Ég er reiður
2.12.2010 | 08:39
Stóra spurningin er hvernig við getum horft framan í heiminn þegar við byrjum að fá á okkur gagnrýni fyrir að halda gögnum leyndum .... Framkvæmdastjóri útgáfumála hjá AstraZeneca, framleiðanda Seroquel, í innanhústölvupósti 6. desember, 1999.
Í rúm tuttugu ár hef ég barist við mjög alvarlegt þunglyndi og kvíða. Í þessari baráttu hef ég innbyrgt mikið magn lyfja af ýmsum gerðum. Ber þar helst að nefna þunglyndislyf og geðrofslyf. Megnið af þessum tíma hef ég treyst því að lyfin sem ég fékk byggðu á traustum vísindalegum grunni. Á undanförnum misserum hefur þetta traust minnkað snarlega. Ekki að ástæðulausu því eins og segir í leiðara British Medical Journal, sem birtist á vefsíðu tímaritsins 12. október sl., er brýnna aðgerð þörf til þess að endurvekja trúna á fyrirliggjandi vísindagögn í læknisfræðinni. Hér liggur rót reiði minnar.
Frá því í lok desember 2008 hef ég lesið mikinn fjölda bóka og vísindagreina sem hafa smátt og smátt opnað augu mín fyrir vandamálinu sem BMJ gerir að umtalsefni í leiðara sínum. Þar sem ég á sjálfur við geðröskun að stríða hefur þessi opinberun eðlilega kveikt talsverða reiði innra með mér. Sérstaklega eftir að ég komst að því að lyfjafyrirtæki hafa beitt blekkingum til þess að koma á markað sumum þeirra þunglyndis- og geðrofslyfja sem ég hef innbyrgt. Hvernig eru slíkar blekkingar framkvæmdar?
Rannsóknir hafa leitt í ljós að lyfjapróf sem fjármögnuð eru af lyfjafyrirtækjum (í dag eru rúmlega 70% af lyfjaprófum fjármöguð af þeim) eru mun líklegri til þess að sýna marktækan mun á lyfi og lyfleysu eða samkeppnislyfi en þegar þau eru fjármögnuð af óháðum aðilum. Vandamálið snýst um að lyfjafyrirtækin halda öllum gögnum, takmarka þannig aðgang rannsakenda að þeim og láta oft draugahöfunda skrifa vísindagreinar.
Ein alvarlegasta birtingarmynd þessa er þegar lyfjafyrirtæki birta ekki niðurstöður neikvæðra lyfjaprófa eða birta þau sem jákvæð. Með þessu móti er dregin upp röng mynd af mögulegri virkni lyfja. Þessari aðferð hefur verið beitt við markaðssetningu ýmissa þunglyndislyfja sem komið hafa á markað á undanförnum rúmum tuttugu árum.
Önnur aðferð felst í því að draga úr eða birta ekki upplýsingar um alvarlegar aukaverkanir. Framleiðendur geðrofslyfja, s.s. Zyprexa, Seroquel og Risperdal, beittu m.a. þessari aðferð til þess að sannfæra lækna um að lyfin stæðu framar eldri gerðum geðrofslyfja. Rannsóknir hafa hins vegar leitt í ljós sú er ekki raunin. Í umsögn um eina slíka rannsókna, sem birtist í læknablaðinu Lancet 3. janúar, 2009, segir að læknar hafi verið blekktir í nærri 20 ár og einungis núna séu þeir að átta sig á sannleikanum. Hér er um alvarlegt mál að ræða því áður en nýju geðrofslyfin komu á sjónarsviðið um miðjan síðasta áratug 20. aldar var markaðurinn fyrir þau lítill og miðaðist aðallega við einstaklinga með geðklofa. Ávísun nýju lyfjanna hefur hins vegar vaxið gríðarlega og eru þau í dag m.a. notuð til þess að meðhöndla kvíða og svefntruflanir.
Af framansögðu má ljóst vera að læknar hafa ekki síður en sjúklingar verið blekktir. Þeir geta hins vegar ekki fríað sig ábyrgð. Í bók lífsiðfræðingsins Carls Elliott, White Coat, Black Hat: Adventures on the Dark Side of Medicine (2010), er fjallað um þennan vanda sem læknisfræðin stendur frammi fyrir. Eitt af því sem hann gerir að umtalsefni eru samskipti lækna við lyfjaiðnaðinn. Elliott segir læknasamfélagið hafa deilt áratugum saman um hvort auglýsingar, gjafir, námsferðir eða önnur hlunnindi sem lyfjaiðnaðurinn og fulltrúar hans láta læknum í té hafi áhrif á lyfjaávísanir þeirra. Í dag liggur hins vegar ljóst fyrir að þessi samskipti hafa oft bein áhrif á hvernig og hvaða lyfjum læknar ávísa, enda segir Elliott endurteknar rannsóknar hafa staðfest þetta.
Í ljósi þess sem fram hefur komið þá hlýt ég að spyrja:
Af hverju halda læknar áfram að eiga bein samskipti við fulltrúa lyfjaiðnaðarins?
Af hverju leyfði Geðlæknafélag Íslands fulltrúum lyfjaiðnaðarins að sitja fyrir gestum á vísindaþingi félagsins í vor?
Af hverju tóku íslenskir geðlæknar þátt í skipulagningu fundar í vor þar sem til stóð að fulltrúi lyfjafyrirtækisins Pfizer, framleiðandi hins rándýra kvíðalyfs Lyrica, gagnrýndi eldri gerðir kvíðalyfja? Er það eðlilegt að lyfjaiðnaðurinn borgi með auglýsingum rúmlega 90% af rekstarkostnaði Læknablaðsins?
Við þurfum að fá svör við þessum og skyldum spurningum, þó ekki væri nema til að koma í veg fyrir að læknar fari að ávísa nýjum og rándýrum lyfjum sem síðar mun koma í ljós að standa ekki framar fyrirliggjandi lyfjum. Þangað til mun reiðin halda áfram að krauma innra með mér.
Steindór J. Erlingsson
Vísindasagnfræðingur
steindor@akademia.is
Þessi grein Steindórs birtist upphaflega á pressan.is þann 26.11.2010
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 08:42 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.