Batasaga: Af þunglyndi og félagsfælni.

Halló, ég er kölluð Dísa og mig langar að segja ykkur söguna mína.

Ég hef verið þunglynd, félagsfælin og með kvíða í mörg ár. Ég átti mjög erfiða æsku, þar sem mikið einelti kom til sögu. Alveg frá því ég var krakki byrjaði þunglyndið að festa sér rætur, það sem hélt mér gangandi og á lífi var fjölskyldan mín. Ég er mjög heppin með fjölskyldu, en ég átti enga vini og treysti engum nema mínum nánustu.

Eineltið var að mestu andlegt og það drap allt sjálfstraust og virðingu fyrir sjálfri mér. Það eina sem ég þráði var viðurkenning meðal jafnaldra minna, en fékk hana aldrei, og hef ekki fengið ennþá. Þar sem vinirnir voru engir var ég oftast ein, ég lék mér ein og var ein í skólanum, á móti 100 krökkum. Einsemdin þróaðist svo út í þunglyndi og kvíða.

Ég fékk aldrei faglega hjálp, þó beðið hafi verið um hana. Það er eitthvað sem mér finnst hvað sárast, að skólayfirvöld í mínum skóla hafi aldrei viljað hjálpa mér eða ekki haft ráð fyrir mig. Ég fékk ekki samtöl við sálfræðing, þó oft hafi verið beðið um það.

Eftir grunnskóla og eitt ár af framhaldsskóla, flosnaði ég upp úr námi og fór að vinna. Ég vann á hinum og þessum stöðum og vann mikið. Ég gat samt aldrei náð því að eignast vini af því að ég treysti ekki samstarfsfólki mínu og var farin að halda að allir væru jafn vondir og krakkarnir sem voru með mér í grunnskóla. Í mesta lagi náði ég að tengjast hinni og þessari stelpu sem voru að vinna með mér þann tímann og vera með henni, fara með þeim á djammið til dæmis. En ég var alltaf sama gólftuskan og lét þessar stelpur vaða yfir mig. Ég þóttist vera hress þegar ég var með þeim og bara í kringum fólk og var búin að búa mér til grímu, sem ég notaði alltaf í kringum aðra.

Seinni part unglingsáranna voru mér líka erfið líkamlega, ég þurfti að fara í margar aðgerðir á meltingarfærum og var mjög oft veik. Ég lá heima kannski vikum saman áður en eitthvað var gert fyrir mig. En læknar voru búnir að stimpla mig móðursjúka. Til dæmis var farið með mig á slysó í eitt skipti og þá sagði læknir: „kemur þessi“, þá var ég með gat á maga.

Eftir öll þessi ár þar sem ég var á vinnumarkaðinum og smá prufur af því að fara aftur í skóla. Ég náði þó að klára tækniteiknun, sem mér líkaði ekki að vinna við, og nánast klára sjúkraliðann, en þá gafst ég upp. Ég gat ekki klárað verklega námið vegna verkja í hnjám, þar sem ég er með slök liðbönd, sem ekki er hægt að laga.

Það var sumarið 2003, þá brotlenti ég. Ég hafði verið mjög þung þetta sumar og varð að fara fyrr heim úr sumarfríi með fjölskyldunni. Ég var hætt að geta sofið eða svaf mjög lítið, matarlystin minnkaði og ég var einræn og vildi ekki eiga samskipti við neinn. Hugsunin var sú að ég væri fyrir öllum og að ég væri betur komin, bæði fyrir mig sjálfa og mína nánustu, dauð. Ég hugsaði mikið um dauðann, skildi ekki af hverju nokkur maður vildi lifa.

Seint um sumarið reyndi ég fyrst sjálfsmorð. Ég hafði safnað að mér lyfjum og tók þau seint eitt kvöldið og lagðist upp í rúm. Einhverra hluta vegna þá hefur mamma fengið á tilfinninguna að eitthvað var að og hún kom inn til mín og fann mig þar á gólfinu. Eftir að hafa farið á bráðamóttökuna og dælt upp úr mér og mér gefin lyfjakol, var ég lögð inn á geðdeild.

Það var mjög erfitt, eiginlega erfiðara en allt annað að viðurkenna að ég væri svona veik að ég þurfti að fara á geðdeild. Eftir aðeins nokkra daga þar reyndi ég aftur sjálfsmorð. Næturvaktin kom að mér á gólfinu og ég var send aftur upp á bráðamóttöku í sömu meðferð og ég fékk í fyrra skiptið. Oft reyndi ég að skera mig á púls og brenna mig með sígarettum til að beina sársaukanum annað
Þá voru lyfin ekki farin að virka almennilega og það eina sem ég upplifði var skömm. Ég skammaðist mín fyrir að vera á geðdeild, ég skammaðist mín fyrir að hafa reynt sjálfsmorð, ég skammaðist mín fyrir að vera til. En alltaf voru foreldrar mínir til staðar og reyndu að stappa í mig stálinu,

Um haustið sá læknirinn minn að lyfin voru ekki að virka nógu vel á mig, svo hann vildi reyna raflostmeðferð. Ég var dauðhrædd, en samþykkti að reyna það. Meðferðin gekk vel og eftir 15 skipti af raflosti og betri líðan var ég útskrifuð af deildinni. Þá var ég byrjuð í iðjuþjálfun á landspítalanum og mætti þar eftir hádegi fimm daga vikunnar. Það hjálpaði aðeins, að hafa einhvern stað til að mæta á, því ekki gat ég farið í vinnu. Eftir nokkra mánuði var mætingin hjá mér farin að slappast mikið og ég kannski mætti einn eða tvo daga í viku. Þá var þunglyndið aftur farið að ná heljartökum á mér. Það endaði með annarri innlögn.

Svona gekk þetta í nokkur ár, ég var inni og út af deild og enn ein greiningin bættist við en það er persónuleikaröskun. Fékk slæm tímabil og sæmileg tímabil, sem voru að vísu mikið styttri en þau slæmu. Þegar ég vildi, leitaði ég ýmsa leiða til að láta mér batna, fór í nálastungur, heilun og til grasalæknis svo fátt eitt sé nefnt. En ekkert af þessu virkaði á mig, það getur vel verið að þetta sé gott fyrir aðra, en ekki mig.

Stundum vill maður ekki hjálp. Stundum eða oft í mínu tilviki, vildi ég bara fá að vera í friði og helst fá að sofa allan sólarhringinn. Á mjög slæmum dögum reyndi ég sjálfsvíg, alls sjö sinnum held ég, sem misheppnuðust sem betur fer hugsa ég núna, en var samt alltaf jafn vonsvikin þegar ég vaknaði eftir þær. Ég var búin að planleggja jarðarförina mína og allt, Það kostaði mig oftast innlagnir og vist og yfirsetu á b-gangi deildarinnar sem ég var á.

Ég hugsaði alltaf svo vitlaust, hélt að ég væri betur sett á himnum hjá ömmu minni og afa, og að ég væri baggi á fjölskyldu minni og þegar ég var hvað veikust þá var ég farin að hugsa sem svo að það væri verið að fylgjast með mér og að það væri faldar myndavélar útum allt. Þetta var svona eins og Truman show, þar sem fylgst er með einum manni alla hans ævi. Ég braut spegla og leitaði útum allt að myndavélum. Svona ranghugmyndir komu þegar ég var hvað veikust.

Ég fór líka í meðferðir á Reykjalundi og Kleppi, en þær voru ekki alveg að gera sig. Á Reykjalundi var ég svo óheppin að vera um mitt sumar þar sem allir voru í fríi og það eina sem ég gerði var að fara í sund og tækjasal. Ég fékk engin viðtöl hjá sálfræðingi, né það sem ég sóttist eftir og það var hugræn atferlismeðferð. Sú meðferð endaði á því að ég snarversnaði og var komin með ranghugmyndir og var komin í sturlunarástand og endaði inni á deild.

Svipað gerðist á Kleppi. Þar var ég komin og var í nokkuð góðu jafnvægi, þegar læknirinn minn ákvað allt í einu að ég mætti bara fara út tvisvar í viku í tvo tíma í senn og þá helst ekki heim til mín. Og eina vikuna var ég búin með kvótann þegar ég þurfti að fara á sjúkrahús til að heimsækja dauðvona ömmu mína og var bannað það, með þeim rökum að ég væri búin með kvótann minn. Það var úr að ég útskrifaði mig gegn læknisráði og heimsótti ömmu mína sem dó svo um nóttina.

Eftir þessara endalausu innlagnir og verandi í iðjuþjálfun, var ég alltaf í sömu sporunum, þar til iðjuþjálfunin lokaði í maí síðastliðnum. Þá var mér bent á Hugarafl og ég fór þangað í forviðtal og ég ákvað að reyna þetta.

Þar lærði ég sjálfsstyrkingu og sjálfstraustið jókst mikið. Ég að vísu tók að mér of mörg verkefni í byrjun sem ekki var mælt með og það endaði á því að ég sprakk og þurfti að fara á spítalann í nokkrar vikur þar sem lyfjunum voru breytt og ég fór í nokkur skipti í raflost. En þegar líða fór á haustið og ég útskrifuð, búin að vera með lungnabólgu og ferð til útlanda, fór ég aftur í Hugarafl og hef ekki farið þaðan síðan. Ég að vísu passa mig betur á að taka ekki of mikið að mér, þó það sé erfitt því Hugarafl er með svo mörg verkefni sem ég hef áhuga á.

Í dag líður mér bara nokkuð vel, þó það komi einstaka sveifludagar inn á milli. Ég lít á Hugarafl sem vinnuna mína og reyni að mæta þar á hverjum degi. Svo á ég líka æðislega fjölskyldu sem ég nýt að vera með. Og... ég á vinkonu, í fyrsta skipti á ævinni á ég vinkonu og reyndar fleiri vini, en þessi stelpa er alveg sérstök. Við kynntumst á Kleppi og höfum að vísu legið saman á deildinni, en við bara smellpössum saman. Ég á í dag fullt af vinum sem ég get talað við og farið með þeim á kaffihús, út að borða og á djammið ef svo ber til.

Mér sýnist á öllu í dag að mín framtíð sé björt og ég eigi vonandi eftir að láta gott af mér að leiða. Þetta er hægt, þó manni sýnist það ekki á dimmustu tímum. Batinn kemur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk fyrir að deila sögunni þinni

Jóhanna Magnúsdóttir, 14.10.2010 kl. 23:59

2 identicon

Sæl kæra Dísa. Þakka þér fyrir að deila sögu þinni með okkur. Kær kveðja.

Auður 

Auður Axelsdóttir (IP-tala skráð) 21.11.2010 kl. 16:32

3 identicon

Sæl Dísa takk fyrir að leyfa mér að sjá inn í líf þitt. Ég sé margt í þinni sögu sem passar við mig og saga þín gefur mér von. Kær kveðja Jóhanna

Jóhanna Hjördís Gunnlaugsdóttir (IP-tala skráð) 18.1.2011 kl. 13:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband