Færsluflokkur: Kaliforníuferð

Góðir víbrar

Good good good good vibrations
(Oom bop bop)
(I'm pickin' up good vibrations)

Beach Boys: Good Vibrations

Í dag hafa verið kröftugir víbrar. Meira að segja þrumur í morgun.

Robert Whitaker heitir blaðamaður og rithöfundur sem hefur skrifað aðgengilegt efni um meðferð við geðröskunum í Bandaríkjunum "Mad in America" sem kom út árið 2002. Hann fjallar svo um ofnotkun á lyfjum og hæpnar vísindalegar forsendur fyrir þessari ofnotkun í bókinni "Anatomy of an Epidemic" sem kom út á þessu ári. Hann fékk hlýjar viðtökur, það sem heitir á ensku "standing ovation". Ef einhver hefur poppstjörnustatus í hreyfingunni okkar er það hann og á hans tölu byrjaði dagurinn.

Strax eftir fyrirspurnir fór Whitaker yfir í sýningarsalinn að árita bókina. Ég, kænn sem ég er, stökk auðvitað af stað rétt áður en fyrirspurnunum lauk og náði að vera framarlega í röðinni. Ég nældi í tvö eintök af hvorri bók, annað fyrir mig, hitt fyrir bókasafnið okkar og fékk þau árituð. Okkar áritun er: "To Hugarafl, Here's to change and mindfreedom!".

Kl. 10 sáum við fyrirlestur með Kevin Hines sem er einn af 32 sem hefur lifað það af að stökkva af Golden Gate brúnni í San Francisco. Hann hefur eftir það verið með fyrirlestra um sjálfsvígforvarnir. Ekki ólíkt því sem við gerum með geðraskanir og geðfræðsluna. Írsk hljómsveit, Friends of Emmet, gerði lag og video sem sótti innblástur í Kevin, það heitir Coming Apart, Kevin sést í upphafi og lok myndbandsins. Annars er bloggið hans hér.

Í hádegismatnum var annar fyrirlestur. Í þetta sinn talaði Mark Ragins geðlæknir sem kemur meðal annars fyrir í bíómyndinni "The Soloist". Hann er líka mikill talsmaður batamódelsins. Hann var með marga góða punkta. Við Auður munum verða okkur úti um báða þessa fyrirlestra svo þið munið geta séð þá líka.

Við Auður tókum ekki annað í mál en vera á vinnustofu um eCPR. Þetta sem Fisher talaði um þegar hann var hér. Með eCPR er verið að leika sér með skammstöfunina CPR sem á ensku stendur fyrir lífgunartilraunir. e stendur þá fyrir tilfinningar, semsagt tilfinningalífgunartilraunir sem hljómar auðvitað ekkert sérlega þjált á íslensku. En semsagt verið er að vísa til þess að rétt eins og stundum er þörf á lífgunartilraunum þarf að bregðast við í tilfinningalegum krísum. Daniel Fisher, Lauren Spiro, Will Hall og Tracy Love stýrðu þessari vinnustofu. Við gerðum í þessu ýmsar æfingar. Ykkur að segja held ég að Auður okkar sé ninja með svarta beltið í þessu og held að gæti kennt margt um þetta. Sem minnir mig á annað, margt erum við að gera vel á Íslandi og getum kennt öðrum.

Við sátum árlegan fund NCMHR (National Coalition for Mental Health Recovery eða Landssamtök fyrir bata af geðröskunum sem eru regnhlífasamtök félaga líku Hugarafli í Bandaríkjunum) þar sem var verið að leggja línurnar fyrir áhersluatriði í baráttu þeirra næsta árið. Þau notuðu mjög frumlega aðferð til að fá fram sjónarmið sem flestra og þrengja þau niður í nokkur aðalatriði. Ég ætla ekki að lýsa henni hér en þetta er eitthvað sem við getum örugglega notað í framtíðinni.

Ég kom svo við á "Opnum hljóðnema", kvöld sem er árlegur viðburður. Þar getur hver sem er skráð sig og sungið, farið með ljóð, uppistand eða hvað sem er. Ég tók smá videosýnishorn.

Ég rambaði uppá aðra hæð til að sjá hvort eitthvað væri í gangi þar og kom að litlum hóp sem var á spjalli með Robert Whitaker. Ég var búinn að gleyma að ég hafði ætlað að kíkja á þessa vinnustofu, þar sem átti að ræða um nýjar áherslur í geðheilbrigðiskerfinu. Ég veit ekki hvað þau höfðu rætt áður en ég kom, en það sem ég tók þátt í var meira um viðbrögðin við bókinni og atburðarásina sem fór í gang þegar hann átti ekki að fá að tala á ráðstefnunni, vægast sagt furðulegan ritdóm í Boston Globe en ég ætla ekki að þreyta ykkur með því öllu núna. Þarna hefði ég viljað hafa Steindór með ég veit að báðir hefðu haft gaman af.

Áður en ég kom uppí herbergi kíkti ég svo aftur á "open mic" sem var í fullum gangi. Ótrúleg sköpunargleði, söngvar, ljóð og ýmis konar tjáning.

Takk fyrir allar hlýju kveðjurnar á kommentunum við færslurnar, þær gefa mér kraft til að geta skrifað þær áður en ég fer að sofa. Þetta eru auðvitað bara tæpt á því helsta, en þetta eru í og með minnispunktar sem við getum fjallað um. Það er svo margt sem ég skrifa ekki um, um "pólitíkina", undirölduna og deigluna sem er í gangi. Það eru líka mikil forréttindi að fá að vera hérna og í svona miklu návígi við fólk sem hefur í áraraðir verið í baráttunni.

Ég vildi óska að við værum fleiri hérna, ég finn svo sterkt fyrir að við erum hluti af alþjóðlegri hreyfingu og ég veit líka að við höfum ýmislegt til málanna að leggja. Maður getur látið sig dreyma um að á næsta ári... Sem minnir mig á það að Auður minnti Daniel Fisher á að hann talaði um að koma aftur í heimsókn í maí á næsta ári. Það er ekki annað á honum að heyra en hann ætli að koma.


Kaliforníusaga

Have you ever been down Salinas way?
Where Steinbeck found the valley
And he wrote about it the way it was in his travelin's with Charley
And have you ever walked down through the sycamores
Where the farmhouse used to be
There the monarch's autumn journey ends
On a windswept cyprus tree

Beach Boys: California Saga

Ekki það að það væru einhver sýprustré eða göngutúrar fyrir okkur í dag.

Ykkar vösku sendiherrar voru komnir á fætur um 6:30. Við vorum búin að bjóða okkur fram til sjálfboðaliðastarfa og ég fór á miðstöðina sem er hér í einni svítunni. Ég tók að mér að aðstoða í einum salnum yfir daginn. Náði þannig ekki að sjá allt sem ég ætlaði mér.

Nokkrir áhugaverða hluti vil ég nefna, t.d. að nota video til að segja sögur og hvetja til breytinga, ég náði þar bara rétt í endann. En hér má sjá hvað er hægt að gera áhrifamikla hluti á tiltölulega einfaldan hátt, ég veit að mörg okkar eiga sér merkilegar sögur: http://vimeo.com/8786868 . Við höfum séð hér ameríska unghuga á sveimi, ég fékk einhverja bæklinga og dót frá þeim.

Hér er sýningarsalur þar sem hin ýmsu samtök eru að kynna þjónustu sína, ég kíkti við í dag. Við Auður ætlum að taka nákvæmari skoðun á morgun. Þar er t.d. heill haugur af áhugaverðum bókum.

Hápunktur dagsins var á fyrirlestri með Daniel Fisher, Steve Micchio sem stýrir Rose house í New York fylki og Alan Green sem stýrir öðru sem opnaði í Nebraska í lok síðasta árs. Þessi hús myndu falla undir að vera "respite" eða skjólhús. Þeir eru hver öðrum skemmtilegri, þessi fyrirlestur var bæði áhugaverður og fyndinn. Ykkar maður bar upp spurningu um hvort þeir tækju fólk í þjálfun frá öðrum löndum, þeir voru sko til í það. Ég hef Auði grunaða um að vera að bollaleggja að fá Steve í heimsókn til okkar á Íslandi. Við vorum bæði vægast sagt í skýjunum eftir þennan fyrirlestur, haugur af hugmyndum sem hann gaf okkur. Við tókum allar upplýsingar þar og Auður skrifaði mikið af punktum. Okkur er svo boðið að sitja með þeim í hádegisverði á laugardag.

Ég held að mér sé að takast að temja nýju myndavélina góðu. Í kvöld lærði ég loksins hvernig hægt er að skoða myndirnar og videóin sem hafa verið tekin! Ég var nokkuð viss um að ég hefði náð ágætum ljósmyndum og var býsna vongóður um að hafa tekið einhver videó líka, ég var bara ekki viss. Enda kom uppúr dúrnum að það hafði allt gengið. Mig langaði nefnilega til að taka spjall við nokkur hér í dag, en þorði það ekki fyrr en ég var kominn með á hreint að ég væri að gera allt rétt. Sjáum hvort við getum gert eitthvað í því á morgun.

Ég er meira að segja búinn að koma myndunum í tölvuna en veit ekki hvort mér endist þróttur til að setja þær inn núna.

Það er verið að hrúga á okkur nafnspjöldum hægri vinstri, við klikkuðum á því að græja svoleiðis fyrir okkur. Ég tók mig hins vegar til og henti upp nafnspjöldum í tölvunni sem ég vona að við getum fjölgað á morgun.

Ég sé að þið fáið að sjá myndina á laugardaginn, ég býð spenntur eftir því hvað ykkur finnst.

Kveðjur,

Hrannar



Kaliforníudraumar

Við erum mætt til Kaliforníu, íslenska sendinefndin! Undirritaður og Auður mættum hér í Anaheim, Kaliforníu um kl. 14 í dag. Það var auðvitað komið kvöld hjá ykkur á Íslandi, kl. 21, því tímamunurinn er 7 tímar. Við erum hér á ráðstefnu sem kallast Alternatives 2010. Mér skilst að þetta sé í 26. skipti sem þessi ráðstefna er haldinn svo þau hafa verið lengi að.

En ráðstefnan fjallar um hvernig má fást við geðraskanir út frá sjónarhóli þeirra sem glíma við þær.

Hér eru um 1200 manns.

Ég veit ekki hvað ég endist við skriftir í kvöld og myndir bíða betri tíma.

Ég vildi setja nokkrar línur niður á blað, svona til að láta vita af okkur. Ráðstefnan er svosem ekki byrjuð. Það var þó kynning á ráðstefnunni fyrir þá sem eru að sækja hann í fyrsta sinn. Svo var líka auðvitað setningarkvöldverður.

En, úff, svo byrjar líka þvílík dagskrá. Dagarnir eru þannig uppbyggðir að eldsnemma á morgnana er boðið uppá leikfimi, jóga og fleira gott fyrir þá sem vilja, morgunverður og svo byrjar fyrirlestrar og vinnuhópar.

Það eru þrjár tarnir yfir daginn, og endað með sameiginlegri sessjón í lok dags. Til að gefa ykkur dæmi þá er fyrsta törnin milli 10 og 11:30 á morgun og þá er hægt að fara á 17 mismunandi staði þar sem fjallað er um aðskiljanlegustu efni. Svona heldur þetta áfram sleitulaust framá sunnudag. Mikið af þessu er mjög áhugavert og við náum augljóslega ekki að fara á allt sem við höfum áhuga á. En það verður hægt að fá upptökur af öllum fyrirlestrum og vinnustofum strax að þeim loknum.

Aftur að setningarkvöldverðinum. Þar sem var (eins og gefur að skilja) borðað. Svo töluðu skipuleggjendur ráðstefnunnar, þ.á.m. vinur okkar Daniel Fisher og öldungardeildarþingmaðurinn Lou Correa. Mestur tíminn fór svo í fyrirspurnir til Pamelu Hyde sem fer með forstöðu fyrir SAMSHA (Substance Abuse and Mental Health Services Administration) sem er deild innan bandaríska heilbrigðisráðuneytisins sem fer með misnotkun á vímuefnum og geðraskanir. SAMSHA er aðalstuðningsaðili ráðstefnunnar.

Það voru langar raðir af fyrirspyrjendum og ég yfirgaf staðinn þegar orðið var býsna þunnskipað við borðin. Ég ætla ekki að þreyta ykkur með því sem var spurt um. Margt af þessu þekkjum við frá Íslandi. Svo var auðvitað ánægjulegt að sjá hvernig að við erum lengra komin á nokkrum sviðum.

Fróðlegast fannst mér að sjá að mörg þau vandamál sem við erum að glíma við heima eru þau sömu og verið er að glíma við hér.

En það sem stendur uppúr deginum var að hitta mikið af fólki. Margir eru forvitnir um stöðu mála á Íslandi og margir hafa boðist til að sýna okkur ýmsa starfsemi sem fer fram hér í nágrenninu, því við höfum verið að finna einhver skjólhús (respite/safe-house) sem við gætum heimsótt. Við erum auðvitað í einstakri aðstöðu hér innanum um alla helstu leiðtoga þessarar hreyfingar í Bandaríkjunum.

Við höfðum af því spurnir að Daniel Fisher hefði tekið miklu ástfóstri við peysuna góðu og hafa samstarfsmenn hans og -konur litið hana öfundaraugum. Hann var líka mjög hrifinn af Sjálfstæðu fólki.

Þetta hefur verið þurr upptalning á nokkru því sem fyrir augu hefur borið, en nær engan veginn að lýsa andanum á staðnum. Ég hef vægast sagt verið upptendraður.

Ég ætla að láta þetta nægja í bili.

Hlýjustu kveðjur,

Hrannar 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband