Lyf eru ekki allsherjarlausn.
8.3.2011 | 11:06
Blaðamaðurinn Robert Whitaker hefur valdið miklum titringi í Bandaríkjunum með bók sinni, Anatomy of an Epidemic, sem kom út á síðasta ári, og deilir hart á geðheilbrigðiskerfið þar í landi.
Júlía Margrét Alexandersdóttir hitti Whitaker, sem segir Íslendinga þurfa að spyrja sig að því hvers vegna sífellt fleiri fari á örorkubætur vegna geðsjúkdóma um leið og lyfjanotkun aukist.
Það var helber tilviljun að Robert Whitaker fór að kynna sér geðheilbrigðismál.
Frá árinu 1989 hafði hann skrifað um lyf og læknisfræði, meðal annars fyrir útgáfufélag læknadeildar Harvard-skólans og Albany Times Union. Árið 1994 stofnaði hann svo sitt eigið fjölmiðlafyrirtæki sem fylgdist með lyfjafyrirtækjum og lyfjaþróun.
Og árið 1999 var Whitaker tilnefndur til Pulitzerverðlaunanna fyrir greinaflokk þar sem hann skrifaði um ný geðlyf sem náð höfðu mikilli útbreiðslu í Bandaríkjunum.
Ég beindi sjónum mínum að nýjum geðlyfjum sem voru að koma á markað um þetta leyti og höfðu slegið í gegn, ef svo má að orði komast. Ég notfærði mér upplýsingalöggjöfina í Bandaríkjunum og óskaði eftir upplýsingum um lyfið og þær tilraunir sem höfðu verið gerðar. Ég komst að því að þónokkrir sjúklingar, sem prófað höfðu lyfið, höfðu dáið.
Ég fór með þessar upplýsingar til Boston Globe, sagði þeim að ég væri með trausta frétt og að við skyldum gera greinaflokk um þetta málefni."
Úr varð greinaflokkurinn sem Whitaker fékk tilnefninguna fyrir.
Menn farnir að hlusta
Whitaker hélt fyrirlestur hérlendis í síðasta mánuði á vegum Hugarafls, Maníu og Unghuga og mættu um 200 manns til að hlýða á hann.
Þar ræddi Whitaker meðal annars um fjölgun í hópi fólks sem er á örorku vegna geðsjúkdóma, þrátt fyrir að notkun geðlyfja á Vesturlöndum hafi aukist.
Nýjustu skrif hans, bókin Anatomy of an Epidemic, hefur valdið heitum umræðum í hinu virta bandaríska geðlæknasamfélagi og er umdeild.
Bókin kom út í fyrra og Whitaker segir að í fyrstu hafi starfsmenn í geðheilbrigðisþjónustu Bandaríkjanna ekkert af bókinni viljað vita.
Það breyttist nýverið þegar sálfræðingar, geðlæknar og iðjuþjálfarar frá sautján ríkjum komu saman, fóru yfir bókina og veltu því fyrir sér hvort hægt væri að snúa þessari þróun við í lyfjanotkun. Hvort það mætti endurskoða lyfjagjöfina.
Ein mesta viðurkenningin, sem segir mér jafnframt að ég er að ná til manna sem hingað til hafa ekki viljað af mér vita, er sú að síðar á þessu ári hefur mér verið boðið að tala á ráðstefnu samtaka geðlækna og sálfræðinga í Bandaríkjunum."
Um svipað leyti og greinaflokkurinn varð til í samvinnu við Boston Globe komst Whitaker á snoðir um skýrslu frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, WHO. Í skýrslunni kom meðal annars fram að fólk sem greindist með geðklofa í vanþróuðum löndum á borð við Nígeríu var líklegra til að ná bata en fólk sem greindist með geðklofa á Vesturlöndum.
Út frá lestri þeirrar skýrslu varð bókin Mad in America til árið 2002.
Whitaker segir niðurstöður skýrslunnar hafa komið honum í opna skjöldu. Í skýrslunni hafi komið fram að í hinum vanþróuðu löndum séu lyf við geðklofa einungis notuð í stuttan tíma.
Fólk lengur á lyfjum
Á þeim tíma sem skýrslan kom út voru lyf við geðklofa í þessum löndum yfirleitt notuð í mjög stuttan tíma og aðeins lítill hluti þeirra sem greindust notaði lyfin í langan tíma. Sjúklingum var því ekki haldið á lyfjum heldur var reynt að skapa þeim þannig umhverfi að þeir gætu verið án lyfja til langframa.
Á Vesturlöndum hefur þróunin hins vegar verið allt önnur. Þar er fólki haldið lengur á lyfjum en bati sjúklinga er hins vegar minni," segir Whitaker og bætir því við að mikil breyting hafi hins vegar orðið í geðheilbrigðisþjónustu þróunarlandanna frá því að skýrslan kom út.
Þar hafa sífellt fleiri ríki tekið upp siði Vesturlandanna og haldið sjúklingum lengur á lyfjum. Og nýlegar rannsóknir sýna að mun færri sjúklingar á þessum stöðum ná endanlegum bata frá því sem var. Þeir stefna því í sömu átt og við í Vesturheimi, meiri lyfjaneysla, minni bati."
Sama þróun á Íslandi
Það er samhengið milli örorku og lyfjanotkunar sem á hug Whitakers allan um þessar mundir. Árlega birtast fréttir þess efnis að notkun á þunglyndislyfjum aukist ár frá ári á Vesturlöndum. Ísland er þar engin undantekning.
Samkvæmt þeim tölum sem Whitaker birtir í bókinni Anatomy of an Epidemic voru 1,2 milljónir Bandaríkjamannamanna á örorkubótum vegna geðsjúkdóma árið 1987. Í dag nær þessi fjöldi upp í fjórar milljónir.
Ef við horfum til þeirrar fjölgunar sem væri eðlileg miðað við mannfjölda og reiknum töluna með hliðsjón af henni ætti fjöldi þeirra sem væru á örorkubótum að vera 1,6 milljónir. Þróunin á Íslandi hefur verið svipuð. Hins vegar virðist einhver misbrestur vera á því að bati náist. Sífellt fleiri eru á geðlyfjum til langs tíma um leið og sá hópur sem hefur þurft að hverfa af vinnumarkaði og virkri þátttöku í samfélaginu vegna geðraskana hefur margfaldast.
Á Íslandi hefur fólki á örorkubótum fjölgað og það þrátt fyrir að mun fleiri séu á þunglyndislyfjum. Þessi tala ætti að lækka en ekki hækka. Og það er stóra spurningin: af hverju?"
Geðlyf er vara sem þarf að seljast?
Whitaker segir ekkert eitt svar við þeirri spurningu út af hverju öryrkjum vegna geðvanda fjölgar þrátt fyrir aukna lyfjanotkun. Þetta geti verið samfélagslegt - fólk hafi meiri áhyggjur af fjármálum sínum og hvað það hafi milli handanna. Uppeldi barna sé allt öðruvísi en það var fyrir tuttugu árum. Heimilisaðstæður eru gjörbreyttar og fólk einangraðra.
Ein af hugsanlegum ástæðum sem Whitaker veltir upp í nýjustu bók sinni er jafnframt sú sem valdið hefur mesta fjaðrafokinu þar ytra: að geðlyf séu vara sem þarf að selja.
Til þess að varan seljist þarf að búa til markað. Sem dæmi: Hér áður fyrr syrgði fólk látinn ástvin og sorgarferlið tók kannski þrjá mánuði og enginn kippti sér upp við það.
Núna fær fólk oftar en ekki þá greiningu að það sé þunglynt og fær lyf við því. Og þá erum við farin að setja fólk á lyf við hversdagslegum" kvillum."
Ofnotkun á lyfjum er önnur ástæða sem Whitaker tilgreinir:
Fyrir tuttugu til þrjátíu árum varð fólk veikt, var lagt inn á sjúkrahús og fékk aðhlynningu í þrjá mánuði, stundum hálft ár eða lengur. En svo gengu veikindin yfir og fólki gafst kostur á að hverfa til síns heima og aðlagast sínu umhverfi á ný. Það festist ekki inni í kerfinu" eins og gerast vill í dag og barðist ekki við krónískan sjúkdóm það sem eftir lifði með stöðugri lyfjaneyslu. Auðvitað væri það gott og gilt ef rannsóknir sýndu að slík meðferð virkaði að einhverju marki."
Whitaker tekur fram að barátta hans sé ekki tilkomin vegna þess að hann sé harður andstæðingur lyfja. Þau geti oft verið af hinu góða og nauðsynleg. Það megi hins vegar ekki nálgast þau sem eina allsherjarlausn. Hann vill sjá breyttar vinnureglur í kringum greiningar og að læknar nálgist sjúklinga á persónulegri hátt en út frá stöðluðum spurningalistum.
Tveir aðilar sem hegða sér á nákvæmlega sama hátt, með sömu einkenni, gera það oftar en ekki af tveimur gjörólíkum ástæðum.
Greiningar fylgja hins vegar gjarnan ákveðnum reglum um einkenni og í kjöl farið lenda einstaklingar í hollum og fá ákveðin lyf. Annar sjúklingurinn þarf kannski lyf í skamman tíma á meðan hinn þarf ekki lyf heldur allt annars konar meðferð.
Auðvitað þurfa sumir lyf til frambúðar en greiningin má ekki vera of hraðvirk. Heilbrigðiskerfið verður að hafa tækifæri til að geta litið til fleiri þátta í umhverfinu og hugsa málið út fyrir lyfjameðferðina."
Börnin áhyggjuefni
Whitaker hefur miklar áhyggjur af bandarískum börnum en sá hópur barna þar í landi sem notar geðlyf fer sístækkandi.
Í Bandaríkjunum var farið að gefa börnum rítalín og geðlyf rétt eftir miðjan 9. áratug síðustu aldar. Þá voru 16.000 börn öryrkjar vegna geðsjúkdóma. Í dag er þessi tala komin upp í 600.000. Og það sem verra er, mörg af þessum börnum nota geðlyf allt sitt líf og halda áfram að vera öryrkjar," segir Whitaker og telur að þarna sé verið að búa til vítahring.
Sú þróun sem á sér stað hjá ykkur á Íslandi gefur til kynna að þið gætuð verið á sömu leið og við í Bandaríkjunum. Þar er mikilvægast fyrir ykkur að rannsaka og skoða hvort börnum með geðraskanir sé að fara fram og ná bata með þessari lyfja notkun. Erum við að hjálpa þeim eða erum við að skapa frekari vandamál fyrir þau í framtíðinni?"
Hugarfarsbreyting nauðsynleg
En það er ljós við enda ganganna að mati Whitakers. Til þess þurfi þó ákveðna hugarfars breytingu, ekki bara innan geðheilbrigðis kerfisins heldur samfélagsins alls.
Maður veltir því fyrir sér hvort samfélagið sé að gera sér lífið þægilegra með allri þessari lyfjanotkun hjá börnum og fullorðnum.
Er umburðarlyndi okkar fyrir því sem er öðruvísi" að fjara út? Mér finnst eins og við séum markvisst að útrýma fjölbreytileika mannfólksins."
Hann segir nítjándu aldar skáld lýsa fallega þeim fjölbreyttu tilfinningum og hegðun sem mannfólkið sýnir.
Fólkið var ekki brjálað eða klikkað - það bara hegðaði sér ekki allt eins. Og sá sem var ekki eins, fékk ekki endilega lyf heldur fékk að vera eins og hann var. Ég held að við þurfum að sýna mannlegu eðli aðeins meiri þolinmæði."
Kenningar Whitakers, meðal annars um samband örorku og aukinnar notkunar geðlyfja, hafa verið mjög umdeildar.
Þá hefur verið bent á að neikvæð umræða um aukna notkun geðlyfja endurspegli rótgróna fordóma í garð lyfja. Þórður Sigmundsson, yfirlæknir á geðsviði Landspítalans, sagði til að mynda í viðtali við Spegilinn árið 2009 að þó margt hafi breyst í viðhorfum fólks til geðsjúkdóma undanfarin ár þá mætti enn finna ótta, hræðslu og fordóma gegn geðsjúkdómum og meðferð þeirra og sá ótti birtist ekki síst í neikvæðri umræðu um aukna geðlyfjanotkun.
-------------------------------
Robert Whitaker er sjálfstætt starfandi blaðamaður í Bandaríkjunum og hefur hlotið fjölmörg verðlaun fyrir skrif sín. Hann var tilnefndur til Pulitzer-verðlaunanna árið 1998 fyrir greinaflokk sem hann skrifaði fyrir Boston Globe. Það sama ár hlaut hann hin virtu George Polk-verðlaun sem Long Island-háskólinn stendur fyrir en meðal þeirra sem hafa hlotið þau eru heimsþekktu fréttamennirnir Edward R. Murrow og Diane Sawyer.
Bækur Whitakers hafa vakið mikla athygli; Mad in America var til að mynda valin besta rit almenns efnis eða fræðirita af samtökum bókasafna í Bandaríkjunum. Hérlendis fást bækur Whitakers hjá Bóksölu stúdenta. Hægt er að hlýða á erindi Whitakers á slóðinni mindpower.this.is.
*Tölurnar koma fram í grein eftir Sigurð Thorlacius, Sigurjón B. Sigurðsson, Stefán Ólafsson og Kristin Tómasson sem í Journal of Mental Health árið 2010 . Þess má geta að öryrkjum með yfir 75% örorku fjölgaði á tímabilinu úr tæplega 5.000 í rúmlega 16.000 þúsund.
-----------------------------------
Grein þessi er tekin af heimasíðu Hugarafls og er birt hér með leyfi.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 11:11 | Facebook
Athugasemdir
Mikið rétt.
Eymundur Lúter Eymundsson (IP-tala skráð) 16.3.2011 kl. 15:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.