Unghugar


Unghugar er hópur innan Hugarafls
sem stofnaður var þann 24. ágúst 2009 fyrir ungt fólk með geðraskanir. Hreyfingin er öllum opin, bæði meðlimum Hugarafls sem öðrum, 18 ára og eldri. Nýjir Ungliðar þurfa ekki að vera félagar í Hugarafli, en geta nýtt sér starfið sem stökkpall inn í starfsemi Hugarafls. Einnig geta Unghugar haft milligöngu um að koma nýjum félögum í forviðtöl hjá Hugarafli.

Hugmyndin að stofnun Unghuga var að mæta þörfum ungs fólks, sem hefur upplifað geðraskanir eða aðra erfiðleika. Það er nokkuð algengt að upplifa félagslega einangrun eftir að hafa glímt við andleg veikindi og erfitt getur verið að feta veginn aftur út í lífið. Einhverjir eru að glíma við veikindin og aðrir eru á batavegi. Sumir hafa náð að halda áfram námi eða starfi á meðan veikindum stendur. Þessa einstaklinga vantar oft vettvang til þess að hitta annað ungt fólk sem er í svipuðum sporum eða hefur svipaða reynslu að baki. Unghugar geta verið sá vettvangur.

Nokkrir ungir notendur geðheilbrigðiskerfisins innan Hugarafls tóku sig saman og þann 24. ágúst 2009 var stofnfundurinn haldinn. Nafnið Unghugar Hugarafls varð fyrir valinu og að mati hópsins varð vísunin til Hugarafls að koma fram. Unghugar starfa eftir sömu starfsreglum og Hugarafl, með jafningjagrunn og valdeflingu að leiðarljósi.

Hópurinn hefur verið að móta starfið frá upphafi og er enn að því. Sú hugsun að hlusta eftir þörfinni og því hvað við viljum sjálf gera hefur ráðið ferðinni. Við höfum frá byrjun verið með fasta fundi á miðvikudögum kl. 18:00 og fljótlega festist í sessi að hafa spilakvöld á laugardagskvöldum, hvort tveggja haldið í húsi Hugarafls.

Ýmis partý hafa verið haldin, útilega var farin sumarið 2010, nokkuð margir poolleikir hafa verið spilaðir, sólin sleikt í Heiðmörk og svona mætti lengi telja. Unghugar hafa haft ýmislegt fyrir stafni en það sem stendur þó upp úr eru persónulegu framfarir ýmissa einstaklinga innan hópsins og vinaböndin sem hafa myndast. Það er ótrúlegur sigur að sjá einstakling, sem hefur glímt við mikla félagsfælni taka til máls ófeiminn eða jafnvel hlæja hástöfum.

Tengiliðar fyrir Unghuga eru Þórey, gsm: 865 6581, Jana, gsm: 869-0721 og Aron, gsm: 770 5549. Einnig er hægt að send okkur póst á póstfangið unghugar@hugarafl.is


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband