


Batasaga: Að lifa með geðsjúkdóm.

Ég greindist með geðklofa og þunglyndi fyrir nokkrum árum.

Ég var búinn að vera þunglyndur síðan á táningsaldri en leitaði mér ekki hjálpar fyrr en geðklofaeinkennin komu fram. Virku geðklofaeinkennin stóðu yfir í um það bil eitt ár. Þessi tími var gríðarlega erfiður fyrir mig og ég var orðinn mjög veikur bæði líkamleg og andlega. Verstu einkennin voru raddir í höfðinu, ofsóknarbrjálæði og ranghugmyndir.

Raddirnar voru mjög ágengar og töluðu um mig og til mín.

Stundum lýstu þær mínum athöfunum í smáatriðum og stundum töluðu þær til mín með mjög svo neikvæðum tón. Þær áttu það til að skipa mér fyrir og banna mér að gera hitt og þetta. Ef ég reyndi að þóknast þeim þá urðu þær bara enn ágengari og fundu eitthvað nýtt til að pína mig með. Ef ég reyndi að óhlýðnast þeim þá héldu þær bara áfram að djöflast í mér.

Það var sem sagt engin leið út. Raddirnar voru alltaf til staðar.

Á þessum tíma átti ég íbúð og var með þá ranghugmynd að nágrannar mínir væru að ofsækja mig. Ég hélt að íbúðin mín væri hleruð og að það væru hljóðnemar út um allt. Ég hélt að fötin mín og bíllinn minn væru einnig hleruð vegna þess að ég heyrði raddir út um allt.

Ég komst einnig að þeirri niðurstöðu að húsgögnin mín væru hleruð og innihéldu hátalara. Ég gekk svo langt að skera sófann minn í tætlur í leit að hljóðnemum.

Ég var líka farinn að halda að verið væri að lesa mínar hugsanir. Það var eina skýringin á því hvers vegna raddirnar vissu svona mikið um mig. Þær þekktu allar mínar hugsanir og öll mín leyndarmál.

Ég reyndi ýmislegt til að forðast og hindra raddirnar.

Ég prófaði eyrnatappa, heyrnaskjól, háværa tónlist og annað í þeim dúr en ekkert af því virkaði. Ég fór til heimilislæknisins míns og sagði honum að ég væri þunglyndur og að ég ætti erfitt með að sofa. Hann skrifaði upp á þunglyndislyf og svefnlyf handa mér.

Ég þorði ekki að segja honum að ég heyrði raddir því ég var hræddur um að hann myndi láta loka mig inni.

Mig var farið að gruna að eitthvað væri að mér en ég var samt ekki tilbúinn að horfast í augu við það. Þunglyndislyfin og svefnlyfin hjálpuðu lítið. Mér tókst að sofna á kvöldin bara til að vakna þremur tímum seinna við raddirnar. Ég tók því þá ákvörðun að selja íbúðina mína sem ég hafði átt í um það bil sex mánuði og kaupa mér raðhús. Ég hélt kannski að það að hafa færri nágranna myndi hjálpa mér í minni krísu. Að sjálfsögðu virkaði það ekki, raddirnar fylgdu mér hvert sem ég fór.

Þá tók ég þá ákvörðun að leita mér hjálpar, enda var ég kominn í þrot og hafði ekki lengur neinu að tapa.

Ég fór niður á geðdeild Landsspítalans og bað um að fá að hitta geðlækni. Ég var strax settur á geðrofslyf sem því miður virkuðu ekki og á næstu mánuðum prófaði ég nokkur lyf þangað til að loksins fannst lyf sem sló á þessi einkenni. Frá þeim tíma fór líf mitt að batna til muna. Það að vera laus við raddirnar, ranghugmyndirnar og ofsóknarbrjálæðið var dásamlegt.

Ég hafði verið með geðklofaeinkenni í rúmt ár og á þeim tíma hafði mér tekist að eyðileggja samband mitt við konu sem mér þótti mjög vænt um. Einnig hafði ég eyðilagt vináttu við minn besta vin og aðra kunningja. Ég stóð sem sagt einn uppi, með enga konu og enga vini. Ég var algerlega einn fyrir utan samband mitt við foreldra mína.

Svona lifði ég í um það bil tvö ár. Einn, ruglandi í mínum eigin heimi. Þessi félagslega einangrun fór illa með mig og var hindrun í mínu bataferli.

Það var þá sem ég samþykkti að fara í samtökin Hugarafl.

Geðlæknirinn minn hafði verið að reyna að fá mig til að fara í einhver svona geðhjálparsamtök í langan tíma en hingað til hafði ég alltaf neitað því. Ég vildi ekkert með aðra geðsjúka að hafavegna þess að þá þyrfti ég að viðurkenna að ég væri einn þeirra.

En veruleikinn var sá að mér leið ekki vel svona einum og einangraður frá lífinu og tilverunni þannig að ég samþykkti að prófa Hugarafl. Þar fór ég í forviðtal og sagði mína sögu og mér var mjög vel tekið. Ég fór að sækja fundi tvisvar í viku til að byrja með og ég fann að það gerði mér gott. Þó svo að það væri ekki mikið að mæta tvisvar viku fann ég að þessi félagslega einangrun var farin að brotna.

Tíminn leið og áður en ég vissi var ég kominn í ýmis verkefni innan Hugarafls. Vera mín í Hugarafli hafði sem sagt mjög góð áhrif á mig. Það að hafa fasta punkta í tilverunni með því að mæta reglulega gerði mér mjög gott félagslega og andlega.

Þarna kynntist ég fólki sem var bara eins og ég, manneskjur sem áttu við geðræn vandamál að stríða og það var bara allt í lagi. Ótti minn við annað geðsjúkt fólk var því misskilningur. Flest af þessu fólki var bara eins og annað fólk þó svo að það ætti við geðræn vandamál að stríða.

Eftir að hafa verið í Hugarafli í nokkra mánuði fór ég að kynna mér hugmyndafræði Hugarafls sem kallast valdefling (empowerment). Sú hugmyndafræði gengur út á það að taka stjórn á eigin lífi, að endurskilgreina sjálfan sig sem persónu fyrst og fremst frekar en sjúkling, að taka virkan þátt í samfélaginu, að vera vongóður og að sigrast á eigin fordómum.

Þessi hugmyndafræði hefur reynst mér mjög vel og hjálpað mér í mínu bataferli.

Í dag er ég orðinn nokkuð stöðugur andlega. Ég tek mín lyf og þau virka vel á geðklofaeinkennin. Ég er virkur í samtökunum Hugarafli og mæti þar reglulega á fundi. Þar hef ég kynnst mikið af góðu fólki og eignast þar góða kunningja.

Einnig hef ég öðlast hugsjón að vinna að málefnum geðfatlaðra og ég hef skrifað og þýtt greinar um þau málefni. Ég er kominn út úr skápnum með minn geðsjúkdóm og er hættur að skammast mín fyrir hann. Ég get sem sagt viðurkennt það fyrir sjálfum mér og öðrum að ég eigi við geðsjúkdóm að stríða.

Það að koma út úr skápnum með minn sjúkdóm hefur bætt líf mitt mikið. Það fer mjög illa með mann að vera með svona leyndarmál og geta ekki rætt þá hlið lífsins.

Ég vil því ráðleggja þér lesandi góður að leita þér aðstoðar ef þú heldur að þú eigir við geðræn vandamál að stríða.

Mín reynsla af bráðamóttökunni geðsviðs Landsspítalans er mjög góð og allir fagaðilar sem ég hef kynnst þar hafa reynst mér vel og þá sérstaklega geðlæknirinn minn sem hefur hjálpað mér mjög mikið og staðið við bakið á mér í mínum veikindum.

Ef þú ert þegar búinn að fá greiningu að þú sért með geðsjúkdóm þá mæli ég eindregið með því að þú kynnir þér samtök eins og Hugarafl, Geðhjálp, Klúbbinn Geysi o.s.frv.

Það að hitta annað fólk sem er að takast á við geðsjúkdóma gerir manni mjög gott. Maður kemst að því að maður er ekki einn og að aðrir hafa gengið í gegnum það sama og margir hafa náð miklum og jafnvel fullum bata í baráttunni við geðsjúkdóma.

Vertu því vongóð(ur) og gerðu þér grein fyrir því að það að greinast með geðsjúkdóm er ekki dauðadómur. Það er einfaldlega verkefni sem maður þarf að takast á við og að bati er raunverulegt markmið.

Kári Halldórsson. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband