Færsluflokkur: Greinar

Grein: Er AHDH ofgreint?

Að undanförnu hefur talsvert verið rætt í fjölmiðlum um athyglisbrest og ofvirkni (ADHD) og mögulega misnotkun á lyfjunum sem notuð eru til þess að meðhöndla geðröskunina.

Umræðan hefur fyrst og fremst snúist um að gagnrýna of mikla ávísun ADHD lyfja eða verja ágæti lyfjanna til þess að bæta líf þeirra fjölmörgu einstaklinga sem þau nota. Við þurfum að opna þessa umræðu enn frekar og spyrja tveggja mikilvægra spurninga: 1) Í samanburði við hvað er ávísun ADHD lyfja mikil hér á landi? 2) Er ADHD mögulega ofgreint?

1. Í grein eftir Helgu Zoëga, Matthías Halldórsson fyrrverandi aðstoðarlandlækni og fleiri, sem birtist á síðasta ári í Journal of Child and Adolescent Psychopharmacology, koma fram sláandi upplýsingar um geðlyfjaneyslu barna og unglinga hér á landi. Ávísun geðlyfja til þessa aldurshóps er sú mesta sem þekkist í Evrópu, en er að einhverju leyti sambærileg við það sem tíðkast í Bandaríkjunum.

Eins og bent er á í greininni eigum við heimsmet í ávísun þunglyndislyfja til barna og unglinga. Ávísun geðrofslyfja hér á landi er einnig langt umfram það sem tíðast í Evrópu, sem er varasöm þróun vegna alvarlegra aukaverkana geðrofslyfja.

Samkvæmt greininni hefur ávísun ADHD lyfja aukist gríðarlega á undanförnum tveimur áratugum. Ef Ísland er borðið saman við hin Norðurlöndin koma fram athyglisverðar tölur. Í samanburði við Finna nota Danir, skv. grein sem kom út í finnska læknablaðinu árið 2006, tvisvar sinnum meira af þessum lyfjum, Svíar þrisvar, Norðmenn átta en Íslendingar 22 sinnum meira.

Þrátt fyrir áhyggjur sumra lækna og vísindamanna af langtímaáhrifum þessara lyfja kemur fram í skýrslu lyfjaframleiðendanna, sem opinberuð var í upphafi mars, að fyrirtækin sjá ekki ástæðu til þess að kanna málið nánar.

2.Í ljósi mögulegra neikvæðra afleiðinga af langvarandi neyslu ADHD lyfja er mikilvægt að einungis þeir sem þurfa nauðsynlega á meðferðinni að halda fái hana. Það hlýtur því að vera talsvert áhyggjuefni þegar einn af höfundum skilgreiningarinnar á ADHD, bandaríski geðlæknirinn Allen Frances, viðurkenndi ítrekað fyrr á þessu ári í bandarískum fjölmiðlum að hún hafi stuðlað að „fölskum faraldri“.

Frances segir ADHD-netið hafa of þrönga möskva. Það hafi „fangað marga ‚sjúklinga‘ sem hefði líklega vegnað mun betur utan geðheilbrigðiskerfisins“. Ástæða þess að Frances getur haldið þessu fram er að við greiningu á ADHD, eða öðrum geðröskunum, er stuðst við huglæga spurningalista en ekki hlutlæg líffræðileg próf.

Eins og Allen Frances gefur í skyn fylgja ýmis vandamál flokkun og greiningu geðraskana og rista þau raunar svo djúpt að Frances og Steven E. Hyman, fyrrverandi forstjóri bandarísku geðheilbrigðisstofnunarinnar, hafa líkt þeim við ástand líffræðinnar áður en Darwin setti fram þróunarkenningu sína árið 1859. Má líkja sumum þeirra við þá staðreynd að fyrir daga Darwins var hægt að flokka höfrunga með fiskum og leðurblökur með fuglum því oftast var horft á yfirborðseinkenni, eins og geðlæknisfræðin gerir í greiningum sínum, en ekki undirliggjandi skyldleika.

Í september hefti Journal of Health Economics birtust tvær óháðar rannsóknir sem varpa skýru ljósi á þessa hættu. Í báðum rannsóknunum var kannað hvort aldur innan árgangs hefði áhrif á hvort börn eru greind með ADHD. Þegar horft er á einstaklinga sem eru að hefja skólagöngu sína þá eru yngstu börnin innan árgangsins, skv. annarri rannsókninni, 60% líklegri til þess að fá ADHD greiningu en þau sem eldri eru.

Þegar þessir einstaklingar eru komnir upp í 6. og 8. bekk er tvisvar sinnum líklegra að þeir séu á ADHD lyfjum en þeir sem eldri eru innan árgangsins. Höfundar beggja rannsóknanna telja þetta skýra vísbendingu um að „ADHD einkennin“ endurspegli einungis tilfinninga- og vitsmunalegan vanþroska yngstu nemendanna.Niðurstaða beggja rannsóknanna er því sú að u.þ.b. 20% þeirra barna og ungmenna í Bandaríkjunum sem fá ADHD greiningu séu ranglega greind.

Ég tel brýnt að sambærileg rannsókn verði gerð hér á landi því ef rétt reynist þá þurfa yngstu börnin í hverjum grunnskólaárgangi ekki lyf heldur þarf skólakerfið að koma til móts við þarfir þessara einstaklinga. Einnig tel ég heilbrigðiskerfið skulda almenningi skýringu á því af hverju ávísun geðlyfja til barna og unglinga hér á landi er jafn mikil og raun ber vitni. Það er kominn tími til að við sem samfélag horfum upp úr pilluglösunum og út fyrir greiningaprófin og spyrjum okkur hvort við séum á réttri leið.

Höfundur : Steindór J. Erlingsson.

Fréttablaðið, 2. október, 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband