Batasaga: Að lifa með geðsjúkdóm.

Ég greindist með geðklofa og þunglyndi fyrir nokkrum árum.

Ég var búinn að vera þunglyndur síðan á táningsaldri en leitaði mér ekki hjálpar fyrr en geðklofaeinkennin komu fram. Virku geðklofaeinkennin stóðu yfir í um það bil eitt ár. Þessi tími var gríðarlega erfiður fyrir mig og ég var orðinn mjög veikur bæði líkamleg og andlega. Verstu einkennin voru raddir í höfðinu, ofsóknarbrjálæði og ranghugmyndir.

Raddirnar voru mjög ágengar og töluðu um mig og til mín.

Stundum lýstu þær mínum athöfunum í smáatriðum og stundum töluðu þær til mín með mjög svo neikvæðum tón. Þær áttu það til að skipa mér fyrir og banna mér að gera hitt og þetta. Ef ég reyndi að þóknast þeim þá urðu þær bara enn ágengari og fundu eitthvað nýtt til að pína mig með. Ef ég reyndi að óhlýðnast þeim þá héldu þær bara áfram að djöflast í mér.

Það var sem sagt engin leið út. Raddirnar voru alltaf til staðar.

Á þessum tíma átti ég íbúð og var með þá ranghugmynd að nágrannar mínir væru að ofsækja mig. Ég hélt að íbúðin mín væri hleruð og að það væru hljóðnemar út um allt. Ég hélt að fötin mín og bíllinn minn væru einnig hleruð vegna þess að ég heyrði raddir út um allt.

Ég komst einnig að þeirri niðurstöðu að húsgögnin mín væru hleruð og innihéldu hátalara. Ég gekk svo langt að skera sófann minn í tætlur í leit að hljóðnemum.

Ég var líka farinn að halda að verið væri að lesa mínar hugsanir. Það var eina skýringin á því hvers vegna raddirnar vissu svona mikið um mig. Þær þekktu allar mínar hugsanir og öll mín leyndarmál.

Ég reyndi ýmislegt til að forðast og hindra raddirnar.

Ég prófaði eyrnatappa, heyrnaskjól, háværa tónlist og annað í þeim dúr en ekkert af því virkaði. Ég fór til heimilislæknisins míns og sagði honum að ég væri þunglyndur og að ég ætti erfitt með að sofa. Hann skrifaði upp á þunglyndislyf og svefnlyf handa mér.

Ég þorði ekki að segja honum að ég heyrði raddir því ég var hræddur um að hann myndi láta loka mig inni.

Mig var farið að gruna að eitthvað væri að mér en ég var samt ekki tilbúinn að horfast í augu við það. Þunglyndislyfin og svefnlyfin hjálpuðu lítið. Mér tókst að sofna á kvöldin bara til að vakna þremur tímum seinna við raddirnar. Ég tók því þá ákvörðun að selja íbúðina mína sem ég hafði átt í um það bil sex mánuði og kaupa mér raðhús. Ég hélt kannski að það að hafa færri nágranna myndi hjálpa mér í minni krísu. Að sjálfsögðu virkaði það ekki, raddirnar fylgdu mér hvert sem ég fór.

Þá tók ég þá ákvörðun að leita mér hjálpar, enda var ég kominn í þrot og hafði ekki lengur neinu að tapa.

Ég fór niður á geðdeild Landsspítalans og bað um að fá að hitta geðlækni. Ég var strax settur á geðrofslyf sem því miður virkuðu ekki og á næstu mánuðum prófaði ég nokkur lyf þangað til að loksins fannst lyf sem sló á þessi einkenni. Frá þeim tíma fór líf mitt að batna til muna. Það að vera laus við raddirnar, ranghugmyndirnar og ofsóknarbrjálæðið var dásamlegt.

Ég hafði verið með geðklofaeinkenni í rúmt ár og á þeim tíma hafði mér tekist að eyðileggja samband mitt við konu sem mér þótti mjög vænt um. Einnig hafði ég eyðilagt vináttu við minn besta vin og aðra kunningja. Ég stóð sem sagt einn uppi, með enga konu og enga vini. Ég var algerlega einn fyrir utan samband mitt við foreldra mína.

Svona lifði ég í um það bil tvö ár. Einn, ruglandi í mínum eigin heimi. Þessi félagslega einangrun fór illa með mig og var hindrun í mínu bataferli.

Það var þá sem ég samþykkti að fara í samtökin Hugarafl.

Geðlæknirinn minn hafði verið að reyna að fá mig til að fara í einhver svona geðhjálparsamtök í langan tíma en hingað til hafði ég alltaf neitað því. Ég vildi ekkert með aðra geðsjúka að hafavegna þess að þá þyrfti ég að viðurkenna að ég væri einn þeirra.

En veruleikinn var sá að mér leið ekki vel svona einum og einangraður frá lífinu og tilverunni þannig að ég samþykkti að prófa Hugarafl. Þar fór ég í forviðtal og sagði mína sögu og mér var mjög vel tekið. Ég fór að sækja fundi tvisvar í viku til að byrja með og ég fann að það gerði mér gott. Þó svo að það væri ekki mikið að mæta tvisvar viku fann ég að þessi félagslega einangrun var farin að brotna.

Tíminn leið og áður en ég vissi var ég kominn í ýmis verkefni innan Hugarafls. Vera mín í Hugarafli hafði sem sagt mjög góð áhrif á mig. Það að hafa fasta punkta í tilverunni með því að mæta reglulega gerði mér mjög gott félagslega og andlega.

Þarna kynntist ég fólki sem var bara eins og ég, manneskjur sem áttu við geðræn vandamál að stríða og það var bara allt í lagi. Ótti minn við annað geðsjúkt fólk var því misskilningur. Flest af þessu fólki var bara eins og annað fólk þó svo að það ætti við geðræn vandamál að stríða.

Eftir að hafa verið í Hugarafli í nokkra mánuði fór ég að kynna mér hugmyndafræði Hugarafls sem kallast valdefling (empowerment). Sú hugmyndafræði gengur út á það að taka stjórn á eigin lífi, að endurskilgreina sjálfan sig sem persónu fyrst og fremst frekar en sjúkling, að taka virkan þátt í samfélaginu, að vera vongóður og að sigrast á eigin fordómum.

Þessi hugmyndafræði hefur reynst mér mjög vel og hjálpað mér í mínu bataferli.

Í dag er ég orðinn nokkuð stöðugur andlega. Ég tek mín lyf og þau virka vel á geðklofaeinkennin. Ég er virkur í samtökunum Hugarafli og mæti þar reglulega á fundi. Þar hef ég kynnst mikið af góðu fólki og eignast þar góða kunningja.

Einnig hef ég öðlast hugsjón að vinna að málefnum geðfatlaðra og ég hef skrifað og þýtt greinar um þau málefni. Ég er kominn út úr skápnum með minn geðsjúkdóm og er hættur að skammast mín fyrir hann. Ég get sem sagt viðurkennt það fyrir sjálfum mér og öðrum að ég eigi við geðsjúkdóm að stríða.

Það að koma út úr skápnum með minn sjúkdóm hefur bætt líf mitt mikið. Það fer mjög illa með mann að vera með svona leyndarmál og geta ekki rætt þá hlið lífsins.

Ég vil því ráðleggja þér lesandi góður að leita þér aðstoðar ef þú heldur að þú eigir við geðræn vandamál að stríða.

Mín reynsla af bráðamóttökunni geðsviðs Landsspítalans er mjög góð og allir fagaðilar sem ég hef kynnst þar hafa reynst mér vel og þá sérstaklega geðlæknirinn minn sem hefur hjálpað mér mjög mikið og staðið við bakið á mér í mínum veikindum.

Ef þú ert þegar búinn að fá greiningu að þú sért með geðsjúkdóm þá mæli ég eindregið með því að þú kynnir þér samtök eins og Hugarafl, Geðhjálp, Klúbbinn Geysi o.s.frv.

Það að hitta annað fólk sem er að takast á við geðsjúkdóma gerir manni mjög gott. Maður kemst að því að maður er ekki einn og að aðrir hafa gengið í gegnum það sama og margir hafa náð miklum og jafnvel fullum bata í baráttunni við geðsjúkdóma.

Vertu því vongóð(ur) og gerðu þér grein fyrir því að það að greinast með geðsjúkdóm er ekki dauðadómur. Það er einfaldlega verkefni sem maður þarf að takast á við og að bati er raunverulegt markmið.

Kári Halldórsson. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Birgisson

Takk fyrir þetta og gangi þér sem best.

Björn Birgisson, 7.10.2010 kl. 13:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband