Góðan dag kæri hlustandi (pistill eftir Auði Axelsdóttur)
7.4.2011 | 10:25
Í síðasta pistli mínum ræddi ég aðeins um mikilvægi sjónarhorns þeirra einstaklinga sem leita sér aðstoðar í geðheilbrigðiskerfinu, með þá von í brjósti að hægt sé að gera breytingar og eignast betra líf. Ræðum þetta mikilvæga sjónarhorn aðeins frekar í dag.
Í mínu starfi sem forstöðumaður Geðheilsumiðstöðvar innan Heilsugæslunnar og sem Hugaraflskona hef ég ítrekað séð árangur, bata og nýja framtíðarsýn hjá einstaklingum sem á ákveðnum tímapunkti voru komnir í öngstræti með líf sitt. Ég hef notað batamódelið og valdeflingu sem leiðarljós og aðferð til að styðja einstaklinga og hvetja áfram í bataferlinu. Síðar mun ég koma að innihaldi valdeflingar og batamódelsins og segja ykkur meira frá þeim leiðum sem við höfum notað á árangursríkan hátt í teymi stöðvarinnar.
Að vera ekki settur til hliðar vegna tímabundinna áfalla er lykilatriði og þar þarf nánasta umhverfi að koma sterkt inn í, því vonin er ekki mikil hjá þeim einstaklingi sem dregur sig í hlé og ræður ekki við lífið og tilveruna. Aðstandendur eru hér lykilfólk, vinir og aðrir sem hafa reynslu og vilja miðla henni og styðja.
Árið 2009 kom út bókin "Geðveikar batasögur" en útgefandi og ritstjóri bókarinnar var Herdís Benediktsdóttir. Hún fékk fólk með geðraskanir til að segja sögu sína og greina frá batanum. Bókin er mikilvæg heimild um hvað geti nýst hverjum og einum á leið sinni til bata. Jafnframt gefa sögumenn innsýn inn í gleði og sorgir á mjög einlægan hátt sem aðdáun er að.
Í formála bókarinnar segir: "Ágæti lesandi. Þegar þú lest þessar einstöku frásagnir einstaklinga sem hafa átt við geðrænan vanda að stríða ertu leiddur inn í heim sem þú kannski hefur aldrei velt fyrir þér áður, en ert samt svo nærri. Það verður aldrei metið til fulls hvað lagt er af mörkum hjá hverjum og einum sem stígur fram og segir sögu sína. Það er ekki endilega sjálfsagt að fá hlutdeild á þennan hátt í lífi fólks. Hvatinn á bak við það að opna reynsluheim sinn er vonin um að hjálpa öðrum og um leið minnka fordóma og þá vanþekkingu sem gjarnan einkennir nálgun og umræður um einstaklinga með geðræn vandamál."
Þessu tengt langar mig til að gera að umtalsefni áhugavert málþing sem haldið var á vegum Sjónarhóls, um kvíðaraskanir barna og unglinga. Gestir voru á 7 hundrað svo ekki þarf að efast um áhugann og var afar vel að því staðið. Sjónarhóll er ráðgjafarmiðstöð fyrir foreldra barna með sérþarfir á Íslandi. Markmið foreldraráðgjafarinnar er að foreldrar barna með sérþarfir njóti jafnréttis og sambærilegra lífskjara við aðra foreldra og búi við lífsskilyrði sem gera þeim kleift að lifa eðlilegu lífi. Ég hef starfað töluvert með ráðgjöfum Sjónarhóls og það er óhætt að segja að hjá þeim býr mikil reynsla og er nálgunin til fyrirmyndar.
Málþingið hafði yfirskriftina "Hvað ræður för" og vísar þá væntanlega til þess hvernig einstaklingum með kvíða reiðir af í samfélaginu, hvernig gangi að finna bjargráð við kvíðanum og hvaða úrræði standi til boða. Fagfólk fræddi um einkenni og meðferð við kvíða, rannsóknir og horfur. Landlæknir greindi frá því að í skýrslu WHO frá 2005 hefði komið fram að algengasta orsök vanda hjá börnum og ungmennum í skólakerfinu, stafaði af geðheilsu vanda eða um 17%.
En það sem situr eftir hjá mér eru sögur þeirra einstaklinga sem stigu á stokk og greindu á svo einlægan hátt frá reynslu sinni af áföllum sem ollu straumhvörfum í lífi þeirra. Þau sögðu frá ótrúlegri leit að réttu aðstoðinni, misjöfnum samskiptum við mennta- og heilbrigðiskerfi, hvað þau dreymdi um en var svo erfitt að öðlast.
Móðir 16 ára drengs með alvarlega kvíðaröskun sagði frá sinni hólmgöngu í kerfinu leyfi ég mér að kalla það, úrræðaleysi og algjörri uppgjöf. Frásögn hennar tók eðlilega á og hún sýndi ótrúlegan kjark með því að stíga á stokk. Það sem virtist einkennandi í þrautagöngu hennar og barnsins, var að ekki var á þau nægjanlega hlustað og þarfir þeirra virtar að vettugi, móðirin upplifði hroka og fordóma og sagði þau enn vera á milli kerfa sem bentu hvort á annað.
Gunnar Magnús Halldórsson sagði frá mjög alvarlegu einelti í grunnskóla, afleiðingunum og þeirri uppbyggingu sem hann hefur tekist á við. Sama virtist uppi á tengingum hér, það var lítið á hann hlustað og hann var oftar en ekki gerður að vandamálinu enda fór hann að trúa því þegar árin liðu og hann fékk ekki þá hjálp sem hann þráði.
Gunnar beitir nú kröftum sínum að því að fjalla um einelti og gerir myndbönd til að varpa ljósi á vandann. Einelti er áfall og getur sannarlega leitt til geðraskana. Baráttan gegn einelti verður að halda áfram og innlegg í hana verður án efa sjónvarpsmyndin sem vakið hefur töluverða umræðu um Hallgrím Björgvinsson sem verður endursýnd næstkomandi sunnudag á eftir Silfri Egils.
Þórey Guðmundsdóttir sagði á einstakan hátt frá sínu þunglyndi, kvíða og félagsfælni sem hún barðist við í mörg ár og leiddi hana inn í algjört öngstræti á köflum. Hún greindi frá endalausri leit sinni að hjálp og um leið viljanum til að finna leið til bata. Í hennar frásögn mátti enn og aftur heyra að hlustun eftir hennar vanlíðan, hennar löngunum og draumum var ekki mikil og gaf henni ekki mikla von.
Það sem reyndist hjálpa henni mest var stuðningsnetið sem í kringum hana var og samanstóð af fjölskyldu, vinum og síðar meðferðaraðilum sem unnu með henni á jafningjagrunni og síðast en ekki síst Hugarafli. Hún greindi líka frá gleðinni í batanum og þeim árangri sem hún hefur náð með þrautseigju sinni, æðruleysi og húmor.
Þórey á eina af sögunum í "Geðveikum batasögum". Mig langar að endingu að grípa niður í hennar sögu en hún segir þetta: "Ég vildi óska að ég gæti sett hér á blað eina einfalda töfralausn að bata eða uppskrift sem ég bý til eftir að hafa náð góðum bata, en því miður er það ekki svo gott. Hins vegar eru nokkrir mikilvægir punktar sem hafa hjálpað mér og breytt lífi mínu til frambúðar.
Fyrst og fremst vil ég nefna viðhorfsbreytingu úr því að líta ekki á sjálfan sig sem sjúkdóminn sem viðkomandi er greindur/eða þjáist af, heldur manneskju sem hefur ákveðin sjúkdóm. Sjúkdómurinn ætti ekki að stjórna lífi viðkomandi.
Annað breytti miklu fyrir mig og það var að komast úr hlutverki fórnarlambs og taka völdin í mínar eigin hendur. Þar kom hugmyndfræði valeflingar mér til mikillar hjálpar. Ég áttaði mig á að það væri í mínum höndum að breyta lifi mínu, taka ábyrgð á sjúkdómnum mínum og hvaða skref ég tæki í bataferli mínu.
Batinn er engin ein stoppistöð. Það felst svo margt í því að ná bata og því gleymdi ég oft. Fyrir mér þýðir bati betri lífsgæði, að geta talað við fólk óttalaus, losna við eilífan kvíða en öll litlu atriðin skipta líka máli."
Ég vil að síðustu þakka Sjónarhóli fyrir gott málþing og benda ykkur á að það er hægt að hlusta á málþingið í heild sinni á heimasíðu Sjónarhóls.
- Auður Axelsdóttir.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:27 | Facebook
Athugasemdir
Flott grein og flottir pistlar hjá Auði.
Gangi ykkur vel Hugarafls fólk.
Kkv. Valgeir.
Valgeir Matthías Pálsson (IP-tala skráð) 8.4.2011 kl. 08:03
Er þakklátur fyrir að vera þáttakandi í svona öflugu starfi eins og Hugarafl er:)Og það var frábært að sjá þetta málþing og Þórey var stórkostleg og frábært að sjá hvað hún gaf af sér.
Eymundur Lúter Eymundsson (IP-tala skráð) 2.5.2011 kl. 23:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.